21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Einar Arnórsson:

Það er sprottið af misskilningi, að ráðist hafi verið á útflutningsnefnd hjer í dag fyrir afskifti hennar af þessu máli. Gerðir hennar eru eflaust allra þakka verðar. Það virðist augljóst, eftir því, sem fram hefir komið, að hún hafi gert alt, sem í hennar valdi stóð, til að fá sem best verð fyrir hestana. En vitanlega hefir hún orðið að fara eftir skipunum frá hærri stöðum, sem sje stjórninni.

Það er að vísu satt, að það er þýðingarlítið að ræða þetta mál mikið nú, því að það má segja, að því sje þegar ráðið til lykta. Stjórnin er víst bundin með samningi, og það getur haft ýmsar leiðinlegar og óþægilegar afleiðingar, ef samningum verður riftað, Það getur dregið óþægilegan dilk á eftir sjer, ekki að eins fyrir stjórnina, heldur líka fyrir alt landið í heild sinni. Það er vitanlegt, að hrossakaupmaðurinn gerir þá allháa skaðabóta kröfu, og landið kemst víst ekki hjá að borga hana.

Af þessu er það augljóst, að ýmsir neyðast til að greiða atkvæði með þessu máli, þó þeim sje það þvert um geð. En hitt er annað, og ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að menn láti í ljós óánægju sína með framkomu stjórnarinnar. Þá verður það fyrst til, að byrjað er á samningunum þegar í apríl og þeim er ráðið til lykta 24. júní, eða rjettri viku fyrir þing. Það er eins og stjórnin hafi viljað flýta þessu sem mest og ljúka því af áður en þinginu gafst kostur á að láta í ljós sitt álit. (P. J.: Það er búið að taka það fram, að það var ekki hægt að fá samningunum frestað lengur). Það getur vel verið. Hrossakaupmaðurinn hefir fundið, hvar feitt var á stykkinu, og viljað tryggja sjer bitann sem fyrst.

Þá hefir verið talað um það, að ekki hafi verið hægt að fá hærra verð. Sjerstaklega var það háttv. frsm. landbúnaðarnefndar (J. J.), og vildi hann skella því yfir á mótstöðumennina að sanna hið gagnstæða. Þetta fæ jeg ekki sjeð að rjett sje. Mjer virðist þvert á móti, að sönnunarbyrðin hvíli á meðmælendum frv. og þeim, sem eru upphafsmenn að því. Þeir hafa borið það fram með þeirri röksemd, að ekki hafi verið hægt að fá hærra verð, og þess vegna ber þeim að sanna hana, því að með henni fellur eða stendur frv. Nú eru allar líkur á því, að öll viðskifti komist bráðlega í samt lag, og þá ekkert til fyrirstöðu því, að verslunin sje frjáls. Þegar þetta er athugað, þá verður það enn ljósara, að þeim, en ekki okkur, ber að færa þessar sannanir, og þá sjerstaklega hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), sem mun eiga mestan, ef ekki allan, þátt í því.

(Atvinnumálaráðh.: Ónei). Hinir voru að minsta kosti ekki hjer á landi, þegar ráðist var í þetta, en annars skal jeg ekki þrátta um það, hver hjer á aðallega sök á máli.

Þó að sönnunarbyrðin hvíli eingöngu á meðmælendum frv., þá ætla jeg hjer að tilfæra nokkrar líkur fyrir því, að verðið hefði ekki orðið lægra, heldur þvert á móti hærra, ef verslunin hefði verið frjáls, og styð jeg mig þar aðallega við ræðu hv. frsm. landbúnaðarnefndar (J. J.). Hann sagði, að danska stjórnin hafi ekki verið ófús á að gefa nokkuð hátt verð fyrir hestana, því að hún hafi borið kvíðboga fyrir því, að ekki fengjust nógir hestar. Þetta virðist óneitanlega benda á það, að verðið hefði orðið hærra. Ef danska stjórnin hefði ekki getað fengið hesta eftir geðþótta, þá hefði hún neyðst til að bjóða hærra verð. Það er öllum kunnugt, að verð á vörum fer mest eftir eftirspurn, ef þá ekki nær eingöngu. Mjer virðist, sem hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) hafi þarna veitt allsterkar líkur fyrir því gagnstæða, sem hann vildi halda fram.

Jeg get annars ekki lagt mikið upp úr þeim bollaleggingum, sem fram hafa farið í þessu máli af hálfu talsmanna frv. Það var þegar búið að semja eða stóð á samningum við útlendinga, sem hross kaupa. (P. J.: Umleitunum). Jeg hefi ástæðu til að ætla, að það hafi verið meira en umleitanir. Thor Jensen var í Kaupmannahöfn seinast í apríl, og þegar svo langt var komið, að hann var tekinn þar að leita samninga, þá hefir stjórnin skoðað sig bundna. Og það sýnir best að hún hefir talið sig bundna, að hún gefur út bráðabirgðalög um sölu hrossa, álítur það nauðsyn að hafa lög að baki sjer, ef í það fer. Nú er búið að taka fullnaðarákvörðun og það að þinginu fornspurðu, og þá er ekki svo hægt um vik að snúa aftur af þeirri braut, sem valin var.

En hvernig sem þessu er varið, þá er svo mikið víst, að af hálfu margra þeirra, sem hross vilja selja, er nú talið víst, að hrapað hafi verið að þessu, án þess að svo vandlega væri athugað, sem skyldi.

(P. Þ.: Hvaða sannanir hafa komið fyrir því?) Það eru sannanir fyrir mjer, sem jeg hefi heyrt í viðtali við ýmsa menn, og þegar einhver maður segir, að hann sje óánægður með eitthvað, þá verður slíkt ekki rengt, nema ef vera skyldi af háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), sem ef til vill trúir engum í máli þessu nema hæstv. stjórn og útflutningsnefnd.