23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í C-deild Alþingistíðinda. (3888)

77. mál, rannsókn símleiða Árnessýslu

Jörundur Brynjólfsson:

Af því, að þessi till. á þgskj. 119 er komin hjer fram til samþ., þá ætla jeg að láta henni fylgja nokkur orð. Að vísu hefir hv. aðalflm. (S. S.) gefið nokkrar nauðsynl. upplýsingar, en jeg er kunnugur þeim staðháttum, sem hjer er um að ræða, og ætla þess vegna að bæta nokkrum upplýsingum við það, er hv. flm. (S. S.) sagði.

Hv. 2 þm. S.-M. (B. St.) drap á, að rjett mundi vera að leita álits landssímastjórans í þessu máli. Því hefi jeg ekkert á móti, en jeg tel hins vegar óvíst, að hann sje nægilega kunnugur þarna austur frá til að dæma um, hver nauðsyn er á að fá símalinu upp í Biskupstungur. Það nægir í því sambandi að benda á, hve lengi þessi lína hefir dregist, eins og hennar er þó brýn þörf. Jeg þekki varla svæði, sem er verra yfirferðar og erfiðara til allra samgangna og viðskifta en þetta. Jeg þykist tala hjer af nokkrum kunnugleik, því jeg á þarna heima. Þar eru eintómar vegleysur yfir að fara; ekki einn vegspotti, ár og vötn, og því nær hvergi brúað, en dagleið er til næstu símastöðvar. Þessi stöð er 3. flokks stöð, og kemur þess vegna að litlum notum fyrir þá, sem langt búa í burtu.

Jeg vil drepa á það, þeim mönnum til íhugunar, sem þessu máli verður skotið til, hvort ekki bæri að leggja símann alla leið upp að Geysi. Mjer virðist full ástæða til að athuga þetta. Geysir er staður, sem mjög er sóttur af ferðamönnum, og hygg jeg að eins Þingvelli fjölsóttari. Þeir, er fara til Gullfoss, fara flestir um hjá Geysi. — Það getur þess vegna verið spursmál, hvort ekki yrði sparnaður að þessu, hvort síminn þar gæfi ekki meira af sjer en kostnaðinum næmi. — Jeg vil skjóta því til hv. flm. (S. S.) að beita sjer fyrir því, að þessi leið verði rannsökuð. Það yrði til mikilla þæginda að fá þangað síma, og mjög líklegt, að það yrði einnig til tekjuauka, vegna ferðamannastraumsins. Auk þess er Geysir frægur staður, og er ekki vansalaust að sýna honum ekki meiri sóma en gert hefir verið. Við erum vanir að vera hreyknir yfir sögustöðum og þeim stöðum, sem eru frægir fyrir fegurð, en það verður venjulega minna úr ræktarseminni þegar til verklegra framkvæmda kemur.