08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í C-deild Alþingistíðinda. (3669)

74. mál, vegir

Frsm. (Einar Jónsson):

Mjer hefði að vísu verið geðfeldara að mæla með annari og víðtækari breytingu á vegalögunum frá 1907 og 1911 en þeirri, er hjer liggur fyrir. Mjer væri sem sje geðfeldast að eiga orðastað um þá breytingu á viðhaldi vega, að ríkið tæki að sjer, en ljetti aftur af sýslufjelögum, viðhaldskostnaði allra aðalpóstleiða umhverfis landið, því að sú mun verða raunin á, og er þegar allvíða komin á daginn, að vegirnir eyðileggjast og verða öllum farartækjum ófærir í sýslnanna höndum. Orsakast þetta af þeirri einföldu ástæðu, að sýslusjóðina vantar fje, sem fullnægi þörfum. Að vísu mun á hina hliðina einnig mega halda því fram, að ríkissjóðinn vanti fje til viðhaldsins. En þegar þess er gætt, að sjóleiðin — strandferðirnar — kringum landið er kostuð af ríkissjóði, og því hefir enginn á móti, þá mælir sanngirni með því, að aðalpóstleiðin uppi í landinu væri og á kostnað ríkissjóðs.

Nú er um hitt að ræða, á hvern hátt sýslufjelögin skuli komast fram úr að inna þessa viðhaldsskyldukvöð af hendi svo viðunandi sje, og verða þá góð ráð dýr. Þótt því sje eigi að neita, að dýrast og verst verði það, að geta ekki haft hina allra nauðsynlegustu vegi í brúklegu standi, þar sem svo hagar til, að allir aðdrættir heilla hjeraða eru ómögulegir án þeirra, þá er því ekki að neita, að það eru sannarlega „dýr ráð“, að verða að leggja nokkurskonar nefskatt — og hann ekki svo smáan — á þá landsbúa, sem tekið hafa sjer bólfestu fjarri höfnum og kauptúnum. Að þessu sinni mun þó ekki verða hjá þessu komist, að auka lögákveðin gjöld í veganna þarfir, eða með öðrum orðum gefa sýslunefndum og hreppsnefndum rýmri heimild en þær hafa áður haft í þeim sökum. Og fram á þá heimild fer frv. það, er hjer liggur fyrir, svo sem hv. þingdm. sjá.

Að í nefndarálitinu er þess getið til, að Árnesingar og Rangæingar muni verða hjer einna harðast úti, kann að koma til af því, að þar er jeg hnútunum kunnugastur og þekki þau vandræði, sem af vegaviðhaldinu leiða, en þó að hitt ætti sjer stað, að ýms önnur hjeruð væru jafnundirokuð af þessu, þá er eigi síður þörf á breytingu vegalaganna þrátt fyrir það, nema fremur sje.

Heimild sú til gjaldhækkunar, sem gefin er með þessu frv., verður að sjálfsögðu ekki notuð nema knýjandi nauðsyn kalli að, en því miður mun víða svo fara fyrst um sinn, að ekki 3 kr., heldur 9 kr., verði að margfalda með tölu hinna verkfæru manna á mörgum stöðum, jafnvel hvert það ár, sem enn verður látið hjá líða að leggja járnbraut um þjettbygðustu hjeruð landsins. Járnbraut er og verður hið eina, sem samgöngunum hæfir, og svo var það fyrir löngu síðan. Þetta hafa allir skilið, þótt ýmsir, illu heilli, hafi lagt stein í götu þess máls.

Sæju einhverjir hv. þingdm. önnur aðgengilegri ráð til úrlausnar en hjer hafa enn verið fundin, myndi þeim tekið með ánægju, en komi þau ekki fram, legg jeg til fyrir nefndarinnar hönd, að frv. þetta, á þgskj. 115, verði samþ. Jeg felli mig vel við viðaukatill. á þgskj. 300 og kann hv. flm. hennar (P. J.) þakkir fyrir að hafa komið með hana, og þótt hún sje ekki á dagskrá, vona jeg, að leyft verði, að atkv. sjeu greidd um hana á sínum tíma og að hún verði samþ.

Skal jeg svo ekki þreyta hv. þingdm. með lengri ræðu að þessu sinni.