21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Bjarni Jónsson:

Kjósendur mínir báðu mig að spyrja stjórnina, hvernig stæði á því, að hún tók hrossasöluna í sínar hendur. En stjórnin hefir ekki svarað þessu enn þá. Eitthvað hlýtur að liggja hjer á bak við. Mundi það þá vera tilmæli dönsku stjórnarinnar einna helst? Nú hefir hún þó vart það vald, sem enska stjórnin hafði, nema hún hafi eitthvert það vopn á stjórn vora, sem bíti. Heyrt hefi jeg utan að mjer, að fyrir þetta, að stjórnin íslenska varð við tilmælum þeirrar dönsku um einkasölu á hrossum, hafi fengist betra verð á sykri frá Danmörku, en jeg trúi því ekki. (Atvinnumálaráðh.: Það er líka tóm vitleysa). En þá skil jeg líka ekki, hvernig stendur á þessu, því jeg held menn til hjer á landi, sem æfðari eru í hrossakaupum en stjórnin. (E. A.: Er það nú víst?).

Enn þá eru alls engar sönnur færðar á það, hvort ekki hefði mátt fá miklu hærra verð fyrir hross. Það lítið jeg veit um hrossasölu í Danmörku er það, að fyrir skömmu var selt í Kaupmannahöfn íslenskt tryppi, þrevett, fyrir 1000 krónur. Það var enginn kostagripur, heldur venjulegt miðlungshross, svo sú sala mælir ekki með hrossasölu stjórnarinnar.

Jeg ætla, að hæstvirtur atvinnumálaráðh. (S. J.) nefndi hrossakaupmenn með dálitlum þjósti. Þeir munu þó vart verri en aðrir kaupmenn. Má vel vera, að þeir græði vel, en allir kaupmenn græða meira og minna. Enda er það ekki það, sem seljandi á að líta á, heldur það, hvernig hann getur sjálfur selt, nema það sje sjerstaklega nauðsynlegt, að dönsku hrossaprangararnir græði.

Þetta danska húsmannafjelag hefir alveg sjerstaka aðferð til þess að ná í íslenska hesta. Það velur úr hestunum, sendir svo úrkastið til Englands og Svíþjóðar, til þess að fella verðið á íslenskum hestum. Þetta sagði mjer sænskur hestakaupmaður í Göteborg. Hann samdi um kaup á íslenskum hestum við húsmannafjelögin, en þegar Svíinn kom til að velja, var búið að tvívelja úr rjettinni (Fælleden), svo hann fjekk ekki annað en úrkast. Svo kom Svíinn heim og keypti hjer heima hesta, og þá hækkaði verðið að mun á íslenskum hestum. — Þetta danska húsmannafjelag má nú kalla hrossaprangara, sem bera nafn með rentu.

Sem sagt tel jeg svör stjórnarinnar, enn sem komið er, ekki nægilega skýrandi, en get hins vegar ekki lagt til, að lögin verði feld, úr því að samningarnir eru gerðir, því jeg veit ekki, hvort hv. stjórn er svo efnum búin, að hún geti borgað skaðabætur.