22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í C-deild Alþingistíðinda. (3659)

60. mál, atvinnufrelsi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Mjer tekst auðvitað ekki að skifta flokkum, svo framarlega sem flokkurinn er að eins einn. Jeg hefi heldur aldrei ætlað mjer það. En ef flokkarnir eru tveir, þá er best, að þeir sýni sig.

Jeg skal nú ekki fara mikið út í einstakar athugasemdir, sem gerðar hafa verið við frv. — Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafði margt við það að athuga og taldi því vera ábótavant að ýmsu leyti. Alt mitt svar við því felst í því, hversu lítinn tíma jeg hafði til undirbúnings málinu. Jeg gal ekki setið svo lengi við það, að trygt væri, að ekkert hefði gleymst. Hins vegar ætlaði jeg þingnefndinni að lagfæra það, sem þyrfti, og bjóst við, að hún mundi skifta því í fleiri frv. Um þetta er óþarfi að fjölyrða; jeg vissi, að nefndin mundi gera þetta. Og nú hefi jeg hlustað á háttv. formann nefndarinnar (E. A.), og hefir hann sannfært mig um, að þetta er rjett.

Hvað snertir ákvæði 1. gr., þá skil jeg ekki, að þau heimili öðrum að reka hjer atvinnu en til er ætlast. En jeg skal játa, að orðalag greinarinnar er ekki gott, og mundi ef til vill geta útilokað innlend fjelög, en ekki hleypt útlendum fjelögum að. Um ábyrgðina á þurfamannafúlgu, sem talað er um í 5. gr., verð jeg að segja, að jeg tel hana ekki óaðgengilega. Sá, sem flytur verkafólk inn í landið, verður að sjá því fyrir fátækrastyrk, ef það á eigi framfærslusveit hjer, svo að íslenskar sveitarstjórnir þurfi ekki að rekast í því.

Skilyrðið um kunnáttu íslenskrar tungu held jeg að sje nægilegt, eins og það er í frv. því þó það standi ekki berum orðum, þá er það eins um konuna og manninn, að hún má ekki reka hjer atvinnu nema hún uppfylli hið setta skilyrði.

Nú deyr t. d. kaupmaður, og má þá ekki kona hans nje sonur reka hjer atvinnu að öðrum kosti en þau kunni málið, eins og krafist er. Sje nefndin ekki ánægð með orðalagið, þá má hún gjarnan gera það eins skýrt og hægt er. Jeg hefi ekki með þessu reynt að semja langt frv. eða mismunandi lagabálka, heldur var hitt tilgangur minn, að fá með þessu einskonar yfirlýsingu frá þinginu um, að það vildi nota búsetuna í því skyni, sem ætlast er til með frv. Þetta er aðalatriðið fyrir mjer, og mest um vert, að það komi fram, að þetta eigi að gera, svo menn viti það frá upphafi og gangi þess eigi duldir. Það mundi því alveg nægja mjer, ef nefndin kæmi fram með þingsályktunartillögu, sem mælti svo fyrir.

Jeg skal nú ekki fara í deilur við stjórnina um frv. En mjer þótti leiðinlegt, að hún skyldi ekki sjá sjer fært að undirbúa þetta mál og leggja það fram hjer.

Hvað viðkemur fullveldisviðurkenningunni, þá hefi jeg aldrei sagt, að þetta væri bein afleiðing hennar, eða að þetta hefði ekki mátt koma fram áður, heldur að nú mætti það ekki dragast lengur. — Jeg vil svo vísa málinu til allsherjarnefndar, og vona, að hún sje mjer sammála um, að frá þinginu þurfi að koma yfirlýsing, bygð á þeim grundvelli, sem lagður er í þessu frv.