06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í C-deild Alþingistíðinda. (3711)

87. mál, dýralæknar

Pjetur Ottesen:

Jeg skal heita því, að auka ekki á óróa hv. deildarmanna með langri ræðu. — Mjer kemur það hálfundarlega fyrir, hve lítið trúaður háttv. frsm. (S. S.) er á námsskeiðin; einkum er þetta undarlegt, þar sem árangurinn af námsskeiðum, sem Búnaðarfjelag Íslands hefir haldið uppi, hefir verið sjerlega góður; t. d. má segja, að lækning á doða í kúm og gelding hesta sje komin í gott lag, og má sjálfsagt að miklu leyti þakka það námsskeiðunum og þeirri fræðslu, sem þau hafa veitt. Þá hefir og mönnum víðs vegar úti um land hepnast vel bólusetning gegn bráðapest í sauðfje, og það svo, að sá mikli vágestur, bráðapestin, er nær horfin. Munu sumir þeirra ekki standa neitt að baki lærðum læknum í þeirri grein þegar þessi góða reynsla hefir fengist um þetta þrent. Þá er engin fjarstæða, að svo gæti orðið um fleira, og að dýralæknir gæti kent fleira út frá sjer, sem að góðu haldi gæti komið, á þessum fyrirhuguðu námsskeiðum.

Auk þess gætu dýralæknar gert meira að því að skrifa um meðferð dýra og algenga dýrasjúkdóma en þeir hafa gert nú að undanförnu. Jón landlæknir skrifaði fyrir löngu síðan bók um dýralækningar, sem varð að góðu liði, og er sumt úr henni notað enn í dag.

Þá mintist hv. frsm. (S. S.) á skottulæknana í sambandi við þessa breytingu, á þann hátt, að jeg verð að mótmæla því harðlega, ef það hefir átt að vera í óvirðingarskyni, því að það er á allra vitorði, að ýmsir hinir svo kölluðu skottulæknar hafa gert stórmikið gagn, og mjer finst það sitja best á hv. þm. (S. S.) að tala hjer hægt um, því að jeg man ekki betur en að hv. þm. (S. S.) varpaði því fram hjer á þingi 1917, að vafasamt væri, hvort „alopatar“ hefðu ekki sálgað jafnmörgum og þeir hefðu bjargað. Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji taka undir þetta með þeim hv. þm. (S. S.); en svo fjellu honum orð þá. (S. S.: Læknarnir eru misjafnir, eins og aðrir).

Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) kvað nauðsynlegt að stofna embætti þessi nú, til þess að hvetja menn til þess að fara að læra dýralækningafræði. — Þetta getur nú verið; en undanfarandi reynsla hefir þó fremur verið sú, að embætti hafi verið stofnuð handa vissum mönnum, sem embætti hafa þarfnast í þann svipinn, en hitt.