06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í C-deild Alþingistíðinda. (3710)

87. mál, dýralæknar

Hákon Kristófersson:

Jeg verð að vera á sama máli og hv. þm. Borgf. (P. O.) um það, að frv. nái alls ekki tilgangi sínum.

Hins vegar er jeg þeirrar skoðunar, að brtt. á þgskj. 202 sje vel hugsuð og geti bætt mikið úr þeim skorti, sem nú er á mönnum, er kunna að fara með dýrasjúkdóma.

Að vísu sagði hv. frsm. (S. S.), að dýralæknirinn hjer í Reykjavík mundi ekki vilja taka þessa kenslu að sjer, og hann teldi hana varúðarverða, því að hætt væri við, að hún mundi verða til þess að skapa skottulækna. Slíkt getur að sjálfsögðu komið fyrir um einhverja af læknum þessum, því að það er engin ný bóla, að læknar reynist misjafnlega, en mín reynsla er sú, að sumir þeir, sem hingað til hafa gefið sig við því að hjálpa skepnum, hafi ekki gert öllu minna gagn en lærðir dýralæknar. Þess skal jeg og geta, að jeg hefði kunnað betur við, að þessi námsskeið væru haldin að vetrinum, því að á þeim tíma má búast við, að þau yrðu betur sótt en á vorin, þegar gnægð er af arðsamri atvinnu.

Jeg býst við, að hv. nefnd hafi athugað það, að ef þetta nær fram að ganga, þá hefir það ekki lítinn kostnað í för með sjer fyrir landssjóð. En um það er ekki mikið að segja, því að væntanlega vega notin af dýralæknunum upp á móti kostnaðinum við þá. Þó er það ósambærilegt að bera nytsemi dýralækna saman við mannalækna, því að óneitanlega er mannslífið dýrara og dýrmætara en líf skepnunnar.

En það er annað í þessu máli, sem þarf að athugast. Er það tilætlunin, að núverandi dýralæknar þjóni hinum nýstofnuðu embættum, ásamt sínum embættum, og fái þá, eins og venja er um aðra embættismenn, sem þjóna tveim embættum, hálf laun embættisins, sem þeir taka að sjer að þjóna, auk síns eigin. Eins og frv. er orðað, virðist mega leggja slíkan skilning í það, þótt jeg geri ráð fyrir, að sú hafi ekki verið tilætlun nefndarinnar. Þetta er ekki óverulegt atriði, og væri gott að fá skýringu hv. nefndar á því.

Svo framarlega sem dýralæknir er vel fær um að gegna stöðu sinni, geri jeg ráð fyrir, að hann muni eftir föngum afla sjer upplýsinga um sjúkdóma dýra í hjeraði sínu og fræða menn um þá og meðferð þeirra. En hvað hefir nú reynslan sýnt í þessu efni? Þetta ætti að geta orðið að gagni; en hræddur er jeg um, að ferðakostnaður dýralæknanna muni reynast hærri en frv. gerir ráð fyrir.

Jeg verð að játa það, að jeg hefi ekki svo mikla reynslu um dýralækna, eða þekkingu á þeim, að jeg geti sagt um það, hve mikil þjóðarnauðsyn þetta frv. er.