22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í C-deild Alþingistíðinda. (3655)

60. mál, atvinnufrelsi

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. flm. (B. J.) sagði, að það hefði verið eðlilegra, að svona frv. hefði komið frá stjórninni. Jeg skal fullkomlega kannast við það, að hefði frv. átt að koma fram á annað borð, þá hefði það átt að koma frá stjórninni. Einu sinni í vetur mintist hv. þm. (B. J.) á það við mig, hvort stjórnin ætlaði ekki að koma fram með svona frv. Þó að málið heyrði eigi undir mig beint, heldur undir hæstv. atvinnumálaráðherra, þá svaraði jeg á þá leið, að þótt jeg liti svo á, að það væri að vísu eðlilegt að setja búsetu sem skilyrði til rekstrar sumra atvinnuvega hjer, þá teldi jeg tæplega ástæðu til að segja fyrir um allar atvinnugreinar í einum lögum. Jeg þekki ekki dæmi til þess hjá neinni þjóð, en hitt er satt, sem hv. þm. (B. J.) sagði, að til eru hjá Dönum þannig löguð ákvæði, um sumar atvinnugreinar.

Annars fanst mjer hv. þm. (B. J.) gera nokkuð mikið úr því, að snúa sjer að Dönum. Þetta frv. snertir margar fleiri þjóðir, og hv. þm. (B. J.) þurfti ekki að fara að tala um það, sem ekki er enn komið fram. Þannig er nægur tími að tala um hræðsluna við Dani, þegar hún er komin fram, en ekki áður. Annars er það fjarri mjer að tala á móti frv. í sjálfu sjer, en tel sjálfsagt að athuga það í nefnd.

En úr því jeg stóð upp, vil jeg benda hv. þm. (B. J.) á, að mjer er ómögulegt að skilja greininguna í 1. gr. Því ekki að segja „öllum mönnum“? Jeg veit hreint ekki, hvað hv. þm. (B. J.) meinar með aðfluttum mönnum. Eru þar með taldir þegnar konungsríkisins Íslands, sem ekki hafa verið hjer áður? En það veit hv. þm. (B. J.) sjálfur, að ekki er hægt að banna okkar eigin ríkisborgurum landsvist, þótt þeir kunni ekki íslensku eftir eitt ár. Og jeg verð að segja, að mjer finst til of mikils mælst, að aðfluttir menn geti verið búnir að læra íslensku eftir 1 ár. Jeg tel það allörðugt fyrir þroskaða menn, sem þurfa miklum öðrum störfum að gegna, að læra hana til hlítar á einu ári. Og jeg held, að það hljóti að hafa verið penna- „feil“ hjá hv. þm. (B. J.) að fara að setja annað eins ákvæði og þetta inn í frv. Því það er heldur ekki víst, að hættan fyrir tunguna sje mest frá útlendingum. Jeg man eftir, að í mínu ungdæmi var mjög mikið töluð franska, — meira og minna bjöguð — á Austfjörðum. Ekki veit jeg til, að af þessu hafi mjög spilst tunga vor. Aðalhættan stafar frá okkur sjálfum. Jeg verð að telja það nokkuð hart, ef taka ætti atvinnu af mönnum vegna þessa ákvæðis, mönnum, sem annaðhvort verða að dvelja hjer eða eiga hjer landsvistarrjett. Annars er ekki nægilegt að setja svona búsetuskilyrði til tryggingar gegn óheppilegum fólksflutningi til landsins. Það getur verið full ástæða til þess, að hafa lög til þess að hindra aðflutning manna, sem af einhverjum ástæðum þykir ekki heppilegt að komist inn í landið.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (B. J.) hafi athugað það, að með ákvæðum þessa frv. er komið allnærri lögleyfðum atvinnurekstri, sem sjerstök lagaheimild er til. (B. J.: Hvaða atvinnuvegir eru það?). Þm. ætti að vita það sjálfur.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um málið að þessu sinni. Aðalatriðið er þetta, að jeg tel það eitt rjett, að athuga búsetuákvæðin í sambandi við hverja eina atvinnugrein, en ekki mæla allar atvinnugreinar á sama mælikvarða. Svo get jeg ekki verið þm. (B. J.) sammála um, að þetta sje þannig lagað mál, að það þurfi eða megi ráða þessu máli til fulls í einni svipan, nje tel jeg nokkra sjerstaka ástæðu til að flýta því nú vegna sambandslaganna. Jeg býst við, að hægt hefði verið að koma á búsetulögum áður, ef því hefði verið fast framfylgt síðustu árin. Um hitt er ekki hægt að deila, að okkur er sjálfsagt fyllilega frjálst að haga okkur hvernig sem okkur sýnist í málinu. Tel jeg svo sjálfsagt, að málið fari í nefnd að umr. lokinni.