11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í C-deild Alþingistíðinda. (3907)

147. mál, lán til Flóaáveitunnar

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Tillaga þessi, um útvegun á láni til Flóaáveitunnar, er flutt eftir ósk hlutaðeigandi manna þar eystra.

Í febrúar í vetur var haldinn fundur í Flóaáveitufjelaginu og samþ. þar, að taka skyldi lán til framkvæmda áveituverkinu, alt að 11/2 miljón króna. Var stjórn áveitufjelagsins falið að reyna að útvega þetta lán, með tilstyrk landsstjórnarnar og Landsbankans.

Áveitufjelagsstjórnin mun eitthvað hafa þreifað fyrir sjer um útvegun lánsins, og mælst til þess við landsstjórnina að hún væri sjer hjálpleg. — Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) mun hafa leitað eitthvað fyrir sjer um lánið í utanför sinni í vor, en árangurslaust. Honum þótti það fje of dýrt, er hann átti kost á í þessu skyni.

En við svo búið má eigi standa. Ábúendurnir á áveitusvæðinu telja sjer það tjón mikið, hvað lengi dregst að koma þessu verki í framkvæmd.

Fyrir því er till. flutt. Og það er von okkar flm., að stjórnin reyni alt, hvað hún getur, til að útvega umrætt lán.

Þess skal getið, að bankastjóri Landsbankans, L. Kaaber, er nú nýfarinn til útlanda í bankaerindum. Landsbankastjórnin hefir áhuga á þessu máli, framkvæmd Flóaáveitunnar. Jeg átti tal um þetta við L. Kaaber, áður en hann fór, og taldi hann sjer ljúft og skylt að reyna, með tilstyrk landsstjórnarinnar, að greiða fyrir útvegun láns til þessa fyrirtækis, ef auðið væri.

Vona jeg því, að landsstjórn og Landsbankastjórn takist það, að útvega þetta lán í vetur, eða svo fljótt, að unt verði að hefja þetta áveituverk strax á næsta vori.

Það má ekki dragast lengur.