08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í C-deild Alþingistíðinda. (3727)

87. mál, dýralæknar

Gísli Sveinsson:

Það lítur helst út fyrir, að meiri hl. hv. þingdm. sje á því, að bana frv. þessu, og telji það einskis nýtt, að undantekinni brtt. minni, er inn í frv. komst síðast og af öllum er nú talin ágæt að vera. En fari nú svo, að frv. verði felt, þá er mjer eigi grunlaust um, að hin ágæta brtt. mín nái eigi fram að ganga á þessu þingi, þótt flutt væri sjer í lagi, eða í frv.-formi. Þá er að athuga það, hvort eigi muni vera hægt að bjarga henni á annan hátt en með því að fitja upp á nýju frv., sem mjög er tvísýnt að komist að eða fram á þessu þingi, þar sem svo er langt á liðið. Vegurinn til þess liggur opinn fyrir, og hann er sá, að málið sje nú tekið út af dagskrá, og borin síðan fram brtt. við það, þannig úr garði gerð, að burt væri felt úr frv. það, sem mest hefir orðið til ásteytingar, en hinu haldið eftir, með hæfilegri breytingu á orðalagi, er flestir virðast vilja hallast að. Vil jeg því beina því til hv. forseta, að málið sje tekið út af dagskrá, og vona jeg, ef slíkt er borið undir hv. deild, að hún leyfi það, því að á þann veg er hægt að bjarga við því úr málinu, sem mest þykir um vert.