22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í C-deild Alþingistíðinda. (3656)

60. mál, atvinnufrelsi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það er alveg rjett, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að jeg hefði fært þetta mál í tal við stjórnina. En hún hafði tekið fremur dauflega í það, og meðal annars barið því við, að undirbúningur svona frv. krefði meiri vinnu en hægt væri að láta í tje fyrir þetta þing. Jeg skal játa það, að vinnan er mikil, og má sjá það á frv., að tími minn hefir verið af skornum skamti. Enda ætlaðist jeg aldrei til annars en að nefndin, sem með málið færi, gerði umbætur, og gerði jeg jafnframt ráð fyrir, að stjórnin kæmi fram með athugasemdir og tillögur við frv. Fyrir mjer er aðalatriðið þetta, að þjóðin fái sem fyrst svona ákvæði inn í löggjöfina, því að hún á heimting á því.

Það var ekki rjett, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.)sagði áðan, að jeg hefði lagt aðaláhersluna á Dani í þessu máli. En hitt er satt, að tal mitt um þá var sem svar gegn þeirri íslensku hræðslu, sem enn ríkir, við að móðga þá. Menn halda, að Danir móðgist, ef Íslendingar gerast svo djarfir að nota rjett sinn gagnvart þeim. Þessar mótbárur hafa enn ekki komið fram, en jeg veit, að þær búa í brjóstum margra deildarmanna, og þess vegna hefi jeg fulla ástæðu til að svara þeim. Jeg vildi með ummælum mínum knýja þær fram, og fram koma þær, ef menn að eins þora að láta þær uppi.

Þá voru athugasemdir við skilning minn á orðinu „aðfluttur“. Með orðinu aðfluttur skil jeg það sama og allir aðrir Íslendingar skilja með því orði, að aðfluttir eru þeir, sem flytjast að. (Forsætisráðh.: En ef það eru íslenskir þegnar). Það er sama, hvort það eru hundar, hestar eða íslenskir þegnar, aðfluttir eru þeir eigi að síður. ( Forsætisráðh.: Á þá að skilja það þannig, að þeir fái ekki landsvist). Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) ætti að gera greinarmun á landsvistarrjetti og atvinnurjetti. Landsvist geta allir fengið, að minsta kosti einhvern tíma, og ef ekki annarsstaðar, þá í „Steininum“. En öðru máli er að gegna um atvinnurjett. Hann eiga menn að öðlast með vissum skilyrðum, og missa ef þeir uppfylla þau ekki.

Annars skal jeg fúslega játa það, að það er ekki svo frá frv. gengið, að jeg sje viss um, að það sje rjettorðað. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) fann að mörgu viðvíkjandi samningu þess, og jeg er honum þakklátur fyrir. Jeg veit, að frv. er í mörgu ábótavant, enda ekki til þess ætlast, að það væri fullkomið, heldur er það samið í þeim tilgangi aðallega, að koma málinu á framfæri. Jeg tek greiðlega athugasemdum og góðum ráðum og haga mjer eftir því, en þó er það eitt, sem jeg læt ekki af, og það er, að menn verði að læra íslensku til að halda atvinnurjetti sínum. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hjelt ræðustúf um það, hvort menn gætu lært málið á einu ári. Jeg legg ekki áherslu á það atriði, hvort menn nota til þess eitt ár eða tvö, heldur á hitt, að þeir læri það fyrir einhvern ákveðinn tíma. Það getur aldrei orðið stefnumál, hvað þessi tími á að vera langur. Hann verður að fara eftir því, sem menn álíta heppilegast og sanngjarnast. En það verður að taka skýrt fram, að menn missi rjettinn, ef þeir nenna ekki að læra málið. Hjer er nú fjöldi Dana, sem hafa dvalið hjer milli 20 og 30 ár og tala ekki íslensku enn. Það kemur til að því, að þeir skoðuðu sig sem yfirþjóð og vildu ekki leggja sig niður við að læra málið. Þeir þurftu þess heldur ekki, því þeir voru af okkur skoðaðir sem yfirþjóð, og menn töluðu við þá dönsku. Nú er þetta alveg breytt. Þeir Danir, sem nú flytja inn, sem eru mest iðnaðarmenn og þess háttar, þeir eru flestir altalandi eftir eitt ár.

Þá var talað um það, að þjóðerninu, og þá sjerstaklega tungunni, stafaði ekki eingöngu hætta af aðfluttum mönnum, heldur líka af innlendum. Þetta er mikið satt. En það er einkennilegt, ef menn ætla að ráða bót á því með því, að auka við hættuna, sem stafar af aðflutningi útlendinga. Að hún er og að hún verður mikil, ef ekki er gert neitt til að hamla upp á móti, það ætti að vera öllum ljóst. Það er ekki tekið fram í þessu frv., hvaða kunnáttuskilyrði verða heimtuð. Það verður að vera á valdi kenslumálaráðherra. Jeg álít ekki nauðsynlegt, að þeir geti skrifað málið, heldur að þeir geti fyllilega talað það, skilji það, og geti gegnt starfi sínu á því, að málið sje þeim þar ekki til fyrirstöðu. Jeg fyrir mitt leyti álít ekki hundrað í hættunni, þó þeir kunni ekki alla „Joða“-kássu stjórnarinnar eða annað því um líkt.

Jeg vænti þess og vona, að hæstv. stjórn leggi ekki á móti þessu máli, heldur leggi fram alla sína miklu og góðu starfskrafta í þágu þess. Hún er sjálf skipuð lögfræðingum og hefir auk þess marga lögfróða menn í sinni þjónustu. Það verður hún að gera um sjálf, hvort hún vill heldur eða álítur það betra, að búa til um þetta lagabálk, eða setja það inn í einstök lög, þar sem það á við. Þetta er frv., sem stjórnin átti að koma með, en jeg hefi þar hjálpað henni og flutt það inn á þingið. Jeg teldi æskilegast, að það yrði afgr. frá þessu þingi, en til þess, að það verði hægt, verður að leita aðstoðar utan þingsins. Það er nú svo störfum hlaðið, og ekki víst, að það eigi svo mörgum lögfróðum mönnum á að skipa, að það geti afgreitt málið.

Jeg hefi borið þetta frv. fram og barist fyrir því, af því að jeg álit nauðsynlegt að slíkt frv. verði afgreitt frá þinginu, en ekki af stífni. En hins vegar get jeg vel látið undan rjettum rökum, og getur það ekki talist stífni.

Jeg á enn eftir að koma með eitt frv., sem jeg bjóst við frá stjórninni, sem átti að koma frá henni og hún var búin að lofa mjer að hún skyldi flytja. (Forsætisráðh.: Hvaða frv. er það?). Það kemur seinna.