28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í C-deild Alþingistíðinda. (3686)

85. mál, skipun prestakalla (Ísafjarðarprestakall)

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg veit, að hv. flm. (S. St.) mun telja, og telur, þetta embætti nauðsynlegt. Um það skal jeg ekki þrátta. En jeg get ekki neitað því, að þegar launafrv. er á ferðinni, sem fer fram á hækkun, þá getur það ekki annað en spilt fyrir að koma með frv. um fjölgun embætta. Það er að vísu ekki mikil fjölgun, sem þetta frv. hefði í för með sjer, ef það yrði samþ., en það er þó fjölgun, og fleiri gætu komið á eftir. Jeg hefi altaf litið svo á, að það ætti að reyna að komast af með sem fæsta presta, en launa þeim sæmilega. Og mjer kemur það undarlega fyrir, ef ekki er hægt að hafa prestaköllin eins stór nú og áður. Mjer finst alt benda á, að þau ættu að geta verið stærri, því nú eru allar samgöngur að batna, og aðalörðugleikinn þannig að yfirvinnast. — Jeg held, að þetta eigi líka við um Bolungarvík og Ísafjörð. (S. St.: Nei). Að vísu hafa vegir ekki batnað, en samgöngur á sjó eru orðnar hægari. Hv. flm. (S. St.) benti á, að ferðir væru ekki eins tíðar nú og áður milli þessara staða, og skal jeg ekki vefengja það. En er það alveg ómögulegt, að embættismaðurinn þarna fari eins að og menn gera annarsstaðar, þar sem líkt stendur á, að hann eigi dálítinn mótorbát sjálfur? (S. St.: Það verður að vera meira en kæna). Ef ilt er í sjó, geta ferðir hindrast, en það er víðar slæmt heldur en þarna. Ástæðurnar, sem háttv. flutnm. (S. St.) færði fram, voru víst rjettar yfirleitt, en ef þær verða teknar gildar, þá er ekki hægt að skella skolleyrum við öðrum kröfum, sem líkt stendur á um. En þeir eru margir, því örðugleikarnir eru um land alt. Jeg get t. d. bent á Eyjafjarðarsýslu, og þá sjerstaklega austan fjarðarins. Það væri þó fyrir sig að lögleiða þetta, ef hægt væri að benda á aðra staði, þar sem hægt væri að fækka prestum; þá væri vinnandi vegur að hallast að þessu máli. Fyrir mjer horfir málið þannig, að það ætti ekki að vera ókleift að komast af með 100 presta, þegar menn verða að láta sjer nægja milli 40 og 50 lækna. Nú eru prestarnir 116, að því er mig minnir, og þeim getur fjölgað töluvert, ef haldið er uppteknum hætti.

Þetta frv. byggist eflaust á því, að ríki og kirkja verði ekki að skilin í nánustu framtíð. Ef svo væri, þá væri frv. til einskis gagns. Jeg skal taka það fram, að jeg hafði ekki tækifæri til að vera við, þegar það mál var rætt um daginn, en jeg hygg, að lítil líkindi mundu til, að almenningur óski breytingar að þessu leyti.