08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í C-deild Alþingistíðinda. (3723)

87. mál, dýralæknar

Sigurður Stefánsson:

Háttv. 2. þm. Rang (E. J.) sagði, að þó að dýralæknum yrði fjölgað úr 4 upp í 7, mundu bændur ekki hafa nein almenn not af þeim. Skepnur myndu drepast hjálparlausar eftir sem áður, af því að um langan veg væri að vitja læknisins. En það er þó töluverður munur, hvort læknarnir eru 4 eða 7. Eða væri ekki mikill munur fyrir Rangæinga að vitja læknis, sem væri búsettur þar innan sýslunnar eða í Ámessýslu, heldur en þurfa að sækja hann hingað til Reykjavík.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt því fram, að andstaða bænda gegn frv. sýndi best gagnsleysi þess. Jeg efast um að þetta sje rjett. Jeg hygg, að hún sje miklu fremur vottur um óskarpskygni bænda. Það virðist liggja nokkurn veginn í augum uppi, að því fleiri sem læknarnir yrðu, því auðveldar yrði að ná til þeirra og því almennari yrðu notin af þeim. Jeg leiði minn hest frá að kenna þeim mönnum rökfræði, sem ekki skilja jafneinfalt dæmi og þetta.