12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í C-deild Alþingistíðinda. (3876)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Björn R. Stefánsson:

Maður finnur oft til þess, að ekki er dæmt af þekkingu um sum þau mál, sem fram koma hjer í hv. deild, og svo er um þetta mál. Því ef nokkursstaðar er þörf á að auka við hjeraðslækni, þá er það á þessum slóðum, sem hjer er um að ræða. Þetta hjerað snertir ekki mitt kjördæmi nema að sáralitlu leyti, svo það er ekki því til að dreifa, að jeg sje þess vegna með málinu. En jeg er hundkunnugur á þessu svæði, og þó jeg ekki geti borið brigður á, að einhver rök kunni að liggja til þess að bæta við nýju læknishjeraði í Hólshreppi og víðar, þá er ekkert hjerað á landinu, sem fremur á heimting á lækni en þetta hjerað. Því er svo varið um marga Úthjeraðsmenn, að þeir mundu eiga hægra með að leita fjögra annara lækna en síns eigin. Og þar sem búið er að samþ. hjer í hv. deild að bæta við nýju læknishjeraði í Bolungarvík, þá veit jeg ekki, hvernig hv. þm. ætla að fara að verja það, ef þeir fella nú þetta frv.

Hjeraðið er fyrst og fremst afarvíðáttumikið, en auk víðáttunnar er það erfiðara umferðar en flest önnur. Snjóþyngsli eru þar afskapleg á vetrum og oft svo, að ómögulegt er að komast með hesla frá Borgarfirði og upp á Fljótsdalshjerað. Á Úthjeraði eru 4–500 manns, og eru þeir alveg útilokaðir frá að ná í lækni, þegar ekki er hægt að sækja til Borgarfjarðar. En mikinn part er umferðin svo milli Borgarfjarðar og Hjeraðs, að það er ekki hægt, eins og jeg hefi þegar tekið fram.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) gat um, að það væri alveg sjerstaklega ástatt um Hólshrepp, að þar væri oft ekki farandi eftir lækni, hvorki á sjó eða landi. En þar mun þó vera miklu oftar hægt að ná í lækni en þarna. Jeg vil því eindregið mæla með því, að frv. verði samþykt.