21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Gísli Sveinsson:

Nál. háttv. landbúnaðnefndar er, eins og sjá má, að eins umsögn útflutningsnefndar um þetta hrossasölumál. Það er sýnilegt, að hv. landbúnaðarnefnd hefir á engan hátt sjálfstætt athugað málið, eða aflað sjer neinna upplýsinga frá öðrum en formanni útflutningsnefndar. Mátti þá vita fyrirfram, þótt nál. hefði verið styttra, hvernig það myndi vera. Það gefur að skilja, að þegar þeir, er sjálfir hafa framkvæmt, skýra frá framkvæmdum, sem orka tvímælis, þá verður jafnan einhliða frá skýrt. Það er jafnvel eðlilegt, og ekki tiltökumál. En þingnefnd, sem falið er mál til athugunar, og á að athuga meira en frá einni hlið, henni er skylt að rannsaka það frá rótum og sjálfstætt, en á ekki að fara í smiðju til þeirra eingöngu, sem talist geta sjálfir aðiljar í málinu.

En þetta hefir hv. landbúnaðarnefnd gert. Hún hefir farið í smiðju til útflutningsnefndar. Á nál. hennar er því ekki mikið að græða, nema rök útflutningsnefndar. Hitt hefir komið fram í umr., hvaða rök landsstjórnin hefir að færa fyrir sinni ráðabreytni. Við 1. umr. var hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) spurður, hvaða nauðsyn hefði knúð stjórnina til þess, á þessum tíma, að taka í sínar hendur einkasölu á hrossum. Svar hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) var engan veginn fullnægjandi, og jeg get nú ekki sjeð, að hæstv. stjórn hafi farið minstu vitund fram í því, að svara fyrir sig. Það hefir komið fram utan þings í blaði, og nú í nál. útflutningsnefndar (því að svo kalla jeg það), að rökin til þessarar sölu eru fyrst og fremst málaleitun dönsku stjórnarinnar til íslensku stjórnarinnar um einkaútflutning og sölu á hrossum.

Það er einkennilegt, ef það eiga að vera fullnægjandi rök, þótt einhver erlend stjórn fari fram á það, að eitthvað sje gert, eins og t. d. að hindra sölu á ákveðnum afurðum, fyrir því, að landsstjórnin verður við því, og ræðst í annað eins og það, að hefta alla frjálsa sölu á afurðum landsins og stórskaða með því þegnana.

Ef nú er athugað, hvers vegna danska stjórnin fer fram á þetta, þá getur ekki verið um annað að ræða en það, að hún vill fá fyrir hönd Dana, sinnar þjóðar, hestana með sem vægustum kjörum. En þessi vilji og viðleitni dönsku stjórnarinnar getur ekki verið regla fyrir íslensku stjórnina. Þessi málaleitun Dana átti einmitt að verða til þess, að íslenska stjórnin væri enn betur á verði og kastaði sjer ekki í fang dönsku hrossakaupmönnunum, að lítt rannsökuðu máli.

Þá er annað atriði, sem nefndin telur til meðmæla með einkasölunni, en það er „álit margra landsmanna“ um, að einkasalan hækkaði verðið og bætti útflutninginn. Því til sönnunar er ályktun frá sýslunefnd Skagfirðinga. Þó að nú Skagfirðingar sjeu miklir menn, og sýslunefnd þeirra hálfu meiri en aðrar sýslunefndir, er mjer þó ómögulegt að fallast á, að hún eigi að ráða fyrir alla landsmenn, eða að þetta geti gert kröfu til að kallast „margir landsmenn“ í slíku máli. Þetta er ekkert smámál, hvort landsmenn eiga að fá sæmilegt verð fyrir afurðir sínar, eða kasta þeim út fyrir hálfvirði. Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) sagði, að leitað hefði verið álits margra landsmanna um það, hvort einkasalan skyldi halda áfram, en hinu gleymir hann, að stjórnin hafði þegar gert ráðstafanir með bráðabirgðalögum, svo að einkasalan var þegar á komin, er þessa álits var leitað. En hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J) hefir ekki, og útflutningsnefnd ekki heldur, bent á þessa „mörgu landsmenn“. (Atvinnumálaráðh.: Jeg gerði það áðan!) Jú, hann nefndi 2 menn, forstjóra Sláturfjelags Suðurlands og formann Búnaðarsambands Suðurlands. Jeg hefi sannfrjett, að stjórnin hefir ekki „haldið út“ að hafa Sláturfjelagið með í ráðum. Það ætlaði sjer, áður en einokunin komst á, að vera sem einskonar milliliður milli seljanda og kaupanda í frjálsri sölu. Og hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) mun hafa kvatt það til þess að vera með í ráðum. En þegar komið var að því að ákveða hvort taka skyldi tilboði Dana, var fulltrúi Sláturfjelagsins ekki spurður ráða. Jeg sje nú ekki, að þeir geti kallast neinir ráðunautar í þessu máli. (P. J.: Þetta er rangt!) Þeir hafa sagt mjer það, sem jeg hefi eins mikla ástæðu til að trúa og þeim hv. þm., er nú tók fram í. Sje haldið fast við þessa ástæðu, sje jeg ekki, að það hefði verið svo hættulegt að fresta ákvörðun í málinu, eða þá láta Sláturfjelagið hafa milligöngu um söluna, eins og til stóð. Það hefir verið sagt, að alt væri í voða vegna hrossaprangs hjer heima. (Atvinnumálaráðh.: Hverjir segja það?) Þar hefi jeg fyrir mjer hrein orð, sem þessi hæstv. ráðherra hefir sagt. Andinn í þeim var þessi, þótt engin þori auðvitað að fullyrða neitt! Jeg held, að málinu hefði verið vel borgið í höndum Sláturfjelagsins, sem er ekkert prangarafjelag, og tilheyrir jafnvel hugmynd þeirri í viðskiftamálum, sem hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) hallast að. En landsstjórninni lá svo á að „praktisera“ þessa einokun, að hún varð að nota hverja átyllu til að koma henni á. Er þetta víst það „eðli verslunarinnar“ og þess háttar, sem ráðherra talaði um og hv. þm. Dala. (B. J.) skilur ekki. (Atvinnumálaráðh.: Alveg rjett!).

En þótt svo sje jafnvel, að sýslunefnd Skagfirðinga hafi samþykt þetta, og það mun hið eina, sem stjórnin hefir svart á hvítu, þá er nú sagt, að síðan er sýslufundurinn var hafi Skagfirðingar sumir dregið sig til baka. Þeir hafa víst gengið út frá því í fyrstu, að stjórnin myndi sjá um, að verðið yrði að minsta kosti ekki minna en í fyrra, en nú aftur á móti þóst vissir um, að verð stjórnarinnar væri minna en þeir gætu fengið annarsstaðar. Má af því ráða, að þótt menn ætli að fylgja stjórninni í einhverju, sem hún tekur sjer fyrir hendur, þá er ekki með því sagt, að þeir fylgi henni hversu hraklega sem henni tekst, jafnvel ekki Skagfirðingar. Jeg hefi heyrt það úr Skagafirði, að þegar þeir fengu boðin um verðið, þá hafi t. d. einhver hrossauðgasti hreppurinn, Akrahreppur, engu lofað. Þetta ber vott um, að jafnvel fylgi sýslunefndar muni ekki vera heilt, því að einn nefndarmanna hlýtur þó að vera úr Akrahreppi.

Nú er það mjög einkennilegt, þegar verið er að fullyrða um þessa ,,landsmenn“, sem hafi verið spurðir álits, að enginn þingmaður hefir um það heyrt. Getur verið, að útflutningsnefndin hafi spurt örfáa menn í pukri, án þess að almenningur fengi um það að vita. Það er satt að hún hefir farið til eins manns eystra og annars í Reykjavík og svo fengið „álit Skagfirðinga“. Þetta er fylgi allra — eða margra — landsmanna! Sjá allir, að þetta er engin frambærileg ástæða, heldur er það þvert á móti hin mesta ósvinna, að koma á einokun, og koma fram fyrir Alþingi með gerðan samning, bygðan á þessum rökum.

Jeg álít, að frsm. (J. J.) sje búið að svara, og þarf ekki að endurtaka það.

Þriðja ástæða nefndarinnar er líka ljettvæg. Sláturfjelagið var búið að fá loforð fyrir öllum þessum hrossum, og þá gat landsstjórnin eins fengið skiprúm handa því eins og sjálfri sjer, með sæmilegum kjörum.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) játaði það, að nauðsynin til þessa tiltækis stjórnarinnar hefði sjálfsagt ekki verið óumflýjanleg, en jeg tel alls ekki leyfilegt að gera annað eins, nema það sje alveg óumflýjanlegt.

Það virðist nú mega ráða af ferðalagi formanns útflutningsnefndar, að honum hafi verið mikið kappsmál að koma út hrossunum, fyrir hvað sem var, en það vill einmitt reynast svo, að þegar menn leggja mikla áherslu á að bjóða út einhvern hlut. þá eru menn minna ginkeyptir fyrir að bjóða í hlutinn en ella.

En vitanlega höfðu húsmannafjelögin dönsku þörf fyrir hestana, og hana brýna. enda er það sami aðilinn, sem ríkisstjórn Dana ber fyrir brjósti, þegar hún er að leita hófanna hjá íslensku stjórninni um að taka að sjer einkasöluna. Eða getur hæstv. ráðherra, formaður útflutningsnefndar eða útflutningsnefndin sjálf fært nokkur rök fyrir því, að kaupandi hafi ætlað eða ætli sjer að flytja út hrossin úr Danmörku?

Það má ráða af áliti útflutningsnefndar, sem landbúnaðarnefnd kallar sitt, að samningar hafi farið fram í byrjun júní, og verðið ákvarðað þá, og svo framarlega, sem hinn ákveðni hrossafjöldi fengist, áttu þeir samningar að standa. En það sjá nú allir heilvita menn, að þetta var alt of snemt, og samningar vafalaust mátt bíða, uns þing kæmi saman.

Rökin, sem færð eru fyrir þessu tiltæki, eru sem sagt á engan hátt fullnægjandi. Alt ber að þeim brunni, að hjer hafi verið flanað að verki, án þess nokkuð ábyggilegt hafi verið við að styðjast hjá stjórninni eða frá landsmönnum.

Hið eina, sem landsmenn lögðu hjer til mála, var svar þeirra við þeirri fyrirspurn, hvað menn vildu selja mörg hross. Getur stjórnin varla talið sjer það til inntekta, þó að menn vildu láta hross sín. Menn munu yfirleitt hafa þóst öruggir um, að málinu mundi vegna vel, þegar Sláturfjelag Suðurlands, sem er samvinnufjelag, ætlaði að hafa milligöngu um söluna. Aldrei var spurt í mínu umdæmi, hvort menn vildu einkasölu á hrossum, því að það var búið að lögleiða það áður en fyrirspurnin kom um, hvað menn vildu láta. Að eins kom símskeyti frá stjórninni, þar sem tilkynt var alment bann gegn öllum afurðaútflutningi þessa árs, sem þó fengist leyfður, nema á hrossum, hrognum og meðalalýsi. Datt mjer ekki annað í hug en að hjer væri um ráðstafanir að ræða vegna kúgunar bandamanna og út af ófriðnum, og þegar menn spurðu mig um, hvernig stæði á þessu með hrossin, gat jeg ekki afsakað hæstv. stjórn með öðru en því, að þessu mundi stríðið sjálfsagt valda. Því jeg var að afsaka hæstv. landsstjórn, þótt hún ef til vill trúi því ekki á mig, en þá tókst svo til, að jeg ætlaði henni of góðar hvatir.

Annars býst jeg nú vart við því, þó sameiningin væri að láta stjórnina sæta rjettlátri ábyrgð í þessu máli, að það mundi takast, því að jeg býst ekki við, að þetta hv. þing fari að gera sjerstakt veður út af hrossasölunni. Hæstv. landsstjórn hefir sem sje gert svo mörg afglöp og axarsköft áður, að hún hefði ekki getað setið í nokkru öðru siðuðu landi, en þingið hefir ekki fengist um, og hún situr enn, eins og raun gefur vitni.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) telur hrossin verða að vera minst 47 þuml.; þó sagði hann að hæðin mætti vera 46 þuml. á framskipunarstað. Það er undarlegt, að ekki skyldi nást samningur um „normal“- hæð á hrossunum. Landsmenn verða að selja 47 þuml. hross eins og þau væru 46 þuml., þar sem hjer er reiknuð svo kölluð rýrnun á leiðinni ofan úr hjeraðinu og til skips, sem líka verður misrjetti gegn ýmsum afskektum sýslum. Og tel jeg það illa frá gengið, að hafður sje af landsmönnum þó ekki sje nema einn þuml. af hverju hrossi. Útflutningsnefndin „stelur“ þarna einum þumlungi af hverju hrossi, sem út er flutt. Svo er eins og útflutningsnefndin seilist með verðsetningu sinni eftir að ná í bestu hrossin, en vilji kúga landsmenn til að skilja eftir alt ruslið heima, því að til þess að fullnægja kröfunum verða menn að velja úr hrossum sínum. En þetta er beinasti vegurinn til þess að úrkynja hrossin í landinu. Jeg held, að Danir geti líka gert sig ánægða með að fá hrossin upp til hópa.

En auðheyrt er, að háttv. útflutningsnefnd skoðar þetta ekki neitt alvörumál, og það virðist, sem þeir háttv. þm., sem við það eru riðnir, geri bara gys að því. Slíkan áhuga hafa þeir á framleiðslu landsmanna og stórkostlegu fjarspursmáli í afurðasölu þeirra.