28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í C-deild Alþingistíðinda. (3685)

85. mál, skipun prestakalla (Ísafjarðarprestakall)

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg flyt þetta frv. samkvæmt ósk safnaðarfundar, hjeraðsfundar og Synodusar. Skiftingin hefir verið rædd á öllum þeim fundum og samþykt á þeim öllum. Annars get jeg að mestu leyti vísað til umsagnar minnar um sjerstakt læknishjerað fyrir Bolungarvík. Ástæðurnar eru þær sömu. þær eru örðugleikar fyrir Bolvíkinga til að ná til sóknarprestsins á Ísafirði og eins örðugleikar og kostnaður hans til að ná til þeirra. Jeg tók það fram áður, að þessir örðugleikar eru bæði á sjó og landi. Landveg er leiðin að eins fær um hásumartímann, og þá ekki öðrum en fótgangandi mönnum. Á öðrum tímum má hún heita stórhættuleg, ef ekki alveg ófarandi. Vegurinn liggur undir snarbrattri hlíð, þar sem stöðug hætta er á snjóflóði og ofanföllum af auri og grjóti. Þarna hafa menn oft farist, og einu sinni sóknarpresturinn á Ísafirði, Hákon Jónsson. Þannig er þá landleiðin. Sjóleiðin kostar nú 100 til 120 kr. fram og aftur. Jeg ætla að biðja menn að gera svo vel að bera það saman við prestlaunin og draga síðan sínar ályktanir.

Jeg veit, að það mun verða sagt, að prestar sjeu ekki eins nauðsynlegir og læknar, og getur það að vissu leyti staðist. Þó er það óneitanlega þægilegt og getur orðið viðurhlutamikið að láta lík standa ógreftruð langan tíma, vegna þess að ekki næst til prests. (Forsætisráðh.: Hvernig er það á Ströndum). Ástandið á Ströndum er víst takandi til samanburðar eða fyrirmyndar; það er neyðarástand. Þó er alt öðru máli að gegna um eitt og eitt býli heldur en kauptún, með um 1000 manns.

Þá er að snúa sjer að hinni hliðinni og það er presturinn sjálfur. Eins og ástatt er um laun hans, þegar þau eru að eins 1300 kr. á ári, þá virðist nærgætnislítið að heimta af honum 100–120 kr. ferð 3. hvern sunnudag. Áður komst presturinn oft með ferðum sem fjellu, en nú ef það af. Nú sækja Bolvíkingar ekki eins til Ísafjarðar, því að nú eru komnar 3–4 verslanir í Bolungarvík. íbúatala heimasóknarinnar er um 2500 manns, og af þeim eru um 600 á við og dreif utan kaupstaðarins. Fólksfjöldinn er því orðinn svo mikill og svo dreifður, að presturinn getur ekki lengur látið í tje þá þjónustu, sem söfnuðurinn í Hólssókn á heimting á og hver góður prestur keppir eftir að veita. Þegar við þetta bætist, að skiftingin er sameiginleg ósk allra þeirra, sem hlut eiga að máli, þá virðist nógu margt mæla með því, að skiftingin komist á.

Milliþinganefndin í prestakallamálinu frá 1905 hafði þetta mál til íhugunar, og þar kom til mála að skifta Ísafjarðarprestakalli, eins og hjer er farið fram á. En það fórst þó fyrir og það fyrir þá sök, að þá var sú skoðun uppi, að heldur bæri að fækka en fjölga prestaköllum. Ef litið er á málið fjárhagslega, þá hefir þessi skifting vitanlega dálítið aukin útgjöld í för með sjer. En ef menn líta um leið á þörfina, þá verður fjárspursmálið svo lítilvægt, að þess gætir varla. En fyrir þeim er þetta vitanlega óþarfi, sem álíta prestana úrelt þing, sem best væri að losna við sem fyrst. En því er ekki þannig háttað hjá alþýðu manna. Raddirnar, sem heyrst hafa síðan 1907, hafa allar heldur mælt með sundrungu en sameiningu, heldur með fjölgun en fækkun prestakallanna. Af þessu er það bert, að landsmenn eru ekki á þeirri skoðun, að prestar sjeu þarfleysan einber. Og gangi menn út frá því, að þeir geri gagn, þá er þeirra ekki síst þörf í afskektum hjeruðum. Vitanlega eykur þetta útgjöld landssjóðs, en úr því mætti bæta með hækkun sóknargjaldsins, og því myndu söfnuðirnir í hinum afskektu bygðarlögum vel una, fengju þeir betri prestsþjónustu.

Að svo stöddu vil jeg ekki fjölyrða meira um þetta efni, en vona, að deildin taki málinu vel og fari með það eins og það á skilið.