08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í C-deild Alþingistíðinda. (3719)

87. mál, dýralæknar

Pjetur Ottesen:

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. 2. þm. Rang. (E. J.) hafa tekið margt upp af því, sem jeg vildi sagt hafa, en jeg vildi að eins skjóta þeirri athugasemd inn, að þó að frv. verði felt, mætti setja brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) inn í gömlu lögin.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) skaut því að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að hann mundi vera skottulæknir, í þeirri merkingu, sem hann leggur í orðið, og átti það auðsjáanlega að vera honum til hnjóðs. En með því að vera altaf að uppnefna þá menn, með því að kalla þá skottulækna, sem hafa aflað sjer fræðslu um helstu búfjársjúkdóma, og hjálpa skepnum, þegar svo ber undir, þá gerir hv. þm. (S. S.) lítið úr þeirri fræðslu, sem Búnaðarfjelagið hefir látið mönnum í tje í þessum efnum. En það kemur vissulega úr hörðustu átt.