30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í C-deild Alþingistíðinda. (3811)

69. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Magnús Torfason):

Eins og allir vita, eru ellistyrktarsjóðirnir eftirlaunasjóðir smælingjanna í þessu landi. Er þetta hið eina, sem gert hefir verið hjer, er miðar að því, að bæta kjör þeirra í ellinni og ljetta af þeim elliáhyggjunum. Jeg þykist vita það, að hv. deild liti svo á, sem styrkja beri þessa sjóði, og það því fremur, sem fullyrða má, að þessi skattur, tillagið til sjóðsins, er orðinn svo vinsæll, að enginn sæmilegur maður telur nú eftir sjer að greiða þetta gjald. Menn eru jafnvel nú teknir að minnast þessa sjóðs með gjöfum, dánargjöfum eða fúlgum í erfðaskrá, og með því að ákveða, að sektir skuli þangað renna. En alt um það hefir það gengið grátlega seint, að sjóðurinn stækkaði og kæmist í það horf, að hann yrði að verulegum notum.

Eins og menn vita, var sjóðurinn stofnaður með lögum 1890, og þá ákveðið 30 aura gjald í hann af kvenmönnum, en 1 kr. af karlmönnum. Árið 1909 var gjaldið fært upp í 75 aura af kvenmönnum og kr. 1,50 af karlmönnum. Árið 1917 var gjaldið ákveðið 1 kr. af kvenmönnum og 2 kr. af karlmönnum. Þetta, að gjaldið var hækkað 1909, þótt peningar hefðu þá ekki fallið í verði, sýnir það, að löggjafinn hefir verið þeirrar skoðimar, að styrkja þyrfti sjóðinn. En efling sjóðsins hefir ekki gengið betur en svo, að meðaleign hvers hrepps er heldur undir en yfir 2000 kr., og eru renturnar af því að eins um 80 kr., og þar af kemur að eins helmingur, 40 kr., til útbýtingar.

Jeg vænti, að menn sjái af þessu, að ef sjóðurinn á að ná tilgangi sínum, og ef ekki á að svíkja af honum það, sem honum ber, þá er ráðið það, að laga verðlækkun þá, sem orðið hefir á gjaldinu eftir gamla taxtanum, á þann hátt, sem þetta frv. fer fram á. Mestur hluti gjaldsins er greiddur af mönnum, sem betur eru staddir, og er það sú góða og fallega hugmynd, sem felst í þessum skattlögum. Verðgildi gjaldsins er ekki sett jafnhátt því, sem rjett hefði verið að fara fram á, ef miðað er við kaup fólks og hve afurðir landsins hafa stigið í verði.

Í sambandi við þetta leggur nefndin til, að lágmark styrksins sje sett 40 kr., í stað 20 kr., sem áður var, og hámarkið 400 kr., í stað 200 kr., enda er notagildið síst meira, heldur öllu minna, en eftir þessu hlutfalli, borið saman við það, sem var fyrir stríðið.

Vænti jeg, að frv. og till. nefndarinnar fái góðan byr, og þykir mjer ekki ástæða til þess að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu.