07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í C-deild Alþingistíðinda. (3608)

114. mál, ritsíma- og talsímakerfi (Hesteyrar- og Ögursími)

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Frumv. þetta flyt jeg í samráði við landssímastjórann og eftir tilmælum hæstv. stjórnar.

Við skoðun landssímastjórans á svæði því, sem þessi fyrirhugaða símalína í Norður-Ísafjarðarsýslu á að liggja um, kom það í ljós, að hún mundi reynast mjög dýr. Hins vegar er því svo farið, að íbúum hjeraðsins er það mjög mikið áhugamál að fá línuna sem fyrst, en þar sem hún er þriðja flokks lína, mundi röðin ekki koma að henni nærri strax. En hjeraðsbúar, með sýslunefnd í fararbroddi, hafa nú skorað á þingið, að þessi lína verði lögð sem fyrst.

Landssímastjórinn vildi bæta úr bráðustu þörfinni, með því að setja loftskeytastöð á Hesteyri og Ísafirði, en hjeraðsbúum þótti það ekki nóg, því að þeir bjuggust við, að það mundi tefja fyrir lagningu aðallinunnar.

Auk þess munu þeir, með fram af ókunnugleika, hafa kviðið því, að afgreiðsla yrði hvorki eins fljót nje örugg með loftskeytum og landlínunni.

En eftir að jeg hefi átt tal við landssímastjórann um þetta mál, hefi jeg sannfærst um, að þetta álit byggist á vanþekkingu. Hann hefir tjáð mjer, að greiðara samband muni nást með loftskeytunum heldur en með hinni fyrirhuguðu línu, samkvæmt ritsímalögunum. En þegar hjeraðsbúar óskuðu eftir línunni sem fyrst, munu þeir ekki hafa rent grun í, hve dýr hún mundi verða. Nú er það upplýst, að hún mundi kosta yfir 260 þús. kr., en það hraðskeytasamband, sem hjer er farið fram á, er meira en helmingi ódýrara og þó tryggara.

Sjerstaklega er mönnum það áhugamál að fá sem fyrst hraðskeytasamband við Aðalvík. Þangað kemur árlega mikill hluti íslenska fiskiveiðaflotans; leggja skipin þangað inn bæði undan óveðrum, og eins til þess að fá vatn. Það er því brýnt nauðsynjamál fyrir sjávarútveg landsins að fá trygt hraðskeytasamband við þennan stað, enda lá fyrir fiskiþinginu áskorun frá 20 fiskiskipum, sem þegar á þessu ári höfðu komið þar. En óhætt er að telja, að yfir 100 fiskiskip komi þar yfir alt árið.

Þetta er því áríðandi mál.

Landssímastjórinn hefir nú viljað verða við þessum óskum, með því að komið verði upp loftskeytastöð á Ísafirði og Hesteyri, og lögð verði þaðan landsímalína að Látrum í Aðalvík. — Þetta samband hefir og afarmikla þýðingu fyrir allar siglingar umhverfis landið, þar sem jafnan væri hægt að fá fregnir um ísrek við Horn, veðráttufar þar o. fl.

Í brjefi frá 15. maí þ. á. segir landssímastjórinn, að með þessari breytingu á landssímalögunum sje hægt að bæta úr þessari miklu þörf smátt og smátt á fáum árum, og sumpart mjög bráðlega, þar sem aftur á móti yrði að leggja hina fyrirhuguðu línu alla í einu, og það má telja víst, að eftir því yrðu hjeraðsbúar að bíða mörg ár enn. —

En það, sem mestu ræður, er hinn mikli verðmunur. Fyrirhugaða línan er áætlað að kosti 265,750 kr., en þessi að eins 127,800 kr., og þar við bætist, að með henni fæst tryggara samband milli þessara staða og Ísafjarðar.

Jeg er því ekkert hikandi við að flytja frv. þetta, og jeg efast ekki um, að þessu verði vel unað. Og ekki efa jeg það, að loftskeytastöðvar þessar, með símasambandi við Aðalvík, verði mikið notaðar, og það ekki síst af þilskipaflotanum.

Jeg vona því, að hv. deild taki máli þessu vel, og vil jeg gera það að till. minni, að frv. verði vísað til samgöngumálanefndar, að umr. lokinni.