08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Einar Arnórsson:

Mjer þykir leiðinlegt að heyra, að einhver dularhjúpur skuli hvíla yfir þessu máli, dularhjúpur, sem hæstv. stjórn neitar að svifta af, fyr en hv. þm. Dala, hafi komið fram með fyrirspurn sína. En hver getur sagt, hve nær það verður? Má vera, að það verði ekki fyr en í þinglok. En mjer skilst, að hv. þingmenn verði að vita, hversu brýnar ástæðurnar eru fyrir þessum lögum, því að eftir þeim hljóta þeir að ákveða örlög þeirra. Ef það reynist t. d. satt, að stjórnin hafi þegar bundið sig með sölusamningi þá verður hún hið bráðasta að fá samþykki þingsins, svo hún standi ekki eins og glópur. Það er því í allra þágu að fá dularhjúpnum svift af sem fyrst.