18.07.1919
Efri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í C-deild Alþingistíðinda. (3847)

61. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Kjalarneshérað)

Flm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg sje, að jeg hefi tekið fram allar aðalástæðurnar til frv. þessa í greinargerðinni, svo jeg vísa hv. þm. til hennar; frekari ástæður mun jeg, ef krafist verður, gefa við síðari umr. málsins. Þetta frv. hefir verið stöðugur gestur í þinginu síðastliðin ár, og hlýtur hverjum manni að vera ljóst, að slíkri þrábeiðni er eigi haldið áfram, nema af því, að brýn nauðsyn krefur. Allir kunnugir vita, að þeir, sem eiga heima í því hjeraði, sem hjer er farið fram á að stofna, og þá sjerstaklega í Kjós, eiga svo erfitt með að ná til læknis, að þeir mega teljast læknislausir; verða jafnvel heldur að leita læknis til Reykjavíkur en Hafnarfjarðar, þangað, sem þeim nú er ætlað að vitja læknis, en í Reykjavík er enginn læknir skyldur til að gegna læknisvitjun þaðan, svo að þótt hingað sje komið, getur orðið snúningasamt að fá nokkurn lækni.

Jeg vonast nú til, að ekki verði lengur daufheyrst við bæn þessari. Það hefir áður verið sýnd dálítil úrlausn með styrkveitingu, sem að vísu var skorin mjög við nögl, en var þó ljós viðurkenning um, að hjer væri úr brýnni þörf að bæta.

Jeg vil svo að sinni ekki fjölyrða meira um málið, en legg það á vald góðfýsi hv. þm. — Leyfi jeg mjer að biðja um, að málinú verði vísað til fjárhagsnefndar.