06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í C-deild Alþingistíðinda. (3712)

87. mál, dýralæknar

Björn R. Stefánsson:

Jeg mun greiða atkv. á móti frv. þessu, því að jeg sje ekkert það í því, sem geri það nauðsynlegt, að það sje gert að lögum. Aðalbreytingin frá því, sem nú er, er sú, að dýralæknaembættum skuli fjölgað, en þó er það vitanlegt, að engir dýralæknar eru til í þessi nýju embætti, og það eru lítil líkindi til þess, að hinir fyrirhuguðu þrír dýralæknar komi allir í einu í embættin. Mjer sýnist því eðlilegast, að bætt sje við embættum smátt og smátt, eftir því sem menn fást í þau. Jeg geri ráð fyrir, að heppilegra muni að ákveða hjeraðaskiftinguna, smátt og smátt eftir því sem mennirnir fást í þau, en fastbinda hana ekki alla fyrirfram, eins og hjer er gert.