16.07.1919
Neðri deild: 8. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í C-deild Alþingistíðinda. (3616)

42. mál, vatnalög

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætlaði að kveðja mjer hljóðs um næsta mál á undan, en þar eð því var flýtt svo mjög, læt jeg mjer nægja að segja það nú, er jeg ætlaði um það að segja. Jeg vil sem sje beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort honum þyki það viðurkvæmilegt að láta landssjóð borga kostnaðinn af prentun slíks orðskrípis sem „útbú“ er.

Þá sný jeg mjer að því máli, sem nú er á dagskrá.

Við, sem berum fram þetta frv., jeg og hv. 2. þm. Árn. (E. A.), höfðum látið okkur nægja, er málið var síðast á dagskrá, að vísa til álits meiri hluta fossanefndar og þeirra ástæðna, er þar væru færðar fyrir þessum lögum. En þá tókst svo óheppilega til, að þær voru ekki tilbúnar, og var því málið ekki rætt þá. Og þar sem álit meiri hl. fossanefndar er ekki enn tilbúið, finst mjer rjett vera að ræða málið ekki til þrautar nú, heldur fresta 1. umr. þangað til menn hafa kynst áliti meiri og minni hluta fossanefndar. En það hygg jeg, að mestar og aðalumr. um þetta mál verði við 1. umr. þess, því að þá verði mest talað um stefnu og grundvöll vatnalaganna. Það er því mitt ráð, að á þessu stigi málsins verði skipuð í það nefnd manna, er athugi alt nákvæmlega. Þetta er svo umfangsmikið mál, að sjálfsagt er að gefa hv. þm. kost á að kynnast því eftir föngum. Þegar hin væntanlega nefnd hefir svo lagt fram athugasemdir sínar, þá hafi menn bæði tíma til að athuga álit hennar og álit meiri og minni hl. fossanefndar. Þá fyrst, er svo er komið, geta menn verið undir það búnir að ræða málið til þrautar. Þó hygg jeg það rjettast, að þessu stórmáli yrði ekki ráðið til lyka á þessu þingi, því það er engu síður nauðsynlegt, að kjósendum sje gefinn sem mestur kostur á að kynnast þessu máli, svo að þeir geti gert sjer þess fulla grein, hvaða stefnu þeir taki í málinu, og þurfa þeir eigi siður tíma til þess en hv. þm. Væri því æskilegt, að hv. þm. gerðu sjer málið sem ljósast á þessu þingi, en það geta þeir með því að ræða það kapplaust og með röksemdum, og reyni þannig að finna hina rjettu leið, því jeg hygg, að allir geti orðið sammála um, að þetta mál verði aðalmálið við næstu kosningar.

Þessi frv. eru verk fossanefndarinnar, það er að segja meiri hl. hennar, sem hefir samið þau öll, nema hvað minni hl. vann og framan af við fyrsta bálkinn, en hann var saminn áður en fossanefndin klofnaði. Annars kemur skýrslan um starfsemi fossanefndar út um leið og álit meiri hl. hennar, og skal jeg því ekki gera annað nú en drepa á einstök atriði til skýringar.

Skömmu eftir að fossanefndin hóf starf sitt, varð nefndarmönnunum það ljóst, að allflest stórvötn, er hægast var að virkja, voru komin í hendur útlendra auðmanna, sem ýmist höfðu keypt þau eða leigt. Til þess að fá fulla viss um, hvað enn væri ekki í höndum útlendinga af vötnunum, var hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) falið af nefndinni að semja skrá yfir þau. Birtist sú skrá bæði í pjesa þeim, sem hann hefir látið prenta, og í áliti meiri hl. fossanefndar.

Þessi rannsókn gaf næga ástæðu til, að þess var farið á leit við stjórnina, að hún stöðvaði vatnasal og vatnaleigu meðan nefndin væri að starfa og gæfi út bráðabirgðalög um þetta. Það vakti sem sje fyrir nefndinni að binda ekkert vatn óeðlilegum böndum, frekar en orðið væri. Þá vissu nefndarmenn ekkert um það, að hvaða niðurstöðu þeir mundu komast um eignarrjettinn eða þess háttar atriði. Hún var alveg sammála um það, að hennar starf væri í því fólgið að rannsaka, hvernig landsmenn gætu fengið svo ódýra vatnsorku, sem hægt væri. En það þóttist nefndin sjá, að ef haldið væri áfram sölunni, þá mundi vatnið stíga svo óeðlilega í verði, að þjóðinni yrði ókleift að borga vatnsorkuna, er farið væri að virkja vötnin. Nefndin var ekki svo heppin, að fá talið alla landsstjórnina á sitt mál, og afleiðingin varð sú, að meðan nefndin hefir setið að starfi hefir meiri hluti Hvítár í Árnessýslu gengið kaupum og sölum, en lítið hafði verið selt af henni er nefndin hóf starf sitt.

Jeg vil geta þess, að það var að vissu leyti erfið vinna, er nefndin átti, ekki vegna þess eins, að verkefnið var mjög mikilfenglegt og tíminn stuttur, heldur og vegna erfiðleika ýmsra, er af stríðinu leiddi. Það var t. d. lítt mögulegt fyrir nefndina að ná í þær bækur, er þurfti, og var það meðal annars þess vegna, að hún varð að taka sjer far til útlanda; tókst henni í þeirri ferð að fá þær bækur, er hún nauðsynlega þurfti. Er nefndin kom úr þeirri ferð, og þess hafði áður verið krafist, að hún hefði lokið störfum sínum fyrir næsta reglulegt Alþingi, þá sá hún, að hún var of liðfá. Var þá bætt við hana einum manni, sem sje hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Hefir hann síðan starfað með nefndinni. það er undarlegt, að nefndin skuli vera talin klofin, því að mínu viti er hún óklofin. Mjer er að vísu ekki kunnugt um, hvað minni hlutinn hefir skrifað síðan leiðir okkar skildu, en þangað til við skildum vorum við allir á sama máli. Áður en við skildum var mjer falið að rannsaka sögulega og lagalega, hverjar skoðanir hefðu ríkt hjer á landi um eignarrjett á vatni. Var það verk mjer örðugt, enda var mjer falið það áður en aðstoðarmaðurinn bættist við nefndina, en honum hefði verið það verk tífalt ljettara. Þar sem jeg kemst að fastri niðurstöðu í þessu efni í ritgerð minni, þá er það að eins um minn skilning á lögum að ræða, en ekkert annað, því jeg er ekki svo voldugur, að þegar sje hlaupið til að framkvæma þann skilning, er jeg álít rjettan vera. Það er því með öllu rangt, sem komið hefir fram í umræðum utan þings, að jeg hafi komið fram með einhverja vatnsránskenningu. Það, sem fram hefir komið, er skilningur á lögum, og jeg held, að enginn fossanefndarmanna sje svo óskeikull, að óhætt væri að veita honum einkaleyfi fyrir rjettum skilningi á lögum, ekki einu sinni hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem þó er viðurkendur lagamaður. Hvort þessi eða hinn skilningurinn er rjettur, heyrir algerlega undir dómstólana, og er það þeirra að skera úr því. Sjerstaklega höfum við, sem höldum því fram, að vatn geti ekki talist eignarrjetti háð, ekki gert neina tilraun til þess að koma í veg fyrir, að dómsólarnir feldu úrskurð um málið, og er það því að eins leiðinlegur misskilningur, að í ritgerð minni, eða hv. sessunauts míns (E. A.), sje kveðinn upp óskeikull dómur í þessu máli. Í þessu máli, sem öðrum, á því hver maður aðgang að dómstólum landsins, ef honum þykir á sig gengið.

það er ekki nema eðlilegt, að í ritgerð mína, sem menn hafa átt kost á að lesa, vanti ýmislegt, þar eð jeg er ekki lagamaður, og þar sem þetta er í fyrsta sinn, sem málið er rannsakað. En við þessa rannsókn hefir mjer orðið ljóst, að jeg varð að láta af þeirri skoðun, er jeg hafði áður haft, að einstaklingurinn hefði eignarrjett á vatni. Þá var mjer það ekki með öllu ljóst, hvort vatnið væri eign ríkisins, eða heyrði að eins undir yfirráð þess. En þó fjellst jeg heldur á þá skoðun, að vatnið heyrði undir yfirráð ríkisins. Síðan hefir hv. 2. þm. Árn. (E. A.) ritað ágæta og merka ritgerð um eignarhæfi vatns.

En það, sem vakir fyrir meiri hluta fossanefndar, og það, sem hann var sammála um, var að fella ekki neinn úrskurð í þessu máli og láta það því enn þá heyra undir dómstólana. Nú er eignarrjettur einstaklingsins friðhelgur samkvæmt 50. gr. stjórnarskrárinnar, og gæti því hver sá, er áliti gengið á þann rjett sinn, farið til dómstólanna og krafist bóta. Það sjest því augljóslega, að það hefir aldrei verið ætlun meiri hl. fossanefndar, að fara í kringum dómstólana í þessu máli. Sú eina aðferð til að fara í kringum dómstólana er að samþ. nú á þessu þingi lög um, að einstaklingarnir skuli eiga vatnið, eins og minni hl. leggur til, en það sjá allir, hversu rangt það væri af þinginu, sem á að gæta rjettar landsins í hvívetna.

Öll þessi frv. eru ein heild, og mættu því gjarnan vera í einum bálki, en það varð þó ofan á í nefndinni að koma fram með þau sem sjerstök frv.

Deilumálið, sem jeg gat um, er aukaatriði, er dómstólar skera úr. Hitt er aðalatriði málsins, hvort vernda skuli landið fyrir stóriðnaði eða ekki.

Í því sambandi vil jeg leyfa mjer að segja nokkur orð um stóriðnað, sem jeg hygg að sje skoðun allra nefndarmanna.

Eins og kunnugt er, eru nýir og fólksfrekir atvinnuvegir hættulegir bændalandi, sjerstaklega landi, sem er svo fáment, að það hefir ekki nægan vinnukraft til að reka atvinnuvegi landsins, sem fyrir eru. Svo hefir það reynst hjer á landi. Má þar fyrst nefna þilskipaútveginn. Þegar hann hófst drógst sveitafólkið svo til sjávarins, að bændur áttu erfitt með að fá nægan vinnukraft til að reka landbúnaðinn. Þetta öfugstreymi jafnaðist þó eftir nokkur ár, er fólkinu fjölgaði. Síðan kom síldarútvegurinn til sögunnar, og nú er svo ástatt, að bændur eiga erfitt með vinnukraft, enda er hann þar að auki svo afardýr, að það er vafasamt, að landbúnaðurinn þoli hann. En nú er von um, að þetta jafnist aftur smám saman, fólkinu fjölgi nægilega til þess að reka báða þessa atvinnuvegi, ef engum nýjum atvinnuvegum verður við bætt, sem heimta mikinn vinnukraft.

En dettur nú nokkrum í hug, að það yrði gróðavænlegt fyrir landbúnaðinn, ef leyft yrði að virkja margra miljóna hestöfl í landinu? Þá ætti bóndinn ekki að eins að togast á við fiski- og síldarútveg, heldur og við stóriðnað. Við getum áætlað, að „Titan“ ljeti virkja 1 miljón hestöfl við Þjórsá. Menn, sem sett hefðu slíkan stóriðnað á stofn, mundu ekki sleppa vinnulýðnum fyrir ekki neitt. Þeir mundu þvert á móti færast svo í aukana, þegar fyrstu árin, að þeir drægju til sín nægan vinnukraft, hvað sem hann kostaði, til þess að eigi stöðvuðust þau fyrirtæki, sem kostað hefðu um 250 miljónir. Og jeg hygg, að erfitt yrði fyrir bóndann að togast á við þá. En hvernig færi þá um landbúnaðinn? Nú býst jeg við, að allir verði mjer sammála um það, að bændurnir sjeu kjarni þjóðarinnar. Og eyðilegging á landbúnaðinum yrði ekki betri en stærstu eldgosin samlögð. En það mundi þó verða afleiðingin. Þeir segjast þurfa einn mann við rekstur hverra 80 hestafla til iðnaðar. Ef þeir virkja 1 miljón hestafla, þurfa þeir 12 þúsund manns. Nú má auðvitað gera ráð fyrir, að fæstir þessara manna kæmu hingað einhleypir, og mun mega telja 5–6 menn að jafnaði til fjölskyldu hverrar. Það verða samtals um 60 þúsundir. Á landbúnaði lifa nú samtals um 48 þúsundir. Þó að allir, sem stunda landbúnað, yrðu teknir til þess að virkja þessa einu miljón hestafla, mundu þeir ekki hrökkva til. En það er heldur engin hætta á, að þeir verði teknir allir, heldur mundi verða fluttur inn erlendur verkalýður, hver úr sínu landi, þar sem hægt yrði að fá hann ódýrastan. En iðnaður þessi mundi samt draga innlenda verkamenn frá landbúnaðinum. Ef við gerum ráð fyrir, að hann næði 10 þús. innlendra verkamanna á sitt vald, mundi afleiðingin verða sú, að landbúnaðurinn legðist í auðn, nema á svæðum í grend við iðjuverin. Og ekki þyrfti að virkja meira en af vatnsaflinu í Þjórsá, til þess að drepa landbúnaðinn. Þó er vatnsaflið í Þjórsá að eins 1/6–1/10 hluti þess vatnsafls í landinu, sem hægt er að virkja.

Þar að auki er þess að gæta, að það hefnir sín hjá fámennri þjóð, sem býr strjált á mjórri gjörð umhverfis hálendi, að láta flytja inn í landið þúsundir af erlendum verkalýð. Og ef það er ekki bláber uppgerð hjá okkur, að okkur þyki vænt um land vort og þjóð, ef það er ekki lýgi, að „Íslendingar viljum við allir vera“, ættum við að líta í kringum okkur, áður en við leyfðum þúsundum erlendra verkamanna að setjast að í landinu. En ást okkar á þjóðerni voru og tungu getur ekki verið tóm uppgerð. Það getur ekki verið ósatt, að við elskum land vort og þjóð. Því að hvers vegna erum við orðnir sjálfstæð þjóð? Það er að eins vegna þess, að við höfum varðveitt tunguna og þessa fornu merku, menningu, er óx upp hjer í landi. Þess vegna höfum við notið virðingar annara þjóða og fengið viðurkenningu fyrir rjetti vorum. En ef við sýnum tungu vorri og þjóðerni ódygð, erum við steindauðir. Ef við gerumst svo trygðarlausir og tírarlausir, erum við dauð þjóð.

En nú munu sumir ef til vill segja, að við þurfum ekki að flytja svo mikinn fjölda útlendinga inn í landið, að okkur stafi hætta af. En hvað þolir þjóðin mikinn innflutning? Hún mundi ekki þola 100 manns á ári, ef svo hjeldi áfram um langt skeið, og er því auðsætt, að hjer gæti stóriðnaður ekki komið til mála fyrst um sinn, eða í nálægri framtíð.

Jeg býst við, að það muni sýna sig, að eini vegurinn til þess að hafa gagn af vatnsaflinu sje að virkja smærri fossa til ljósa og hitunar og í þarfir landbúnaðarins og þ. u. 1. En þetta má gera með litlu vatnsmagni, án þess að það ylli tjóni á hag þjóðarinnar. En jeg tel ókleift að virkja stóru vatnsföllin nú sem stendur og í næstu framtíð. Það mundi verða dauði landbúnaðarins. Og ef jeg væri bóndi og ætti reipi, ljeti jeg þau heldur hanga uppi á skemmulofti heldur en ljá þau nágranna mínum til þess að hengja í sjálfan mig.