08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Einar Arnórsson:

Jeg þykist vita, að menn muni alment vera orðnir þreyttir á þeim verslunarhömlum, sem löggjafarvald og framkvæmdarvald hefir neyðst til þess að leggja á vegna ófriðarins, og vilji gjarnan fá þeim ljett af hið bráðasta. Það var t. d. samþykt á einum þingmálafundi í Árnessýslu að skora á þingið að afnema þegar alla stjórnareinokun á verslun landsins.

Jeg sje af bráðabirgðalögum þeim, sem frv. þessu fylgja, að þau hafa hlotið konungsstaðfestingu 30. apríl. Þá er ástandið svo í heiminum, að þess má vænta, að friður komist á innan skamms, og um leið verði allar verslunarhömlur upphafnar. Jeg verð því að beiðast skýringar á því, hvers vegna þessum lögum skuli vera flaustrað af í apríl, áður en nokkuð hefir frjest um friðarskilmálana. Jeg vil fá að vita ástæðurnar fyrir þessu, því án margra og mikilla ástæðna er þetta mjög hvatvíslega ráðið. Það má vel vera, að nægar ástæður sjeu fyrir þessum lögum, en þær hafa ekki komið fram enn þá, hvorki frá hæstv. stjórn nje útflutningsnefnd.