13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í C-deild Alþingistíðinda. (3838)

55. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Hnappdælahérað)

Frsm. (Halldór Steinsson):

Það er ekki skemtilegt að þurfa þing eftir þing að flytja rjettmætt mál, án þess að fram nái að ganga. En slíkt hefir nú verið hlutskifti um þetta mál á hverju þingi, síðan jeg varð þingm., og hafði það þó einnig verið flutt af fyrirrennara mínum. Frv. þetta hefir verið felt hvað eftir annað, ekki af því, að menn hafi ekki játað nauðsyn þess, heldur ýmist af sparnaði eða af því, að menn hafa ekki viljað hrófla við læknaskipunarlögunum frá 1907. En þetta mál er svo vaxið, að það getur ekki sofnað, þótt það verði felt þing eftir þing; það hlýtur að risa upp aftur, uns það nær fram að ganga

Sú stefna hefir komið fram, að nauðsyn bæri til að breyta læknaskipunarlögunum frá 1907, og á síðasta þingi var þetta frv. afgreitt til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá, sem hnje í þá átt, að stjórninni var falið að endurskoða lögin. Þessu hefir stjórnin ekki sint, svo að ætla má, að henni sje ekki treystandi til þess að koma skriði á málið.

Nú liggja fyrir 6 frv. um stofnun nýrra læknishjeraða; hefir eitt þeirra, Hólshjerað, fengið þá viðurkenningu, að það er þegar komið í gegnum háttv. Nd. og annað, Bakkahjerað, á leiðinni þaðan. Nú er spurning um það, hvort öll þessi hjeruð hafa rjett á sjer, eða hvort eitt stendur öðrum framar. Jeg lít nú svo á, að 4–5 þeirra eigi fullan rjett á sjer. Ef velja ætti úr 1–2, þá yrði úr vöndu að ráða, og yrðu náttúrlega skiftar skoðanir um það, hver velja bæri, sökum ókunnugleika þingmanna.

Jeg skal ekki lýsa, hver nauðsyn hjer liggur við um frv. það, sem nú liggur hjer fyrir, með því að jeg hefi gert það í greinargerðinni, og oft áður á þingi. Jeg vona, að hv. Ed. lofi því að ganga hjeðan í þetta sinn, svo að hv. Nd. gefist kostur á að athuga það, hvernig sem fer; ef það verður felt þar, þá hefir hv. Ed. gert sína skyldu, en ef það verður samþ., þá þarf Ed. engan kinnroða að bera fyrir að hafa samþ. það.