31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í C-deild Alþingistíðinda. (3738)

100. mál, sala á nokkrum hluta heimalands Auðkúlu

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Frammi í lestrarsal hefir legið skrifleg beiðni um að fá landsskika þann keyptan, sem frv. þetta ræðir um. Umsækjandinn hafði áður sent landráðanda beiðnina og beiðst umsagnar hans. En hann svaraði, að beiðnin væri þann veg vaxin, að hann teldi vafasamt, að hann vildi verða við henni, því að þótt hann notaði ekki landsskikann sjálfur, vilji hann ekki fyrir girða, að hann geti gengið til eftirkomenda sinna, ef þeir þörfnuðust nytja af honum. Og ef teknar yrðu Upp aftur fráfærur, yrði landið notað. Nú hefir umsækjandi tekið það fram, að hann vilji gangast undir að láta landið aftur til þessara nota.

Mál þetta er komið hjer inn á þingið eftir beiðni umsækjanda. Jeg legg hvorki með því eða móti. Hjer á þingi hefir áður staðið deila um sölu þjóðjarða. En þar var töluvert öðru máli að gegna. Þar var um að ræða sölu til ábúenda, en hjer miðar salan að því að fjölga býlum. það er alment viðurkent, að þörf sje á að útvega mönnum býli til ábúðar, ef kostur er á. Hins vegar vitum við, hversu miklir erfiðleikar eru orðnir á þessu.

Jeg vil geta þess, nefndinni til athugunar, sem fær málið til meðferðar, að umráðandi landsins, presturinn á Auðkúlu, er nú staddur hjer í bænum. Nefndin ætti að ná fundi hans og bera undir hann umsóknina, því að hann hefir tjáð mjer það, að hann hafi alls ekki búist við því, þegar hann gaf umsögnina, að hún færi til þingsins. Jeg býst við, að hann gefi ákveðin svör.

Jeg sting upp á, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar, að lokinni umr., og sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.