14.07.1919
Efri deild: 8. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í C-deild Alþingistíðinda. (3835)

55. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Hnappdælahérað)

Flm. (Halldór Steinsson):

Eins og hv. deild er kunnugt, hefir þetta mál verið flutt þing eftir þing nú í 10 ár. Síðast bar jeg það fram á þinginu 1917. Komst það þá á góðan rekspöl, þar sem það var þá afgreitt með svo látandi rökstuddri dagskrá:

„Í því trausti, að stjórnin á næstu árum taki skipun læknishjeraða til gagngerðrar endurskoðunar, sjerstaklega með tilliti til þeirra óska, sem komið hafa fram á síðari þingum í því máli, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“ (Alþt. 1917 A. Þgskj. 339).

En nú hefir stjórnin algerlega vanrækt skyldu sína gagnvart óskum þingsins. Það munu vera skiftar skoðanir um, hvort yfirleitt beri að fjölga læknishjeruðum. Sumir líta fyrst og fremst á þann kostnaðarauka, sem það myndi baka ríkissjóði, en aðrir líta meira á líf og heilsu hjeraðsbúa, sem erfitt eða ómögulegt eiga með að nálgast lækni. Á undanfarandi þingum hefir fjárhagsstefnan jafnan sigrað, en mannúðarstefnan lotið í lægra haldi. En þörfin á því, að lögum um skipun læknishjeraða frá 1907 verði breytt, fer sífelt vaxandi, og því er ekki nema eðlilegt, að kröfumar um það verði sífelt háværari. Spurningin, sem alt veltur á í þessu máli, er ofur einföld. Borgar það sig fyrir ríkissjóð að verja 2000–3000 kr. til viðhalds og tryggingar á heilsu 600–1000 manna? Jeg trúi því ekki, að henni verði svarað nema á einn veg. — Á síðasta þingi var mál þetta hjá allsherjarnefnd, en þar sem hún, eins og vant er, er ofhlaðin störfum, legg jeg til, að því verði vísað til mentamálanefndar.