21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Atvinnumálaráðherra (S. J ):

Það eru hestarnir aftur, eins og vænta mátti. Jeg hefi nú litið yfir nál. Aftur heyrði jeg ekki fyrri hlutann af ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Ef til vill hefir þar ekki komið fram neitt nýtt til viðbótar við það, sem hann mælti við 1. umr.

Spurningin er, og fyrir mjer er það aðalatriðið, hvort verið hafi veruleg þörf fyrir hrossaseljendur, að stjórnin tók einkasöluna, hvort það hafi verið nauðsyn. Því er hægt að svara, að óumflýjanleg nauðsyn var það ekki. En þörf var að fá sem best verð fyrir hrossin, sem voru farin að fjölga í landinu. Jeg býst við, að menn muni það, sem stendur í nál. um tildrögin. Þar er rjett tekið fram, að stjórnin var ekki búin að bindast neinum samningum um einkasölu, er samningaumleitanir fóru fram við útlenda kaupendur. Stjórnin leitaði álits manna í hrossauðugustu hjeruðum landsins, hvort þeir vildu selja og hve mikið. Jeg veit ekki, hvort farið hefir verið vestur í Dalasýslu, en sjálfsagt hefir verið símað þangað, eins og í önnur hestahjeruð.

Þetta voru fyrstu málaleitanir stjórnarinnar til að fá hesta hjeðan. Hún gerði fyrirspurnir um, hve mikið menn vildu selja, og við hvaða verði. En svo kom það upp, að kaupendur, sem vildu fá íslenska hesta og borga þá vel, kiptu að sjer hendinni og vildu ekki borga nærri eins hátt, eða þriðjungi lægra en búist var við. Jeg veit ekki af hvaða ástæðu það var. En þar sem hv. þm. Dala. (B. J.) heldur því fram, að ekki þurfi að vera samband á milli verðfalls á þessu stóra hestakyni hjá Dönum og á íslenskum hestum, þá er slíkt mjög hæpin ályktun, en það má líka hugsa sjer, að þörfin hafi minkað á báðum tegundum, og verð því fallið á báðum. Til samanburðar má benda á það, sem vjer allir vitum, að Danir hafa keypt kjöt hjer á landi mjög ódýrt, en selt sitt kjöt aftur miklu hærra verði til Þýskalands. Getur vel verið hið sama um hestana. Virðist eins rjett að hugsa svo.

Jeg ætla ekki að tefja tímann með því að deila við hv. þm. Dala. (B. J.) nje aðra um eðli verslunar yfir höfuð. Það er ekki verulega líklegt, að við getum orðið sammála um það. En það stendur óhrakið, að áður en gert var út um hrossasöluna var leitað álits um það í hrossasveitum landsins, hvort stjórnin skyldi hafa einkasöluna eða ekki. Og þegar framboðið varð lægra, varð stjórnin hikandi og leitaði álits manna. Vildu þá seljendur samt, að stjórnin hjeldi áfram einkasölunni. Þótt ekki næðist til hvers manns, var það yfirleitt svo, að seljendur vildu þetta. Eftir röksemdaleiðslu hv. þm. Dala. (B. J.) var það ekki of seint, fyrst samningar voru gerðir of fljótt. Þeir, sem leitað var til, voru m. a. stjórn Sláturfjelags Suðurlands, sem hafði hugsað sjer að safna saman hrossaframboðum hjer á landi. Var hún því eindregið fylgjandi, að stjórnin hjeldi einkasölunni áfram. Enn fremur var t. d. formaður Búnaðarsambands Suðurlands eindregið með.

Jeg skil ekki, hvað vakir fyrir mönnum, er þeir heimta frekari skýringar á þessu. Jeg fyrir mitt leyti verð að efast um, að þeir skilji þá verslunarlegu þýðingu, sem það hefir að safna framboðum saman á eina hönd. Þeir hafa slegið því fram, að af þessu hafi hlotist skaði svo þúsundum króna skiftir, en ef til vill eru það einhverjir hrossa-„spekúlantar“, sem þann skaða hafa beðið. Með því er ekki rökstutt, að landið tapi, og geri jeg því ekki meira úr orðum þeirra en ummælum verslunarfróðra manna hjer í deildinni. Hvað vilja þeir gera? Jeg hefi ekki heyrt, hvort það er hugsun háttv. andstæðinga að láta lögin ganga gegnum deildina eða hvort þeir vilja ekki láta þau ná fram að ganga. Eflaust vita þeir sjálfir, til hvers refirnir eru skornir hjá þeim, og hafa víst gert sjer ljósar afleiðingarnar, ef lögunum verður synjað staðfestingar.