15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í C-deild Alþingistíðinda. (3901)

124. mál, fóðurbætiskaup

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Tillaga þessi er á þgskj. 346, og fer fram á það, að landsstjórnin annist kaup á fóðurbæti handa almenningi, einkum handa þeim hjeruðum, er harðast verða úti vegna óhagstæðrar veðráttu um heyskapartímann. Till. er fram komin vegna hinnar óhagstæðu veðráttu, sem nú er víða um land. Sjerstaklega hefir kveðið mikið að rosanum nú um skeið um Suðurland, alt austan frá Mýrdalssandi, og um Vesturland, vestur að Ísafjarðardjúpi. Kveður svo ramt að þessu, að víðast liggja töður enn á túnum óhirtar og stórskemdar. Útlitið er því hið óálitlegasta, hvað nýting á heyjum snertir, og fyrirsjáanlegt, að mikið af heyfeng manna verður stórhrakið.

Þegar svo fer, er venjulega úrræðið að reyna að bæta hið ljelega fóður með einhverskonar fóðurbæti; því fer till. fram á það, að stjórninni sje veitt heimild til að skerast nú í leikinn, og tryggja bændum fóðurbæti í þeim hjeruðum, sem harðast verða úti vegna óþurkanna. Fyrst og fremst er farið fram á þetta af því, að hugsanlegt er, að stjórnin geti sætt betri kaupum á fóðurbæti en einstaklingar, þar sem hún mun gera kaup sín í stórum stíl. Enn fremur er meiri trygging, að varan verði góð og ósvikin, ef stjórnin gengst fyrir kaupunum.

Í till. er nefnt, að kaupa skuli síld, og svo annan fóðurbæti, og er þar einkum átt við síldarmjöl. Þó er stjórninni að sjálfsögðu sett það í sjálfsvald, hvern fóðurbæti hún kaupi, þar sem fulltreysta má, að hún hagi sjer skynsamlega við kaupin og geri það besta í þessu efni. Það má búast við, að fóðursíld verði dýr í ár, og er lítt hægt við það að ráða. Sama er að segja um síldarmjöl. En af því, að gera má ráð fyrir, að framleiðsla af því verði mjög takmörkuð að þessu sinni, en það hins vegar eftirsótt vara, og það verið flutt mjög út að undanförnu, þá gæti komið til greina, að stjórnin bannaði útflutning á því. Að minsta kosti geri jeg ráð fyrir, að stjórnin grenslist eftir því, hve mikið muni verða til af síldarmjöli í ár, og hagi sjer svo þar eftir.

Síldarmjölsverksmiðjurnar á Siglufirði og í Krossanesi hafa hingað til flutt út mestalt síldarmjöl sitt, því að erlendis hefir verið mikil eftirspurn eftir því.

Í till. er gert ráð fyrir, að stjórninni verði heimilað nægilegt fje til að kaupa fóðurbæti fyrir, og þarf að bera þann lið till. undir fjárveitinganefnd. Að öðru leyti býst jeg við, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar. En nauðsynlegt er, að málið gangi fljótt gegnum þingið, svo að stjórnin geti sem fyrst hafist handa og gert ráðstafanir til fóðurbætiskaupanna.