30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í C-deild Alþingistíðinda. (3825)

97. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Flm. (Guðjón Guðlaugsson):

Ástæðan til þess, að jeg hefi gerst flm. þessa frv., er sú, að síðasta búnaðarþing kom fram með þá ósk, að þessu ákvæði yrði bætt inn í lögin, og tók jeg að mjer að bera þetta mál fram á háttv. Alþingi.

Eins og þeir vita, sem athugað hafa lögin, vantar ákvæði í þau um þetta atriði. Í lögunum frá 20. okt. 1905 er ákveðið, að hreppurinn hafi forgangsrjett, þegar um sölu þjóðjarða og kirkjujarða er að ræða, en það er eins og löggjafanum hafi gleymst, að hugsanlegt væri, að sjálfseignarbóndi vildi selja jörð sína. Í þessu frumvarpi er ætlast til, að hreppurinn hafi einnig forgangsrjett að þeim jörðum, þegar þær eru í sjálfsábúð. Frv. er því í fylsta samræmi við lögin.

Frv. þetta er mjög stutt, því jeg sá ekki neina ástæðu til að fara að umskrifa öll lögin frá 20. okt. 1905, vegna þessa eina atriðis; fer eingöngu fram á, að þessari málsgrein sje bætt aftan við 4. gr. gildandi laga. — Mjer finst þetta svo skýrt og einfalt mál, að hverjum hljóti að vera það skiljanlegt.

Það er hálfskrítið við þetta mál, að eftir að frv. þetta kom fram (þgskj. 171), hefir komið fram frv. í hv. Nd. (þgskj. 177), sem er uppsteypa úr öllum gömlu lögunum, eingöngu vegna þessa sama atriðis. Jeg ímynda mjer, að vakið hafi fyrir hv. flutnm., að betra væri að hafa lögin öll í einu lagi; en mjer finst það algerður óþarfi, þegar menn sakna að eins þessa eina ákvæðis. Í því frv. er farið fram á sömu breytingu og hjer, en orðalaginu er líka nokkuð breytt frá því, sem er í núgildandi lögum. Er mjer sagt, að til sje gamalt þgskj. með slíku frv., og hefir háttv. flutnm. ef til vill verið svo fornbýli, að eiga það í fórum sínum. Frv. þetta er til umr. í hv. Nd. í dag, og er óneitanlega undarlegt, að tvö frv. sama efnis skuli vera rædd í báðum deildum sama daginn.

Eigi að síður óska jeg, að mitt frv. nái fram að ganga; það getur aldrei farið ver en að það verði skorið niður í hv. Nd. Annars finst mjer málið svo einfalt, að jeg sje ekki ástæðu til að vísa því í nefnd. Legg jeg til, að því verði vísað til 2. umr. nefndarlaust.