29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í C-deild Alþingistíðinda. (3897)

96. mál, rannsókn símaleiða á Langanesi

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Jeg flyt þessa till. eftir ósk tveggja þingmálafunda, er háðir voru nyrðra í sumar. Var annar háður á Sauðanesi, en hinn að Skálum á Langanesi. Báðir töldu það mjög æskilegt, að hið hv. Alþingi ljeti rannsaka símleiðina milli Þórshafnar og Skála, og að landssjóður legði fje fram til rannsóknarinnar og síðar meir til þess að leggja símalínu milli þessara staða.

Þar sem mönnum hjer mun ekki vera kunnugt, hvernig hagar til þar norður á landshorni, vil jeg lýsa því nokkuð. Á síðari árum hefir risið upp á Skálum allmikið fiskiver. Eru þaðan gerðir út milli 30 og 40 bátar, og sækja þangað síðari hluta sumars um 200 vermenn. Þarna er mjög fiskisælt, og má því búast við, að verið stækki óðum. Til þess að gera mönnum skiljanlegt, að afli er þarna mikill, vil jeg geta þess, að síðastliðið sumar hafa þaðan verið flutt frá 1300–1600 skp. af þurrum fiski. Auk þessa kemur þarna fjöldi útlendra og innlendra skipa, og reka útlendingarnir, sem mest eru Færeyingar, allmikla verslun við landsmenn. Kaupa þeir ís og síld, en láta aftur landsmenn hafa lifur. Er það ekki lítill hagnaður, sem bæði útgerðarfjelög og einstaklingar hafa haft af þessum viðskiftum. En þar sem svona mikil útgerð er á þessum stað, er það augljóst, að mikill bagi er að því, að geta ekki stöðugt náð í síma. En nú sem stendur er hann hvergi nær en á Þórshöfn, og milli þessara tveggja staða eru 35 km„ og vegur hinn torsóttasti mest af leiðinni.

En það er ekki fiskiverið eitt, sem mikinn hag hefði af þessum síma, heldur eru það úgerðarmenn um alla Austfjörðu og jafnvel víðar. Vantar þá oft síld, er fram á sumarið kemur; hafa þeir símasamband við Eyjafjörð og Siglufjörð, og verða því að ná síldinni þaðan, en það er bæði löng leið og erfið, enda kemur það iðulega fyrir, að beitan kemur of seint og er orðin forskemd eftir svo langan flutning.

Nú hagar svo til, að á Skálum er oft mikil síldargengd, er kemur fram í ágústmánuð; mundu allir Austfirðir sækja þangað síldina, ef þeir hefðu símasamband við verið, og gætu þannig vitað, er síldin væri komin. Væri það ekki lítið hagræði fyrir útgerðarmenn um alla Austfjörðu, þar sem vegalengdin er svo stórum minni en til Eyjafjarðar eða Siglufjarðar. Fyrir útgerðina á Skálum væri það mikill hagur að hafa einatt markað fyrir nýja síld.

Það er og eitt, er mikið mælir með því, að Skálar komist inn í símasambandið, hve sá staður liggur vel við til þess að athuga síldargöngur. Nú er það kunnugt, að oft er það miklum vandkvæðum bundið fyrir síldveiðaskip að hitta síldargöngur, og fer oft mikill tími til þess eins, að leita þeirra um sjóinn. Ef sími væri á Skálum, þyrftu útgerðarmenn á Eyjaf. og Sigluf. ekki annað en að síma þangað, og gætu þeir þá komist að fullri vissu um, hvort nokkuð þýddi að leita göngunnar þar eða ekki. Gæti því þeta orðið til feiknamikils hagsmunar fyrir allan síldarútveg á Norðurlandi, bæði Norðlendinga sjálfra og annara, sem þar stunda síldveiðar.

Enn fremur vil jeg benda á eitt atriði, sem gerir það mjög svo æskilegt, að sími komi að Skálum. Fyrir skipaferðir allar milli Norðurlands og Austfjarða er mikið undir, að hægt sje að vita með vissu, hvort ís liggi við Langanes eða ekki, en þar er hættast við ís með öllu landinu, næst Horni. Frá Þórshöfn er aftur örðugt að segja nokkuð um ísinn með vissu, því að hún liggur inni við fjarðarbotn, en ilt er að sjá til hafsins þegar ís er, því að þá eru oft þokur og dimmvirði.

Þá er það og stórkostur, að ekki er mikill kostnaður við að koma staurunum. Má flytja þá sjóveg að Þórshöfn og þaðan aftur sjóveg á fjóra lendingarstæði; er þá lítill kostnaður við að flytja þá á landi þann spöl, sem eftir er. —

Þetta mál kom fyrir fiskiþingið í vor, og var þar talið sjálfsagt, að síminn fengist. Sömuleiðis hefir verið talað við landssímastjórann um málið, og taldi hann þetta hið mesta nauðsynjamál.

Fyrir þinginu liggja nú ýmsar beiðnir um nýjar símalinur. Vil jeg gera það að till. minni, að þessu máli, sem öðrum líkum, verði vísað til samgöngumálanefndar og umr. frestað.