30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í C-deild Alþingistíðinda. (3812)

69. mál, almennur ellistyrkur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, sem þýðir það, að jeg er ekki alls kostar ánægður með frv., eins og það liggur fyrir; einkum þykir mjer gjaldið helst til hátt. Ástæður mínar eru þær, að jeg lit alveg eins mikið á hag gjaldendanna og þeirra, sem njóta eiga styrksins. Háttv. frsm. (M. T.) sagði, að hjer væri að ræða um eftirlaunasjóð smælingjanna, en það hefði líka mátt kalla hann útgjaldasjóð smælingjanna. Sannleikurinn er sá, að í sjóðinn gjalda fjöldamargir fátæklingar, sem þó geta aldrei átt von á því, að njóta nokkurs úr honum. Það er ekki svo lítill skattur á fátækan bónda að þurfa að gjalda 6 kr. á ári, þótt hann lafi við búhokur, án þess að vera beint öreigi, og fá svo ekkert í elli sinni. Því að þess ber að gæta, að styrk þessum er ekki altaf rjettlátlega úthlutað; jeg þekki þess mörg dæmi. Og í sveitum mun það ganga sem rauður þráður í gegnum útbýtingu úr þessum sjóði, að þeir sjeu hafðir út undan, sem ekki eiga sveitfesti í þeim hreppi, þar sem styrkurinn er veittur. Þetta er auðvitað rangt, en það á sjer því miður alt of víða stað. Þetta er meinið, að þessi eftirlaunasjóður smælingjanna er oft ekki annað en tryggingarsjóður fyrir sveitarfjelögin til þess að afstýra því, að sveitarbyrðarnar verði of miklar. En við það að ljetta undir með sveitarsjóðunum er í rauninni að eins ljett á stærstu gjaldendum þeirra; það er auðvitað mikill kostur, ef hægt væri að ljetta sveitarútsvörunum, eða helst útrýma þeim með öllu, en það er bert, að þessi eftirlaunasjóður smælingjanna er þá ekki einungis það, heldur og til þess að ljetta byrðum af hreppunum. Ef hjer væri um virkilegan eftirlaunasjóð að ræða, þá mundi styrknum verða jafnað niður á menn, jafnvel þótt þeir sjeu ekki alveg blásnauðir, ef verið hafa gjaldendur til sjóðsins, en ekki eingöngu veittur óverkfærum mönnum, til þess að forða þeim frá sveit.

Jeg hygg því, að beita þurfi öðrum meðulum til þess að stækka þennan sjóð. Jeg mundi ekki hafa haft á móti því, ef legið hefði fyrir till. um, að gjaldið skyldi vera kr. 1,50 á kvenmönnum og kr. 3 á karlmönnum, en vildi þó ekki koma fram með brtt., til þess að kljúfa ekki nefndina. Að minni hyggju er og einn gjaldstofn, sem alt of slælega er gengið eftir; jeg á við lausamenskugjaldið. Ef lögunum um leysing vistarbandsins væri fylgt, þá mundi sjóðurinn stækka stórkostlega. En eins og nú er, gera þessi lög ekkert gagn. Mjer hefir komið til hugar, hvort ekki mætti ráða bót á þessu með því að leggja í eitt skifti fyrir öll ákveðið gjald á alla menn 18 ára gamla, er rynni í þennan sjóð. Um það aldursbil eru menn jafnaðarlegast í fullu fjöri og ekki orðnir svo sýtnir, að þeir sjái eftir peningum, og munar ekki svo mikið um þá; hins vegar yrðu menn þá eftir það alfrjálsir til atvinnurekstrar, hvort heldur þeir vildu vera lausamenn eða hvað annað. Ef slík uppástunga um breyting laga 1895, um leysing sóknarbandsins, og auðvitað þessara laga líka, kæmi fram, þá myndi jeg verða mjög fús á að styðja hana. En sú hækkun, sem hjer er farið fram á á tillaginu, finst mjer alt of mikil, meðan engin trygging er fyrir því, að gjaldendurnir fái nokkurn tíma að njóta styrksins. Jeg lái ekki hv. frsm. (M. T.), þótt hann hafi komið með frv.; hann byggir að sjálfsögðu á þeirri reynslu, sem hann hefir fengið í sínu lögsagnarumdæmi. En það verður líka að gá að því, hvaðan tillögin eru tekin; þau eru ekki tekin upp úr steinunum, þau eru ekki síður tekin af fátæklingum en fátæklingar njóta þeirra. Og það eru fleiri fátæklingar, sem skilið eigi verðlaun fyrir dugnað og elju, en þeir einir, sem styrk fá úr þessum sjóði.