14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í C-deild Alþingistíðinda. (3644)

54. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkauptún

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það er eftir beinni áskorun þingmálafundar á Siglufirði, að við þm. Eyf. flytjum þetta frv. um breyting á hafnarlögum Siglufjarðar. Að vísu eru lögin að eins 4 ára gömul, og gæti því virst, sem breytingin sje fullsnemma fram borin. En sje nánar athugað, verður það ljóst, að á þessu er hin fylsta nauðsyn. Ástandið er annað og tímarnir gerbreyttir. Lögin eru því nú orðin ófullnægjandi og óviðeigandi, og leiðir af því, að óhjákvæmilegt er að fá þeim komið í það horf, að þau geti náð tilgangi sínum.

Verulegasta breytingin, sem þetta frv. fer fram á, er sú, að framlag landssjóðs til bryggjunnar verði 150 þús. kr., og einnig ætlast til, að ráðuneytinu veitist heimild til að taka ábyrgð á alt að 450 þús. kr. láni til fyrirtækisins. Þetta eru að vísu háar tölur, en þó ekki hærri en svo, að þær eru í fullu samræmi við fyrirmæli núgildandi laga, þar sem alt verðlag er fjórum sinnum hærra nú en þá. Aðrar breytingar, sem frv. hefir í för með sjer, eru að eins sjálfsagðar afleiðingar af lögum um bæjarstjórn á Siglufirði, sem jeg hirði ekki að fara frekar út í við þessa umr.

Á Siglufirði hagar svo til, að öll strandlengjan er leigð einstökum mönnum, og því á þeirra fulla valdi öll not lóðar og bryggju. Enginn getur gengið svo af landi eða á, að ekki þurfi hann yfir þær að fara. Enginn flutt svo nokkuð á skip eða úr, nema að þeirra leyfi komi til. Alt eiga menn undir náð þeirra og geðþótta. Kaupstaðurinn á hvergi rjett til sjávar, og um veiðitímann, þegar umferðin er mest, þörfin brýnust fyrir almenna umferð og almenn not, þá eru bryggjurnar þjettskipaðar síldarverkunarfólki, síldartunnum og umgirtar skipum. Öll umferð aðkomumanna og afgreiðsla skipa er því af sjálfu sjer bönnuð. Þess vegna hafa strandferðaskipin og önnur flutningaskip þráfaldlega orðið að bíða um lengri tíma eftir afgreiðslu, einstaklingum og útgerðinni til stórtjóns. Aðkomuútgerðarmenn, sem þangað leita um veiðitímann, eiga það alt undir náð þeirra, sem ráð hafa á landi og bryggjum, hvort þeir geti lagt upp afla sinn eða ekki. Úti fyrir Siglufirði eru einhver bestu fiskimið landsins, og þangað leita útgerðarmenn úr flestum sýslum milli Horns og Langaness til fiskiveiða. Siglufjörður er önnur besta höfn Norðurlands, og aðsókn af þessum ástæðum afarmikil og hefir farið stöðugt vaxandi. Baginn, sem af plássleysinu hlýst, verður því altaf meiri og tilfinnanlegri, eftir því sem samgöngur aukast og sjávarútvegurinn er rekinn af meiri dugnaði. Þetta má því engan veginn skoða sem smávægilegan baga fyrir einstaka útvegsmenn, heldur óbeinlínis stórtjón fyrir mikinn hluta norðlenskra útgerðarmanna og þá þjóðfjelagsins í heild sinni. Það má þess vegna ekki eiga sjer stað lengur, að teptur sje aðgangur að bestu fiskistöð landsins, þegar alt útlit er fyrir, að hægt væri að koma í veg fyrir það með tiltölulega vel kleifum kostnaði.

Það hefir verið ætlast til, að bryggjan yrði bygð yst á Siglufjarðareyri, norðan við allar aðrar bryggjur. Fyrir norðan hana yrði svo bygður brimbrjótur, bæði henni til varnar og svo öðrum bryggjum, sem innar eru á eyrinni.

Að í þetta verk hefir enn ekki verið ráðist, má næstum eingöngu kenna dýrtíðinni og þar af leiðandi því mikla fjármagni, sem til þess þarf. Ef verðlag breytist til batnaðar, þótt ekki verði að miklum mun, þá verður að vinda bráðan bug að framkvæmdum í þessu máli.

Þá er að minnast á fjárhagshlið málsins. Mætti ætla, að hún væri ekki sem glæsilegust fyrir landssjóð, eftir þeim háu tölum eða fjárframlagi, sem jeg nefndi. En við athugun sjest, að þetta er ekki. einungis brýnt nauðsynjamál fyrir sjávarútveg landsins og sjálfsögð samgöngubót, sem því opinbera er skylt að styrkja, heldur líka til stórhagnaðar fyrir landssjóð, bæjarfjelagið og hafnarsjóð, og í sambandi við það vil jeg benda á, að hafnarnefnd hefir áætlað, hve miklar beinar tekjur bryggjan mundi gefa af sjer árlega. Hún ætlast til, að við bryggjuna geti legið eða rúmast 8 skip, að hún yrði leigð 7 síldveiðiskipum og þau fengju meðalafla. Einnig byggir hún á 50 aura tolli af tunnunni. Með þessu móti reiknast hagnaðurinn um 12 þús. kr. árlega fyrir landssjóð, og nokkru meiri fyrir hafnarsjóð. Menn geta reiknað út hagnaðinn, ef ákvæðið um 4 kr. toll af síldartunnu verður samþ., að þá verður upphæðin allálitleg. En óbeini hagnaðurinn verður ekki talinn í krónum.

Mjer finst svo ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar að umr. lokinni.