07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í C-deild Alþingistíðinda. (3750)

109. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Tilefni þessa frv. er það; að einstakir menn hafa skorað á okkur flm. að bera það fram. Sömuleiðis höfum við fengið áskoranir um það frá þeim fjelögum, sem hafa með þetta mál farið sem aðalmál sín.

Í þriðja lagi hafa margir þingmálafundir skorað á Alþingi að taka einstakar greinar þeirra laga til athugunar og breyta þeim.

Að vísu munu ýmsir vera orðnir leiðir á þessum sífeldu breytingum á lögum þessum, sem gerðar hafa verið næstum á hverju þingi síðan lögin voru sett.

En það er ekki að undra, þótt þessum lögum sje oftar breytt en öðrum lögum, þar sem þau eru í raun og veru fyrsta tilraunin til að útrýma áfengi með lögum.

Við Íslendingar höfum hjer gerst brautryðjendur, því að hvergi í heiminum voru til slík lög, þegar þessi voru sett.

Við höfum því enga reynslu annara þjóða að fara eftir. Það er okkar eigin reynsla, sem við verðum að læra af og finna í hverju ábótavant er. Þess vegna er eðlilegt, að oft þurfi að breyta lögum þessum.

Bæði fundir, einstakir menn og fjelög, vildu láta okkur flm. ganga lengra í ýmsum atriðum. Við vorum því heldur ekki mótfallnir, en af því að slíkar breytingar hafa stundum gengið treglega hjer á þingi, þótti okkur ekki byrvænlegt að fara fram á róttækari breytingar.

Jeg skal ekki fara út í einstakar breytingar við gr. frv., við þessa umr.

Að eins vil jeg taka það fram, að aðaltilgangur frv. er sá, að reyna að draga úr því, að menn geri sjer bannlagabrot að atvinnugrein, eins og brytt hefir á. Þannig eru nú lögin framkvæmd, þegar um óleyfilega vinsölu er að ræða, þótt brotin komist upp, að stórvinningur er fyrir lögbrjótana, þótt þeir sjeu sektaðir. Sektirnar eru svo lágar, að þá munar engu að greiða þær. Þeir hafa haft langtum meiri gróða á hinni ólöglegu sölu.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um frv. að þessu sinni, en að eins óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og til allsherjarnefndar að umr. lokinni.