10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í C-deild Alþingistíðinda. (3870)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Jónsson):

Allsherjarnefnd hafði 4 samskonar læknamál til meðferðar, og skiftist nokkurn veginn eins í þeim öllum.

Meiri hl. nefndarinnar taldi rjettast, að Hólshjerað yrði gert að sjerstöku læknishjeraði, og að Hróarstunguhjeraði skyldi skift í tvö læknishjeruð. — Deildin hefir sýnt, að hún er sammála nefndinni um Hólshjerað. En þó að þörfin sje þar mikil, er hún ekki minni í Hróarstunguhjeraði.

Um hjerað þetta er það að segja, að það er mjög viðlent, og fannkoma þar mikil að vetrarlagi. Eftir hjeraðinu gengur fjallgarður, sem skiftir því í tvent. Fjallgarður þessi er altaf erfiður yfirferðar, en þó einkum um vetrartímann. Fyrir ofan fjallgarðinn er meginhluti hjeraðsins, en fyrir neðan hann er Borgarfjörður og víkurnar þar í grendinni. Jeg veit ekki, hversu margt manna er í hinu væntanlega læknishjeraði; en heyrt hefi jeg, að það sje um 600 manns. Jeg skal geta þess, að læknirinn situr í Borgarfirði. En með því er Fljótsdalshjeraði gert svo erfitt fyrir um læknishjálp, að heita má, að það sje læknislaust En þarna eru 5 hreppar: Hjaltastaðahreppur, Eiðahreppur, Hlíðarhreppur, Kirkjubæjarhreppur og Jökuldalshreppur. Íbúarnir eru yfir 1000, og mega heita læknislausir.

Því verður ekki neitað, að ástand þetta er alveg ótækt fyrir hjeraðsbúa. Þar að auki er á það að líta, að nú hefir verið komið á fót alþýðuskóla á Eiðum, og er illa farið, að hann skuli settur þar í læknisleysið.

Jeg sje, að minni hl. nefndarinnar vill bæta úr þessum vandkvæðum með því að flytja læknissetrið að Brekku við Lagarfljótsbrú. En þetta virðist ekki vera vel ráðið, og ber tvent til þess. Í fyrsta lagi, að nú hefir verið reist sjúkrahús að Brekku, og virðist ekki geta komið til mála, að það verði flutt þaðan. Í öðru lagi er þess að gæta, að hjeraðið er svo víðlent, að einum manni mundi ofvaxið að þjóna því, þó að læknissetrið væri flutt. Hjeraðið er sjálft mjög víðlent, og inn úr því ganga þrír miklir dalir, sem sje Skriðdalur, Fljótsdalur og Jökuldalur. Læknishjeraðið yrði því alt of stórt, þó að Borgarfjörður væri frá skilinn. Jeg er dálítið kunnugur á þessum slóðum og veit, að nauðsynin á nýju læknisembætti er þar mikil. Að vísu má segja, að Borgarfjörður og vikurnar í kring sje lítið læknishjerað úf af fyrir sig. En á það ber þó að líta, að þangað dregst töluvert af fólki um sjóróðratíma, og að hjeraðinu er svo í sveit komið, að það er ókleift að þjóna því frá hjeruðunum í kring, Seyðisfirði eða Fljótsdalshjeraði. Ástæðurnar eru þannig, að þarna verður að stofna nýtt læknisembætti.

Jeg man ekki eftir, að jeg þurfi að segja fleira um þetta mál í svipinn. En ef eitthvað skyldi á skorta, getur hinn upphaflegi flm. málsins (J. J.) gefið frekari upplýsingar, því að hann er kunnugri á þessum slóðum en jeg.

Mín skoðun er þetta, að það sje ósanngjarnt að neita þessu hjeraði um lækni, úr því að samþ. hefir verið að gera Hólshjerað að sjerstöku læknishjeraði. Þótt jeg þekki lítt til þar vestra, hygg jeg samt, að þörfin sje ekki brýnni þar en hjer. Jeg vænti þess vegna, að deildin samþ. frv.