29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í C-deild Alþingistíðinda. (3694)

86. mál, almenn hegningarlög

Flm. (Bjarni Jónsson):

Eins og menn sjá, hefi jeg komið fram með frv. þetta í þeim tilgangi, að þegar á þessu þingi verði numin úr hegningarlögunum þau ákvæði, sem ekki geta samrýmst samningum þeim, sem gerðir voru á síðasta þingi um fullveldi Íslands.

Af þeim samningum leiðir meðal annars það, að jafnvel frá sjónarmiði þeirra manna, sem haldið hafa, að Ísland hafi lotið Dönum, getur það ekki komið til mála að dæma Íslendinga fyrir landráð við Danmörku, fremur en önnur ríki veraldarinnar. Jeg reyndi nú að ganga í gegnum lögin og taka þau ákvæði, sem eiga þar ekki lengur heima, en jeg verð að játa, að ekki er víst, að það sje með nægri vandvirkni gert. Stafar það af því, að lög þessi eru mjer ekki nógu kunn, þar sem jeg hefi lítið við þau sýslað, og tími hefir einnig verið naumur.

Verð jeg því eins og áður að vera kominn upp á náðir nefndar þeirrar, sem frv. verður vísað til, og vona jeg, að hún athugi það og lagfæri. En eftir eðli málsins mun það eiga að fara til allsherjarnefndar, og vil jeg gera að tillögu minni, að svo verði, að umr. þessari lokinni.