01.08.1919
Efri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í C-deild Alþingistíðinda. (3859)

101. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sigurjón Friðjónsson):

Það mun vera orðið alment álit hjer á landi, að skattamálin sjeu í mikilli óreiðu, og yfirleitt munu hugir manna hneigjast í þá átt, að telja þörf á að minka tolla, en auka í staðinn beina skatta. Í rauninni verða allir skattar, beinir og óbeinir, að greiðast af tekjum, og munurinn er að eins sá, að tollar, eða óbeinir skattar, miðast við eyðslu, en beinir skattar við tekjurnar. í stöku tilfellum er hægt að færa boðlegar ástæður fyrir þessu. Þegar t. d. tveir einhleypir menn hafa 8þús. kr. í laun hvor, og annar sóar þeim til fulls, en hinn leggur meira eða minna af þeim í sparisjóð, í því skyni, að verja sparifjenu síðar til einhverra almenningsheilla, þá virðist mega rjettlæta það, að leggja hærri skatt á eyðslumanninn. En þegar annar af tveim mönnum, sem hafa jafnar tekjur, er einhleypur, en hinn hefir fjölskyldu, má ske 6–10 manna fjölskyldu, eða stærri, þá er það ljóst, að fjölskyldumaðurinn hlýtur að öllum jafnaði að hafa stærri útgjöld og þurfa þar af leiðandi að borga hærri óbeina skatta; og virðist það hvorki vera rjettlátt nje heppilegt.

Þar sem nú allir skattar falla á tekjurnar fyr eða síðar, ætti að vera til vegur til að miða þá jafnvel alla við tekjumar. Og að því leyti, sem beinir skattar annars eru viðurkendir og lagðir á, kemur vitanlega ekki til mála að leggja þá á í öfugu hlutfalli við tekjurnar. Þvert á móti er hægt að færa ýms rök að því, að rjett sje, að skattur á tekjum hækki ekki að eins að sama skapi og þær, heldur meira, einkum þegar tekjurnar fara að verða miklar, því að miklar tekjur munu oftast að meira eða minna leyti vera árangur af samstarfi margra manna, og geta að því leyti skoðast sem rjettmæt fjelagseign. Á þessari skoðun mun stighækkun tekjuskatts einkum vera bygð.

Í skattkerfi, sem aðallega er bygt upp með beinum sköttum, eru aðalskattstofnarnir í rauninni að eins tveir, árstekjur og eign eða áður sparað fje. Og þar sem sparifjeð er jafnan að eins lítill hluti tekna yfirleitt, hlýtur aðalskatturinn í slíku kerfi að falla á einhvern hátt á tekjurnar. Þetta eru í aðaldráttum aðalástæðurnar fyrir frv. því, sem hjer er til umr., og hugsað er sem nokkurskonar beinagrind í nýju skattakerfi.

Þegar um það er að ræða, hvernig frv. þetta horfir við núgildandi lögum um tekjuskatt og gróðaskatt og sjerstaklega það, hvort tekjur landssjóðs mundu hækka eða lækka við það, að frv. yrði að lögum í þeirri mynd, sem það nú er í, þá verður raunar ekkert um það sagt með fullri vissu. Það virðist vafalaust, að þeim fjölgaði mjög, sem tekjuskatt greiddu, en skatturinn mundi á hinn bóginn yfirleitt lækka á þeim, sem nú greiða tekjuskatt og gróðaskatt. Þetta kann sumum að virðast ósanngjarnt og óheppilegt í fljótu bragði. En á það er að líta, að viðbúið er, að gróðaskatturinn falli niður þá og þegar, og þá einkum hitt, að frv. þetta er miðað við, að óbeinu skattarnir verði lagðir niður smám saman og sumir þeirra fljótt, en tekjuskatturinn færður upp að sama skapi, og breytast þá hlutföllin í skattgreiðslu yfirleitt hinum efnaminni í hag, jafnóðum sem óbeinu skattarnir falla niður. Er því aðalatriðið, að gjaldstiginn sje sem sanngjarnast settur í upphafi, og þá þannig, að af skattinum megi vænta nægilegra tekna í ríkissjóð.

Með þessum formála vil jeg nú gera nokkra grein fyrir því, í fyrsta lagi, hvernig tekjuskatturinn fellur á samkvæmt frv. og í öðru lagi, hvernig samanburður þess við núverandi samskonar skatta tekur sig út. Um lágmark skattskyldra tekna er það að segja, að það færist vitanlega niður hjá einhleypum mönnum úr 1000 kr. Í 365 kr., en hjá fjölskyldumönnum færist það yfirleitt upp í orði kveðnu, misjafnlega mikið eftir tölu fjölskyldunnar; verður þannig t. d. 3650 kr. í stað 1000 kr. hjá 10 manna fjölskyldu. En þegar tekið er tillit til verðhækkunar peninga, mun óhætt að fullyrða, að meðallágmarkið lækki fremur en hækki. — Hjá 6 manna fjölskyldu verður lágmarkið þannig 6 X 365 = 2190 kr., í stað 1000 kr., og er sú hækkun vitanlega ekki í hlutfalli við almenna verðhækkun nauðsynja vorra. En ef þetta lágmark þykir of hátt sett, er auðvelt að færa það niður. Jeg hygg þá, að brýnustu lífsnauðsynjar ætti raunar alls ekki að skattleggja, og að rjettara væri að færa lágmarkið fremur upp en niður, og byrja þá heldur skattstigann með hærra hundraðsgjaldi.

Það liggur í augum uppi, að tekjuskatturinn nær betur til einhleyps fólks samkvæmt þessu frv. en samkvæmt gildandi lögum. Hitt er vandsjeðara, að hann nái betur til bænda yfirleitt og sjávarútvegsmanna, þeirra sem líkt stendur á fyrir, og vil jeg því færa nokkur rök fyrir því, að svo muni þó verða. Tek jeg þá t. d. heimili í sveit með 8 manns; þ. e. bóndi, húsfreyja, 4 börn uppkomin, 2 á ómagaaldri. — Bústofn: 3 kýr, 4 hross, 120 kindur.

Tekjur:

120 kg. ull, 4.00, 480 kr.

90 dilkar, 30.00, 2700 —

6000 lítrar mjólk, 0.35, .......... 2100 —

Samtals kr. 5280

Samkvæmt gildandi lögum dregst hjer frá:

a) kr. 1000.00

a) kaup 2 karlm., 500.00, ... — 1000.00

b) fæði 2 karlm., 2.25, ........ — 1642.50

c) kaup 2 stúlkna, 250.00, — 500.00

d) e) fæði 2 stúlkna, 1.50, . . — 1095.00

Samtals kr. 5237.50

Auk þess er landskuld, vextir af skuldum o. s. frv.

Samkvæmt frv. drtgst frá 365 X 8 = 2920 kr. Skattskylt yrði þá 2350, og kæmi skatturinn af því, eftir frv., kr. 10.13.

Aftur er auðsjeð, að skatturinn lækkar á embættismönnum og þeim, sem líkar tekjur hafa, enda virðist það verg að taka með annari hendi, sem gefið er með hinni, að skattleggja laun, sem greidd eru af opinberu fje. Samkvæmt núgildandi lögum mun embættismaður, sem hefir 5000 kr. skattskyldar tekjur, eiga að borga 100 kr. í tekjuskatt, en samkvæmt frv. kr. 37.50. Þetta stafar af því, að samkvæmt frv. byrjar skatturinn með lægri hundraðstölu, og hækkar líka seinna en gildandi lög ákveða. Ef þetta þykir óheppilegt, er hægt að færa það nær sama horfi, sem nú er, með því að færa upp hundraðsgjaldið og byrja t. d. með 1/4% eða 1%, í stað 1/4%, þótt sama stíganda gjaldsins sje haldið, og hækkar þá skatturinn vitanlega alla leið.

Annars mun mega færa sterk rök að því, að til þess að geta lifað sem mentuðum manni sæmir á þessum tíma á þessu landi, þ. e. veitt sjer allar líkamlegar og andlegar nauðsynjar, fylgst með í því, sem gerist í heiminum, þar á meðal í bókmentum o. s. frv., veiti ekki af 8–10 þús. kr. tekjum handa hverjum heimilisföður. Þá upphæð þyrfti því í rauninni að skattleggja sem allra minst. En þegar tekjur stíga yfir 10 þús. kr., fara þær að verða óþarflega háar fyrir þessar sjálfsögðustu nauðsynjar, og væri ef til vill rjettast að auka stiganda skattgjaldsins um það bil, t. d. úr 1/4 í 1/2%. Þó mundi leiða af því, að hámark skattstigans nálgaðist fullfljótt og kæmi á 55. þús. Raunar virðist svo, sem skattur á mjög miklum tekjum megi vel verða yfir 25%, og eru dæmi áður til þess hjá ófriðarþjóðunum, eins og menn vita. En á það er að líta, að auk ríkisgjalda falla á allar tekjur sveitar- og bæjargjöld, sem verður að ætla fyrir.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en óska þess, að því verði vísað til fjárhagsnefndar, í þeirri von, að meiri hl. þar veiti því fremur lið en ólið.