08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Pjetur Jónsson:

Í sambandi við það, sem jeg skaut fram um skipakostinn, vildi jeg geta þess, að bæði hv. 2. þm. Rang. (E. J.) og þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafa snúið út úr þeim orðum mínum. Það er að vísu vitanlegt, að skipakosturinn vex ekki við það, að stjórnin ráði yfir því, sem út er flutt. En það er annað, að þar sem hann er mjög takmarkaður, þá er þess full þörf, að gerðar sjeu ráðstafanir í tíma, til þess að tryggja hann til útflutningsins og nota hann sem haganlegast. Nú hefir það reynst mjög örðugt að ná heppilegum samningum við Sameinaða gufuskipafjelagið um útflutning hrossanna, þótt þeir samningar sjeu loks nokkuð á veg komnir.

Viðvíkjandi því, hvort nokkur fyrirvari sje í sölusamningunum, skal jeg taka það fram, að svo er ekki. En það er annað, sem bætir úr. Áður en samningurinn var gerður var leitað upplýsinga um hestasveitirnar og leitað undirtekta um þessi kjör, og fengust þá loforð hestaeigenda fyrir talsvert miklu af hrossum með þessum kjörum, sem samningar náðust um.