17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í C-deild Alþingistíðinda. (3622)

42. mál, vatnalög

Sveinn Ólafsson:

Er jeg hefi nú hlýtt á ræður manna hjer, flýgur mjer í hug setning Skarphjeðins: „Mikils þótti þeim þá við þurfa“. Þrír af mestu málskrafsmönnum hv. deildar hafa risið upp og mótmælt því, sem jeg sagði í ræðu minni í gær um vatnalagafrv. meiri hl.

Einn þeirra reyndi aðallega að sýna fram á, að jeg hefði haldið mjer við aukaatriði, en ekki aðalatriði í þessu máli, og hefði þetta aukaatriði valdið klofningi fossanefndarinnar. Það skal hjer fram tekið út af þessari freklegu fullyrðingu hans, að ósamkvæmni um þetta kemur glögglega fram hjá þessum hv. mótstöðumönnum mínum.

Hv. frsm. meiri hl. (B. J.) sagði í framsöguræðu sinni: „Ef nú eignarrjettur einstaklingsins yfir vatninu er löglega viðurkendur, þá snarar ríkið frá sjer sínum rjetti til hans.“ Og hv. þm. (B. J.) virtist telja slíkt hættulegt. Hann virðist því kominn býsna nærri þeirri ályktun, að um rótnæman ágreining eða mismun sje að ræða. Eftir frv. minni hl. er rjettur einstaklingsins viðurkendur, en eftir frv. meiri hl. ekki viðurkendur. Annars er það fráleitt, að jeg áliti tilvitnuð orð hans rjett, að eitthvað nýtt væri skeð, ef rjettur landeigenda væri viðurkendur, því þessi rjettur einstaklinganna hefir verið viðurkendur hjer á landi frá því lög voru fyrst sett landsmönnum, og frv. minni hl. er beint framhald þeirrar lagasetningar, sem hjer hefir jafnan gilt um yfirráð vatnsins.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Mjer fanst hann vera að gefa mjer olnbogaskot í ræðu sinni í gær, en gafst ekki færi á að svara honum þá. Hann vítti það mjög harðlega, að jeg hefði leyft ákveðnu blaði að birta till. minni hl., áður en meiri hl. gat birt sínar, og hann gaf jafnvel í skyn, að þessi birting hefði gengið á undan afhending álitsins til stjórnarinnar. Þetta taldi hann mestu ósvinnu og velsæmisbrot.

Það er nú eigi alveg spánnýtt að heyra þetta í ræðu eða riti hjer um slóðir, en um hitt er eigi hirt, þótt öll atvik að þessu sjeu rangfærð.

Jeg verð því fyrst og fremst að geta þess, að minni hl. fossanefndar afhenti stjórninni álit sitt 14. apríl með vatnalagafrv. og greinargerð, og að jeg afhenti mitt sjerstaka álit 19. apríl með sjerleyfislagafrv. og greinargerð, jafnframt og jeg sagði upp störfum í fossanefndinni.

Minni hl. hafði þá eigi komist að prentun á skjölum sínum vegna prentunar á frv. meiri hl., sem stjórnin fjekk um sömu mundir. Stjórnin sá sjer eigi fært að taka frv. til flutnings, og var með því svo gott sein ákveðið, að þau skyldu verða þingmannafrv.

Við minni hl. menn töldum okkur því hafa fulla heimild til að auglýsa öðrum niðurstöður okkar, og það því fremur, sem einnaf meiri hl., hv. þm. Dala. (B. J.), hafði þá löngu látið sjerprenta til útbýtingar og útbýtt ritgerð sinni úr áliti meiri hl. um eignarrjett að vatni. Hjer var því vandalaus eftirleikur og auðsætt, að ef nokkur hefir brotið hjer velsæmisreglur, þá er það hv. þm. Dala. (B. J.), sem ríður þar á vaðið.

Annars er alt þetta skraf um velsæmisbrot hjegóminn einber. Þjóðin átti heimting á að sjá niðurstöður af starfi nefndarinnar svo fljótt, sem verða mátti, og það var hrein og bein ósvinna við hana að fela nefndarálitið í skúmaskotum fram til þings. — Um þetta virtist líka hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mjer samdóma á vorþinginu 1918, því þá vítti hann mjög harðlega seinlæti fossanefndar í að birta almenningi niðurstöður rannsóknanna.

Jeg get að mestu gengið fram hjá þeim ógeðslegu ummælum hv. þm. V.- Sk. (G. Sv.), sem fjellu hjer í gær um framliðinn mann, en illa snertu þau mig og óverðskulduð tel jeg þau verið hafa. (G. Sv.: Hver var það?). Hv. þm. vissi í gær, hver það var, og hlýtur í dag að muna svo langt.

Þá lagði hv. þm. A.-Sk. (G. Sv.) mikla áherslu á það, að ágreiningur milli meiri og minni hl. fossanefndar væri nær enginn, og vildi sanna þá kenningu með því, að báðir nefndarhlutar væru sammála um rjett ríkisins til vatns í öræfum og almenningsafrjettum.

En þetta sannar einmitt það, sem minni hl. heldur fram, að vatnsrjettindin fylgja ávalt landinu, hvort heldur einstaklingar eiga landið eða ríkið, og enginn getur efast um, að ríkið eigi það land, sem enginn einstaklingur getur helgað sjer.

Þá þótti mjer undarlega við bregða, er hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fór að bera saman ákvæði vissra greina í frv. meiri og minni hl. og komst að þeirri niðurstöðu, að 2. gr. í frv. meiri hl. og 2. gr. í frv. minni hl. segðu báðar það sama. Jeg vil svara þessu með því, að biðja menn að lesa greinarnar saman. Að mínu áliti segir 2. gr. í frv. meiri hl. ekki neitt. Hún tekur það eitt fram, að hver megi hagnýta sjer vatn eftir því, sem lög standa til, og er það víst ekki meira en hver maður vissi áður. Hins vegar markar 2. gr. hjá minni hl. glögglega rjett landareignar til þess vatns, sem á henni er. Þetta geta hv. þm. sjálfir sjeð og athugað, og þýðir ekki að þræta um slíkt.

Annars langar mig til að benda á eitt atriði, sem ekki kom fram við umr. í gær. En það sýnir, að öll nefndin var á líkri leið framan af, sem minni hl. er nú. í marsmánuði 1918 tilkynti nefndin stjórninni, að hún teldi vatnsrjettindi í öræfum og almenningsafrjettum ríkiseign, og því óheimil sala á þeim. Stjórnin tilkynti síðan sýslumönnum um land alt, að ríkið gerði kröfu til þessara vatnarjettinda. Af þessu er það ljóst, að nefndin hefir öll verið sammála fram í marsmánuð 1918 um þann sjerstaka rjett ríkisins til vatns á þessum svæðum, en í því liggur eftir andstöðuályktuninni, að hún hafi ekki talið ríkið eiga vatnsrjettindin á löndum einstakra manna.

Þá vil jeg leyfa mjer að víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Það var reyndar ekki ýkja margt í ræðu hans, sem jeg finn ástæðu til að athuga. Hann var tiltölulega hógvær, enda hafði jeg ekki gefið honum neina ástæðu til stóryrða. Samt var ýmislegt í ræðu hans ekki rjett. Hann sagði t. d., að meiri og minni hl. nefndarinnar hefði verið sammála um, að ríkið ætti vatn alt utan heimalanda lögbýla. Hjer ruglar hv. ræðumaður (E. A.) saman landareign og heimalandi lögbýlis, svo sem gert er í 17. gr. vatnalagafrv. meiri hl. Heimaland er sá hluti landareignar, sem búsmali gengur í, og getur á stórum jörðum verið meiri hl. landareignar. (E. A.: Þetta er deila um orð. Jeg nefndi landareign). Jeg get eigi gert að því, þótt hv. þm. (E. A.) misskildi orðið heimaland, en jeg tók þetta fram, af því að minni hl. hefir alls eigi ruglað saman heimalandi og landareign, eins og hv. þm. (E. A.) gaf í skyn. Minni hl. hefir altaf talið, að jarðeigandinn ætti vatn út að landamerkjum, en ekki eingöngu í heimahögum.

Háttv. ræðumaður (E. A.) vildi og halda því fram, að það skifti litlu máli í raun og veru, hvort viðurkenning eignarrjettar einstaklinga á vatninu yrði ofan á eða ekki, því helstu fallvötn væru komin úr höndum eigendanna. Þetta er ekki rjett. Sum helstu fallvötnin eru enn þá óseld, t. d. Lagarfljót og Botnsá í Hvalfirði, auk fjölda annara vatnsfalla sunnan og austan á landinu og víðar. Og margar ár eru enn órannsakaðar.

Hv. þm. (E. A.) og þm. Dala. (B. J.) vildu og leiða rök að því, að við værum sammála að því er sjerleyfislöggjöfina snerti. Jeg get með sanni sagt, að mjer væri það mikið gleðiefni, ef við gætum orðið þar sammála. En jeg er því miður hræddur um, að okkur greini töluvert á í því efni. Á það benda ummæli hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Jeg vissi vel, að þau áttu að skiljast sem sneið til mín um það, að jeg hefði rekið erindi fossafjelagsins Titan. Jeg tek mjer ekki slíka títuprjónastingi nærri. Jeg vil um það benda á svar mitt við þingsál. frá 15. sept. 1917, um skipun fossanefndar, sem lesa má á bls. VI til XI í nefndaráliti minni hl.

Hlutafjelagið Titan hefir sótt um leyfi til þess að virkja alla Þjórsá. — Jeg hefi í tilvitnuðu nál. lagt á móti slíkri virkjun, og lagt áherslu á, að slík virkjun, — ef Alþingi vildi leyfa hana, — mætti ekki ná lengra en að tveim neðstu fossunum árinnar. Auk þess hefi jeg lagt til, að margfalt harðari sjerleyfisskilyrðum yrði beitt en fjelagið fer fram á, og undanþágukröfum þess um skattgjald að litlu eða engu sint. Og þetta ætti þá að vera að draga taum fjelagsins. (B. J.: Jeg var einmitt að reikna, hversu mikinn mannafla þyrfti til þess að virkja þessa tvo fossa). Jeg skal ekki rekja þann reikning að þessu sinni. Jeg geri ráð fyrir, að við reiknum þar ef til vill báðir með röngum tölum. En um þá ljelegu vörn fyrir slæmum málstað, sem mótstöðumennirnir þykjast hafa í því, að væna mig um erindisrekstur fyrir útlent fossafjelag, get jeg að öðru leyti sagt það, að jeg læt slíkt inn um annað eyrað og út um hitt. Veit, að öllu voru sjálfstæði og menningu er óhætt fyrir útlendum áhrifum, ef enginn stendur nær fossafjelögunum útlendu af nefndarmönnunum en jeg.

Þá vil jeg athuga ofurlítið atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) í gær. Það eru hin svo nefndu missmiði á fossalöggjöf Norðmanna. Hann hjelt því fram, að viðurkenningin í fossalögum þeirra frá 1887 á eignarrjetti einstaklings á fossum stafaði af fljótfærnislegri slysni, sem nú væri verið að reyna að kippa í lag. En þetta er alls ekki rjett. Vatnalög Norðmanna frá 1887 voru bygð á ítarlegri og langvinnri rannsókn færustu manna þeirra um sögulega og lagalega undirstöðu þessara laga. Og þessi „slysni“ á sjer því engan stað. Hið sama hefir þá og hent Svía og Finna, því að einnig þeir viðurkenna eignarumráð landeigenda að vatni, og sama má segja um flestar germanskar þjóðir sunnar í álfunni, að þær viðurkenna þennan rjett að meira leyti eða minna.

Þá var hv. 2. þm. Árn. (E. A.) að gera tilraun til að strá sandi í augu mönnum með því að bregða mjer um bandalag við hina svo nefndu „Georgista“. Þetta kemur reyndar harla lítið við fossamálinu, enda get jeg ekki skilið það sem brigsl í minn garð. (B. J.: Þetta var spurning). Nú, ef það er spurning, hefir hún auðvitað verið borin fram af góðgirni og einlægni, og þá sjálfsagt að svara henni líkt. Jeg verð að kannast við, að jeg er harla ófróður um kenningar þessara „Georgista“, og mun þó einhvern tíma hafa lesið eitt hefti af „Rjetti“ eða svo, þar sem hreyft er við þeirri kenningu. (E. A.: Var gaman að lesa það?). En það mun sjást við kosningarnar í haust, hvar þessir „Rjettar“-menn standa í fossamálinu. Annars vegar liggur mjer í ljettu rúmi, þótt hv. þm. (E. A.) vilji bendla mig við jafnaðarmenn eða „Georgista“. Það er alveg ósjeð, hvor okkar sækir meira eftir hylli þeirra. — Jeg býst við, að fleiri æski að taka til máls, og skal því ekki fjölyrða um þetta frekar.