28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í C-deild Alþingistíðinda. (3702)

87. mál, dýralæknar

Sigurður Stefánsson:

Jeg get sagt, að jeg er þessu frv. meðmæltur. Og jeg tel fulla ástæðu til að fjölga dýralæknum, ekki að eins um 3, heldur þrisvar sinnum þrjá. Það var rjettilega tekið fram hjá hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að nú er allur búpeningur orðinn svo dýr, að það er stórtjón fyrir bændur að þurfa að horfa á skepnur deyja, sem dýralæknir ef til vill hefði getað bjargað.

Nú hafði mjer dottið í hug, hvort ekki mætti bæta úr dýralæknaskorti á annan veg en hjer ræðir um. Jeg bendi á þetta af því, að jeg býst ekki við, að við fáum marga dýralækna í bráð. Námið er dýrt, og auk þess lítil kostakjör, sem bíða að því loknu, eins og nú er ástatt. Mjer hefir verið bent á það, af manni sem vel hefir vit á, hvort ekki mundi tiltækilegt að gera mannalæknaefnum að skyldu að leggja jafnframt stund á dýralækningar. Þessar tvær námsgreinar hafa margt sameiginlegt, svo jeg held, að það, sem námsmaðurinn þyrfti að bæta við sig, yrði ekki svo ýkjamikið Hann yrði auðvitað að fá sjerstakt námskeið í dýralækningum, sem mundi hafa nokkurn kostnað í för með sjer. En jeg álít þessa uppástungu vel þess verða, að hv. landbúnaðarnefnd taki hana til athugunar.

Viðvíkjandi orðum hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um prestana vildi jeg segja, að þó hann teldi rjett að fækka prestum frá sínu sjónarmiði, þá lít jeg alt öðrum augum á það mál. Það væri annars fróðlegt að heyra hv. þm. gefa upplýsingar um, hve mikið mætti fækka prestum í Árnessýslu. (E. A.: Hv. þm. (S. S.) kom fram með frv. á þingi 1909 um að fjölga prestum í Árnessýslu.

Ef jeg þekki hv. þm. (S. S.) rjett og hans kjósendur, verða þeir víst ekki margir, sem þeir mega vera án. Árnesingar þykjast víst ekki hafa of marga presta, og jeg tel vafasamt, hvort þeir vildu skifta á þrem dýralæknum og þrem prestum, ef út í það færi.