30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í C-deild Alþingistíðinda. (3813)

69. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Magnús Torfason):

Þegar verið er að ræða um ellistyrktarsjóðsgjaldið, verðum við að gæta þess, að fátæklingar eru undanþegnir gjaldinu; þetta er beinlínis tekið fram um þá, sem eiga fyrir ómögum að sjá og sveitarstjórnir leggja ekki útsvar á. Þetta gerir það að verkum, að skattur þessi verður aldrei illa ræmdur, heldur þvert á móti. Hins vegar greiðir enginn í þennan sjóð lengur en til 60 ára aldurs.

Gjöldin til þess sjóðs standa víðar fótum en til venjulegra tryggingarsjóða; í þá leggja þeir einir, sem eiga kost á að fá styrk úr þeim. En hjer er öðru máli að gegna, því að hjer leggur fjöldi manna til sjóðsins, sem aldrei fær neinn styrk úr honum.

Má vel vera, að úthlutuninni sje ábótavant sumstaðar í sveitum, en það mun smátt og smátt færast í lag, og eftir því, sem sjóðirnir stækka, fer úthlutunin betur úr hendi, er menn venjast við og gæta betur að, hverjir einkum og sjer í lagi hafi styrksins þörf. Aftur á móti er engin ástæða til að vera á móti því að hækka styrkinn, þótt einstöku sveitarfjelög haldi fast við sveitfestina; það má lagfæra á annan hátt, ef þörf gerist.

Það er ekki rjett, að sjóður þessi sje stofnaður til að taka byrðina af sveitarfjelögunum. Hann er fyrst og fremst stofnaður í mannúðarskyni, hjer eins og í öðrum löndum, til þess að tryggja ellimóðum áhyggjulausa æfidaga. En auðvitað ljettir hann undir með sveitarsjóðunum með tíð og tíma, en það getur auðvitað ekki verið nema gott.

Á þingi hefir komið fram till. um það, að veita sveitarskuldugum kosningarrjett, og það er vitanlega hróplegt ranglæti að svifta menn kosningarrjetti, þótt þeir neyðist til að þiggja af sveit. Þetta frv. um að hækka ellistyrktarsjóðsgjaldið er spor í áttina til þess að draga úr þessu ranglæti og styður að því, að ekki sje lagst á ellihrumt fólk, sem ekki hefir safnað auði þessa heims.

Jeg ætla hjer ekki að ræða lausamannaleyfisgjaldið, en í því efni fer margt aflaga og þarf að lagfærast, og mun jeg á sínum tíma verða fylgjandi umbótum á því fyrirkomulagi.

Jeg lýk máli mínu með því, að jeg vænti, að menn greiði atkv. með frv. til 3. umr.