10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í C-deild Alþingistíðinda. (3871)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Frsm. annars minni hl. (Pjetur Ottesen):

Mjer nægir að mestu að vísa til þess, sem jeg hefi sagt um þetta mál í nál. á þgskj. 444. Þar er bent á úrlausn þessa máls og haft fyrir augum álit landlæknis. Hann taldi þetta vera heppilega úrlausn. Frsm. meiri hl. (Þorl. J.) hefir nú mótmælt þessu að nokkru leyti, og skal jeg ekki þreyta kapp við hann, en eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi bestar fengið um þetta mál, hygg jeg, að vel geti komið til mála að ráða bót á þessu eins og jeg hefi bent á, og er það líka í samræmi við álit landlæknis á málinu, og virðist mjer, að taka megi og beri tillit til hans till. um þetta mál.

Hv. frsm. (Þorst. J.) mintist á Eiðaskólann í þessu sambandi; kvað ekki efnilegt, að hann væri settur þar læknislaus. En eftir þeim upplýsingum, sem hefi fengið, er ekki nema 5–6 tíma ferð þaðan til læknisins á Brekku, og engar torfærur á þeirri leið. Þetta er að vísu löng leið, en við slíkt verða þó margir að búa. Hitt er rjett, að það er ilt, að sami læknirinn þjóni bæði Borgarfirði og hjeraðinu hinum megin fjallsins. En úr því er bætt, ef svo er farið að, sem jeg hefi lagt til.

Að endingu vil jeg geta þess, að hv. frsm. (Þorl. J.) fór ekki rjett með það, hve margt fólk væri í þessu fyrirhugaða Borgarfjarðarhjeraði; þar eru ekki full 500 manns.