21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg ætla að eins að drepa á það, að mjer heyrðist hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segja, að að eins hefði verið leitað tveggja manna. Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) tók fram fleiri, svo óþarfi er að telja þá hjer upp. Jeg hefi altaf litið svo á, að ef ráðgast er við fulltrúa, þá megi telja svo, sem leitað sje atkv. þeirra, sem í fjelaginu eru. (G. Sv.: Ef fulltrúarnir eru í samræmi við skoðun þeirra.) Jeg vil benda hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á það, að hann er hjer sem fulltrúi fyrir kjósendur sína og greiðir atkvæði í þeirra nafni. (G. Sv.: Jeg mun aldrei verða svo djarfur, að ætla að leiða yfir þá einokun.)

Viðvíkjandi þessari einkasölu má geta þess, að þegar einn er umsjónarmaðurinn, þá sparast margt, sem annars yrði ekki hjá komist. Má þar nefna t. d. skipakost. Auk þess er hægt að hafa viðskiftin skýrari og fá gleggra, hve mikið á að flytja, og þá spillir ekki hver fyrir öðrum. Jeg veit það um einn hrossakaupmann, að hann spilti fyrir því, að annar kæmi út sínum hrossum.

Annars hefi jeg að eins heyrt eitt atriði, sem ætti að vera rök á móti málinu. Hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um tryppi, sem hefði verið selt dýrt í Danmörku. Ef þetta er það eina, eitt tryppi, þá ætla jeg engum getum að því að leiða, hvernig þetta mál fer hjer í deildinni. Hjer á landi eru og til dæmi um afarverð á einstaka hesti, enda svo þúsundum kr. skiftir. Eftir rökfærslu hv. þm. (B. J.) ætti að gera þetta að almennum mælikvarða fyrir hestaverði hjer, þ. e. álykta frá því einstaka til hins almenna.