29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í C-deild Alþingistíðinda. (3697)

86. mál, almenn hegningarlög

Flm. (Bjarni Jónsson):

Mjer þykir vænt um, að þetta mál fær góðar undirtektir í hv. deild, enda þóttist jeg þess viss.

Jeg hlýt að játa, að þetta frv. fer ekki fram á neinar efnisbreytingar á hegningarlögunum, heldur er það eitt ákvörðun þess að koma orðalagi þeirra í samræmi við stjórnarfyrirkomulag landsins nú. Tel jeg ekki ráðlegt að liggja lengi með endurminningar, er síst eru góðar. Mjer finst, að minna verði ekki gert til þess að auglýsa fullveldi Íslands en að láta ekki lengur standa hið danska orðalag á lögum þess. Þetta gekk mjer til, en hitt var jeg ekki hræddur um, að Íslendingar yrðu dæmdir fyrir landráð, þó öðruvísi væri.

Það, sem aftur hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mintist á endurskoðun hegningarlaganna, þá get jeg verið honum sammála um það, að þess gerist full þörf. Það er að vísu satt, að jeg er þessu máli ekki mikið kunnugur, en þó var það um eitt skeið, að jeg kynti mjer talsvert ýmsar refsingaraðferðir, og fanst mjer sú stefnan sönnust, er færa vildi þær frá hegningaraðferðinni í áttina til betrunaraðferðarinnar. Jeg hefi, frá því jeg varð fulltíða maður, talið rjett að færa hegningarlögin í búning, sem samboðinn væri mentaðri þjóð, en það verður ekki sagt um þau lög, er nú gilda, enda mun það satt vera, að dómarar kynoka sjer við að dæma eftir þeim, nema þeir sjeu nauðbeygðir til þess. En jeg fór ekki inn á þá braut nú, af því jeg taldi tímann ónógan, enda veitti ekki af því, að þingið gerði sjerstaka ráðstöfun viðvíkjandi þessu máli, og veitti þá ekki af að skipa nefnd sjerfróðra manna, er ynnu að þessu um nokkur ár. En það þætti mjer ilt, ef þessar breytingar, er frv. mitt fer fram á, verða látnar bíða svo lengi, enda eru þær algerlega sjálfstæðar.