13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í C-deild Alþingistíðinda. (3849)

61. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Kjalarneshérað)

Frsm. (Halldór Steinsson):

Eins og greinargerðin ber með sjer, er frv. borið fram samkvæmt endurteknum óskum manna á Kjalarnesi, í Kjós og Mosfellssveit. Það er einnig ljóst, að löggjafarvaldið hefir viðurkent þörfina, því að 1899 var með lögum stofnað þarna sjerstakt læknishjerað, þótt afnumið væri með lögum 1907, og er mjer ekki vel ljóst, af hvaða ástæðum það var gert. En hjeraðsbúum getur ekki verið það hagkvæmt að eiga að sækja lækni til Hafnarfj., enda þar svo mikið að gera, að þar er sestur að nýr læknir í viðbót, svo að Hafnarfjarðarlækninum er ofætlun að sinna þessum hjeruðum. En það er einnig ofætlun hjeruðunum að sækja lækni til Hafnarfjarðar, enda sækja hjeraðsbúar lækni til Reykjavíkur, en hjer er enginn skyldur til þess að sinna, þótt sóttur sje, og þótt þeir geri það, þegar þeir mega skilja við sjúklinga sína hjer, þá liggur í hlutarins eðli, að þeir verða altaf dýrari á verkum sínum en hjeraðslæknar úti um landið. Það er því auðsætt, að beitt er ranglæti við þessi hjeruð, og að þau verða hart úti með því fyrirkomulagi, sem nú er. Þess vegna er nú farið fram á að koma á svipaðri skipan, sem var sett með lögum 1899. — Nefndin í heild sinni er á svipuðu máli sem um frv. næst á undan, að það verði látið ganga til hv. Nd.