19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í C-deild Alþingistíðinda. (3662)

65. mál, vatnalög

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg þarf ekki að rekja sögu þessa máls, því að hún mun vera öllum kunn. Greinargerðin, sem birt var í áliti minni hl., mun vera í höndum allra þingdm. Því miður hefir tekist svo illa til, að nokkrar villur hafa slæðst inn í greinargerðina; þó munu fæstar þeirra geta valdið misskilningi.

Frv. þetta flytur ekki neinar stórvægilegar nýungar. Aðalefni þess er dregið saman úr eldri lögum um sama efni, en þar bætt inn í, sem eyður voru í vorri fornu vatnsrjettindalöggjöf, og engu raskað um hinn forna rjett.

Skipun efnisins er á þessa leið:

II. kafli markar vatnsrjettindin á sama hátt og gert er í eldri og nýrri lögum vorum, en nokkru skýrara.

III. kafli ræðir um notkun vatns til heimilisþarfa ýmsra, en án orkunota, er að mestu samkvæmur eldri lögum um það efni og tekur t. d. yfir efni vatnsveitulaganna frá 26. okt. 1912.

IV. kafli tekur yfir efni áveitulaganna frá 22. nóv. 1913, en nokkru styttri en þau, enda sum ákvæði þeirra laga flutt til annara kafla þessara laga.

V. kaflinn, um þurkun lands, er að mestu nýmæli og sniðinn eftir norskum og sænskum lögum. Þekki jeg enga fyrirmynd hans í íslenskum lögum.

VI. kafli, um holræsi og óhreinkun vatns, er einnig sniðinn eftir útlendum fyrirmyndum, þó með hliðsjón af lögum um líkt efni, frá 1911 og 1917, fyrir Reykjavík og Akureyri.

VII. kafli, um notkun vatnsorku, tekur yfir efni laga 3. nóv. 1915, um rafmagnsveitur, og að nokkru leyti efni fossalaganna svo nefndu, frá 22. nóv. 1917, en kaflinn er þó að efni nokkru víðtækari og ítarlegri, og er þar fyrir augum haft, að notkun vatnsorku, bæði eftir litlum og stórum mælikvarða, verði eftirleiðis mikið aukin.

VIII. kaflinn, um miðlun vatns til iðju, er alveg nýmæli og sniðinn eftir norskum fyrirmyndum. Þýðing hans er ekki mikil, nema stóriðnaður komi til sögunnar.

IX. kaflinn, um umferð á vötnum og fleytingu, er líka saminn eftir norskum fyrirmyndum. Það var auðsætt, að einhver ákvæði varð að gera um þetta efni, því gera má ráð fyrir, að vötn verði framvegis meira notuð til umferða en hingað til hefir átt sjer stað.

X. kaflinn, almenn ákvæði um mannvirki í vötnum eða við þau, er einnig saminn eftir útlendri fyrirmynd, en þó er ýmislegt í kaflanum íslenskt. Gert er ráð fyrir miklu víðtækari notkun vatnsafls en verið hefir, og lúta mörg ákvæði kaflans að öryggi fyrir starfsmenn og vettvangsbúa.

XI. kafli tekur fram almennar reglur um skaðabætur þeim til handa, sem eftir köflunum að framan verða að þola eignarkvaðir eða eignarnám á vatni, landi eða öðrum rjettindum. Eru ýms ákvæði í lögum hjer áður um þetta efni, t. d. í 12.–14. gr. fossalaganna frá 1907, en annars eru fyrirmyndirnar útlendar.

XII. kaflinn, um stjórn vatnamála og meðferð þeirra, er miðaður við hið breytta ástand, sem gera má ráð fyrir að komist á, þegar tekið verður að nota fossaaflið frekar. Minni hl. fanst eigi ástæða vera til að gera vatnastjórnina mjög samsetta eða dýra, meðan ekki er farið að nota vatnsaflið neitt að ráði. Hins vegar virðist óhjákvæmilegt að skipa sjerfróðan mann til eftirlits með vatnsvirkjum, sem ætla má að eftirleiðis bindi mikinn hluta af efnum landsmanna, og því verður með ráði og fyrirhyggju að gera. Minni hl. hugsar sjer þessa vatnastjórn í líkingu við vitamála-, vega- og símastjórn, sem standi undir stjórnarráðinu, eins og ráðunautur, og fjölgi mönnum, þegar þörf krefur. —

Jeg gæti nú látið mjer þessa skýrslu lynda, en finn þó ástæðu til að fara um hana nokkrum fleiri orðum, af því að frv. hefir sætt andmælum innan og utan þingsins.

Því hefir verið haldið fram, að ágreiningurinn milli meiri og minni hl. fossanefndarinnar sje óverulegur. Jeg vil benda þeim, sem ekki hafa getað athugað þetta atriði nægilega enn þá, á að lesa saman II. kafla í frv. beggja nefndarhlutanna og kynna sjer ákvæðin um vatnsorkunot og skaðabætur í hvorttveggja frv., til þess að ganga úr skugga um, hvort þessi staðhæfing sje á rökum bygð. Jeg býst við, að hver, sem gerir þetta, komist að raun um, að hjer greinir á um mjög veruleg atriði. Það, sem í milli ber, er í fám orðum sagt þetta: Minni hl. áskilur landeigandanum eignarumráð á vatninu, með þeim takmörkunum, sem lög setja. Meiri hl. tekur af honum eignarumráðin, en ætlar honum kliptan og skorinn notarjett að því vatni, sem heimilisþörf hans krefur. Og meiri hl. ætlar landeiganda engar bætur fyrir vatn það, sem tekið verður í landi hans, honum nauðugt, og umfram er heimilisþörf snögga. Minni hl. ætlast ekki til, að vatnsrjetturinn verði af nokkrum landeiganda tekinn, nema almenningsnauðsyn krefji, og að fyrir komi fult gjald. Á þessu klofnaði fossanefndin, hvort bætur skyldu koma fyrir vatnstökuna eða ekki. Klofningingunni olli alls ekki, eins og gefið hefir verið í skyn, þessi orðaleikur um eignarrjettinn. Hitt var aðalatriðið, og það er óneitanlega mjög rótnæmt, hvort landeigandi fengi bætur eða ekki. Með bótaskyldunni eru eignarumráðin viðurkend, en án hennar neitað. Það skiftir í sjálfu sjer engu máli, hvort rjettur eigandans yfir vatninu er táknaður með orðinu „eignarrjettur“ eða öðru orði, sem nær því hugtaki og nýtur sömu helgi og eignarhugtakið. Jeg hefi nefnt þennan rjett eignarumráð; ýmsir tákna hann með orðunum yfirráð eða um ráð. — Þótt orðið „eignarrjettur“ sje hvorki viðhaft í frv. meiri hl. eða minni, sannar það alls ekki, að þá greini á um aukaatriði. Um það hefir einmitt verið deilt, hvort rjett væri að tákna umráðarjett á vatni með þessu orði. Og minni hl. valdi orðið umráðarjetturur, til þess að negla sig ekki við eina eða aðra skýringu lögfræðinga um þetta efni. — Allir vita, að sá umráðarjettur — á hverju sem er — sem útilokar umráð annara manna, er jafngildur eignarrjetti.

Til skýringar þessu skal fram tekið, að Norðmenn, sem í vatnalögum sínum frá 1887 viðurkenna þennan rjett landeigandans og nefna hann „Ejendomsret“, hafa nú í vatnalagafrv. frá 1915 táknað þennan sama rjett með orðinu umráðarjettur. Í 1. gr. þess frv. er kveðið svo að orði: „Med Ejendomsretten til Grund fölger, naar ikke særlige Retsforhold medförer noget andet, Retten til að raade over og nyttiggöre det Vand, som er paa Grunden, være sig Sö, Elv eller Bæk ....“. Á líkan hátt er þessi rjettur orðaður í vatnalagafrv. Svía, sem nú er á leiðinni. Þar segir svo: Enhvar ägar råda öfver det vatten, som findes á hans grund“. Líkt er þessu farið í löggjöf annara germanskra þjóða, sem allar, að meira eða minna leyti, viðurkenna þennan landeigandarjett. Þar er ýmist notað orðið „eignarrjettur“ eða hliðstæð orð. Í vatnalögum ýmsra þjóða á Þýskalandi, þar á meðal vatnalögum Bayerns frá 1907, er viðhaft orðið eignarrjettur (eigentumsrecht).

Það má því segja, að deilan um það, hvaða orð er notað yfir þennan rjett, er hjegómi. Hitt er aðalatriðið, að þessi rjettur njóti sömu verndar og helgi sem eignarrjettur, og hennar hefir hann notið hjá okkur til þessa dags.

Þá vil jeg leyfa mjer að minnast á tilvitnun hv. þm. Dala. (B. J.) í ummæli rjettarfræðingsins Scheel, þar sem hann hjeldi fram þeirri skoðun, að umráðarjettur á vatni væri ekki eignarrjettur. Það er að vísu rjett, að Scheel hefir komist að þeirri niðurstöðu, að orðið eignarrjettur ætti ekki við, þegar tákna ætti umráð landeiganda að vatni. En hv. þm. Dala. (B. J.) gleymdi botninum úr setningu þeirri eftir Scheel, sem hann vitnaði í. Og af því, að hv. þm. (B. J.) hefir oft reynst mjer greiðvikinn, ætla jeg nú að láta greiða koma greiða í móti og botna fyrir hann setninguna.

Scheel segir, að vegna þeirra eiginleika vatnsins, að koma og fara, sje ekki vísindalega hægt að tala um eignarrjett á vatni. En landeigandinn eigi þrátt fyrir það allan beinan og óbeinan rjett til að ráða yfir því og nota það á landi sínu.

Hv. þm. Dala. (B. J.) gripur hjer fram í og vefengir þýðingu mína á orðum Scheels. En jeg held samt, að þessi þýðing mín sje nokkurn veginn rjett, þótt hún sje ekki „autoriseruð“.

Einn mótstöðumanna minna hjelt því fram við 1. umr. um frv. meiri hl., að eignarumráðin, sem minni hlutinn áskildi landeiganda með vatnalagafrv., væri tekinn að öllu með till. um sjerleyfislöggjöf sama nefndarhluta. (E. A.: Vill hv. ræðumaður (Sv. Ó.) ekki nefna nafn mótstöðumannsins?). Ætli háttv. þm. (E. A.) fari ekki nærri um, hver hann hefir verið. (E. A.: En þm. (Sv. Ó.) getur misskilið þetta). En þessi fullyrðing fer mjög fjarri sanni. Eins og jeg hefi vikið að áður, eru sjerleyfisskilyrðin samningsatriði milli umsækjanda og veitanda. Sá, sem á foss og vill virkja hann til stóriðju, verður að vísu að ganga til samninga við ríkisvaldið og hlíta allhörðum skilyrðum, eða hafna þeim og sleppa stóriðjufyrirtækinu, en ríkið tekur ekkert af honum, nema eftir samningi. Og vilji hann ekki að samningnum ganga, þá heldur hann áfram að eiga fossinn, og getur þá átölulaust notað hann að því marki, sem stóriðjunni er sett, eða — ef fossinn er náttúruafbrigði — geymt hann sjer og öðrum til ánægju. Að eins þegar svo stendur á, að almenningsþörf kallar að, má taka fossinn af honum, en það verður þá gegn bótum. Allir mega því sjá, að það er fjarri öllum sanni, að sjerleyfislagaskilyrði þau, sem jeg hefi lagt til að sett verði, geri eignarumráð landeigandans að engu.

Það er dálítið nýstárleg kenning, sem komið hefir fram í umr. um þetta mál, að vatnsorkan geti ekki verið undirorpin eignarumráðum landeiganda, af því að enginn hafi þekt vatnsorku, þegar lög um vatnsrjettindi voru sett hjer í upphafi. þessi röksemdaleiðsla er með öllu óframbærileg. Við Íslendingar, einir allra Evrópuþjóða, þekkjum landnámssögu landsins, og við vitum af henni, að hver landnámsmaður nam sitt land fortakslaust með öllu, sem í því og á því var, þektu og óþektu, og með þessum hætti hafa þau gengið frá kyni til kyns, öld eftir öld. Til að sanna þetta nægir að benda á orðtækið forna, sem notað er í hverju afsali fyrir fasteign, að hún sje afhent með gögnum og gæðum. Með því hafa menn til forna — og enn í dag — viljað taka það fram, að ekki væru að eins þau not landeignar framseld, sem þekt væru, heldur einnig þau óþektu. Hins vegar er fullyrðingin um þekkingarleysi landsmanna á vatnsorku til forna hrein fjarstæða. Löngu þektu menn mátt vatnsins til að hreyfa mylnukvarnir, fleyta viði og öðru með straumi o. s. frv. Hitt er satt, að vatnsorku kunni enginn að breyta í raforku á landnámstíð.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, er frumvarp þetta samsafn þeirra laga og lagastaða, sem gilt hafa og gilda enn hjer á landi, með þeim viðaukum, sem nauðsyn virtist að setja vegna breyttra tíma. En allir slíkir viðaukar eru bygðir á gildandi lögum, rjettarvenju og rjettarmeðvitund fólksins og hagga engu um hinn forna rjett.

Jeg geri að sjálfsögðu ráð fyrir því, að sitthvað það sje í frv., sem lagfæringar þyrfti. En þótt það yrði að lögum óbreytt, eins og það er, gæti enginn herbrestur eða hjeraðs af því orðið, af því að engin ný rjettarskipun er með því gerð. Afleiðingin gæti orðið sú ein, að innan tíðar þyrfti að breyta eða bæta við það, sem ekki er nógu ítarlegt, eftir því, sem reynslan þá kendi.

Jeg leyfi mjer að óska, að málinu verði vísað til fossanefndarinnar, og get með þolinmæði beðið eftir áliti hennar um það.