05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í C-deild Alþingistíðinda. (3920)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Gísli Sveinsson:

Af því, að jeg er meðflm. þessarar fyrirspurnar, þykir mjer hlýða að gera nokkra grein fyrir, hví jeg flyt fyrirspurnina með fulltrúum Árnessýslu, þótt hún komi mjer ekki beinlínis við, af því leyti, sem hún snertir ekki beint mitt kjördæmi.

Það er þá í fyrsta lagi af því, að jeg tel góð og gild rök fyrir mig, og aðra hv. þingdm., að spyrjast fyrir um mál þetta, því að þannig er því háttað, að það snertir í raun rjettri miklu fleiri en þá, sem nánast standa að því, og því full ástæða fyrir fleiri en þingm. kjördæmisins að láta það til sín taka. Jeg sje ekki heldur betur en að stjórnin viðurkenni, að ástæða sje til, að fyrirspurn þessi komi fram, eða svo skildist mjer á ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Reyndar varpaði hann því fram í síðari hluta ræðu sinnar, að aldrei hefði verið ástæða fyrir Árnesinga að kvarta undan ráðstöfun sýslumannsembættisins þar; hvorki yfir mönnum þeim, sem settir hefðu verið til að þjóna sýslunni, nje yfir því ástandi, sem skapast hefði af því, hve margir hafa þjónað sýslunni undanfarin tvö ár; en að sjálfsögðu mun flestum öðrum en hæstv. forsætisráðherra sjálfum (J. M.) finnast hann taka þar helst til djúpt í árinni.

Menn muna, að það hefir ekki sjaldan komið til umræðu, bæði innan þings og utan, hvaða reglu ákjósanlegast sje að fylgt væri við embættaveitingar. Sjerstaklega hafa þessar spurningar gerst háværar, þegar menn hafa hnotið um embættaveitingar, sem kynlega hafa komið fyrir. Og það man jeg, að þegar Árnessýsla var veitt síðast, var spurt, hvort við þá veitingu hefði verið fylgt heppilegustu veitingarreglum, og margir efuðust um, að svo hefði verið; hvað sem annars liðið kann að hafa þeim strangasta embættisveitingaskilningi, sem stjórninni þykir líklega handhægast og vandaminst að fara eftir. Við veiting Árnessýslu mun stjórnin eingöngu hafa farið eftir því, að Guðm. Eggerz var elstur embættismaður þeirra, er um sýsluna sóttu. Sú regla, sem farið var eftir við veitingu þessa embættis, mun að vísu vera allgömul, en hún er alls ekki einhlít, ef vel á að fara; það þarf líka að taka tillit til undanfarinnar embættisfærslu manna, hæfileika þeirra og annara atvika. Jeg játa það, að við þetta eykst vandi og ábyrgð veitingarvaldsins; hitt er mun fyrirhafnarminna, að telja saman embættisárin, og þægilegra fyrir stjórn, sem taka vill sem minsta ábyrgð sjer á herðar að forminu til.

Jeg ætla mjer ekki að fara að dæma um hæfileika manns þess, sem hjer ræðir um; en það hafði komið í ljós, að hann hafði ekki treyst sjer til að þjóna embætti því, sem hann hafði haft á hendi áður en honum var veitt Árnessýsla, sökum heilsubrests og annars fleira; enda hafði hann sagt sig frá því.

Það má segja, að Suður-Múlasýsla sje amameira embætti en Árnessýsla, og það má reyna að rjettlæta veitinguna með því. Um það skal jeg ekki þrátta, en lofa öðrum að dæma um það. Hitt er víst, að stjórnin gekk fram hjá öðrum tveimur heilsuhraustum og vel hæfum umsækjendum, og þarf ekki að nefna nema annan, Magnús Jónsson, cand. jur & polit.; hann er borinn og barnfæddur í Árnessýslu, hafði embættisreynslu frá Danmörku og góðan orðstír, og enginn mun hafa efast um, að hann væri fullvaxinn því, að þjóna Árnessýslu, svo að vel færi.

Jeg efast ekki um, að Árnessýslubúar hafi aldrei búist við, að Guðmundur Eggerz mundi verða sjer til mikillar uppbyggingar, og eigi munu þeir hafa verið ginkeyptir fyrir að fá hann, þótt eigi væri af öðru en því, að hann hefði rjett nýlega sagt af sjer embætti, í nokkru flaustri, en líklega af því hann treysti sjer ekki til að þjóna því sökum vanheilsu.

Árnessýsla er eitt af þeim hjeruðum, sem líklegt er að eigi einna glæsilegasta framtíð fyrir höndum að undanteknum sumum sjávarplássum, sem vera má að stórum blómgist. Hjerað þetta hefir það til að bera frá hendi náttúrunnar, að fögur framtíð sýnist liggja þar opin fyrir. En hún kemur ekki sjálfkrafa. Það þarf framsýni og ötula forgöngu til að skapa hana. Það lá því í augum uppi, að í þessari sýslu var þörf á heilsuhraustum og ötulum sýslumanni; ekki eingöngu til að inna af hendi embættisstörf þau, sem landsstjórnin er fyrst og fremst vön að heimta af sýslumönnum sínum, svo sem að þeir skrifi brjef, dæmi dóma, skifti búum, úrskurði sveitarmál og annist öll almenn skrifstofustörf. Það eru önnur mál, sem stórum varða heill almennings, er á sýslumönnum hvílir að vera forgöngumenn fyrir. Þeir eru oddvitar sýslunefndanna og eiga því í broddi þeirra að beita sjer fyrir framfaramálum sýslunnar, og það skiftir miklu fyrir hjeruðin nú á dögum, að þessi hlið embættisrekstrarins sje rækt eigi siður en hin, og þó mun fáar eða engar sýslur varða það jafnmikils eins og Árnessýslu, einmitt þar, sem lagt hefir verið út í stórkostleg framfarafyrirtæki, og önnur enn stærri standa þar fyrir dyrum. Stjórninni hefði varla orðið reiknuð það stórsynd, þótt hún hefði haft þetta bak við eyrað við veiting sýslumannsembættisins í Árnessýslu.

Síðan Guðmundi Eggerz var veitt Árnessýsla, hefir hann lítt getað sýnt, hvort hann væri því vaxinn að vera höfuðsmaður í hjeraðsmálum sýslu sinnar. Landsstjórnin greip þar í taumana og sviftu hann að mestu leyti tækifæri til að sýna sig. Án þess, að nokkur gæfi henni tilefni til, fjekk hún honum annað starf, sem eitt út af fyrir sig var ærið nóg fyrir hann; hún skipaði hann í hina margumræddu fossanefnd. Það hefir áður verið um það talað hjer á þingi, að það hafi verið misráðið og lítt forsvaranlegt að taka hann úr starffreku og vandasömu embætti og skipa hann í fossanefndina, sem fáir munu kannast við að hann hafi átt nokkurt erindi í. Sú ástæða var að vísu borin fram fyrir þessari skipun, að þurft hefði lögfræðing í nefndina. En hún hefir sýnt sig að vera hjegómi einn, því að fossanefndin hefir talið sjer nauðsynlegt að fá sjer til aðstoðar sjerstakan lögfræðing, til að rannsaka þau atriði málsins, sem lögfræðislega sjerþekkingu þurfti til. Það var líka óforsvaranlegt að skipa mann þennan í nefndina af þeirri ástæðu, að það var vitanlegt, að hann var heilsuveill, og því ekki við að búast, að hann gæti unnið fulla vinnu í nefndinni.

Jeg þarf ekki að geta þess, hverja grunsemd það vakti, er maður þessi var skipaður í fossanefndina. Jeg ætla ekki að draga neina fjöður yfir það, enda hefi jeg getið þess áður, að með sjálfum mjer var jeg í engum vafa um það, og svo mun hafa verið um marga fleiri, að skyldleiki við einn hluta landsstjórnarinnar hafi átt þátt í þessari skipun. (S. E.: Þarna er þá hv. þm. (G. Sv.) kominn að kjarnanum). O–nei, það var bara aukasetning og má gjarnan setja hana innan sviga, ef hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) er nokkur hugfróun að því. Við skulum þá setja sem svo, að hæstv. stjórn hafi verið svo sannfærð um, að sýslumaður Árnesinga væri svo vel fallinn til að taka sæti í fossanefndinni, að hún hafi fyrir því skipað hann í hana, þrátt fyrir allan stjórnarskyldleik, og þrátt fyrir það, þótt hann mætti eigi vel missast úr sýslunni, væri hann á annað borð fær um að gegna henni. En þessar vonir stjórnarinnar hafa því miður ekki ræst.

Slíkar grunsemdir sem þessar geta jafnan komið fram, þegar mönnum finst stjórnin hlaða undir gæðinga sína, og þær haldast við, meðan ekki koma skýrar ástæður fram fyrir hinu gagnstæða.

Háttv. frsm. (E. A.) skýrði í framsöguræðu sinni frá því, hve margir hefðu þjónað Árnessýslu á þeim 2 árum, meðan sýslumaðurinn þar hefir setið í fossanefndinni, og taldist honum til, að þeir mundu þegar orðnir 13–14, og stundum hefir fleiri en einn í senn haft embættið á hendi. Flestir aðrir en má ske landsstjórnin munu geta skilið, að þótt embættinu hefði verið vel þjónað, en á því er vafi, hvort svo hafi jafnan verið, flestir munu geta skilið, segi jeg, að full ástæða sje til, að kvartað sje yfir öllum þessum glundroða. í fyrsta lagi er ástæða til að kvarta yfir því, að stjórnin skyldi ekki gefa Guðmundi Eggerz kost á að reyna sig í embættinu, fyrst hún á annað borð skipaði hann í það, og lofa honum að sýna, hvort hann dygði í því; og í öðru lagi er ástæða til að kvarta yfir því, að stjórnin skyldi ekki, þegar hún tók það í mál að skipa hann í fossanefndina, gera það að beinu skilyrði, að hann fengi í sinn stað ábyggilegan mann til að þjóna sýslumannsembættinu allan tímann, sem hann sæti í nefndinni. Það liggur í hlutarins eðli, að þegar á annan tug manna hafa þjónað sýslumannsembættinu á ekki fullum tveim árum, þá hlýtur eitthvað að hafa farið þar í vanrækslu, enda hafa háværar og rökstuddar raddir heyrst um, að svo hafi verið. Kvartanir hafa komið fram um, að sum embættisverk hafi verið vanrækt, það hefir verið kvartað yfir, að sjálfur hinn setti sýslumaður hafi stundum ekki haft aðgang að embættisskjölum sýslunnar, þau hafi verið lokuð niður fyrir honum, einnig að skrifstofan hafi verið á öðrum stað en sýslumaðurinn o. s. frv. Það hefir kveðið svo ramt að, að ekki hefir verið hægt að fá jafneinföld mál afgreidd sem það, að fá veðbókarvottorð útskrifuð úr bókum sýslunnar. Það mætti þó ekki minna vera en að á skamri stund væri hægt að fá vitneskju um það, hvort veðbönd hvíla á jörð eða húsi eða ekki, og það má geta nærri, hvernig það kemur sjer í sýslu, þar sem viðskiftalíf er þó jafnmargbreytt og í Ámessýslu, að verða að bíða von úr viti eftir slíkum vottorðum.

Nei, það er ekki einungis hvað sjálf embættisverkin snertir, að þetta ástand, eða öllu heldur óstand, hefir reynst harla óheppilegt. Í sýslunni hafa ýms stórmál verið uppi, og sum þeirra allmikil sundrungarmál, en engin föst stjórn hefir verið á þeim. Hinir settu sýslumenn sumir hafa hlotið að vera allókunnugir málunum og einn farið í þessa áttina, annar í hina, og það má segja, að enginn hafi verið til að stjórna og miðla málum, ef með hefir þurft, því að vantað hefir skýra þekkingu á málunum, og eins og eðlilegt er, fullan áhuga á að gerkynna sjer þau og vinna að þeim, þegar altaf vofði yfir höfði að verða að yfirgefa alt saman innan skamms, og oft þegar minst vonum varði. Þegar þetta ástand er borið saman við ástandið í sýslunni tvö næstu árin áður en Guðmundur Eggerz tók við henni, eins og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) virtist vilja gera, þá er talsverður munur á því, og varla annað sambærilegt en að á báðum þeim tímabilum hafa settir sýslumenn þjónað sýslunni um tvö ár, og enginn fastskipaður embættismaður stjórnað henni. En sá var hinn mikli munur, að á fyrra tveggja ára tímabilinu var einn og hinn sami maður allan tímann þar sýslumaður, og reyndist vel til starfans hæfur, enda var hann borinn og barnfæddur þar í sýslu og öllu nákunnugur, og þótt ungur væri, má fullyrða, að hann hafi reynst fult eins vel eins og ef einhver ókunnugur maður eldri hefði verið sendur þangað. Þessi ráðstöfun má því teljast heppileg, eins og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) líka játaði, og með öllu ósambærileg við hina síðari eða öllu heldur hinar síðari ráðstafanir á embættinu. Ofan á alt annað bætast svo ýms viðskifti embættismanns þess, sem hjer ræðir um, sem miður geðfelt er að þurfa að minnast á; en hjá því verður þó ekki komist. Þannig mæltist Guðm. Eggerz til þess, að ákveðinn maður gegndi sýslunni fyrir sína hönd, en landsstjórnin fjellst ekki á það; og eftir skýrslu manns þess, sem sýslunni átti að gegna, hefir stjórnin ekki fengist til þess að gefa upp nokkur rök fyrir neitun sinni, hvorki honum nje Guðmundi Eggerz.

Eftir ræðu hæstv. forsætisráðh. (J. M.) á neitunin að hafa verið bygð á því, að maður þessi hafi verið riðinn við óeirðamál í sýslunni, og því hafi þótt óráðlegt að senda hann sem yfirvald þangað. Jeg skal ekki dæma um það, á hve miklum rökum þessi ástæða kann að vera bygð, en maðurinn segist ekki einu sinni hafa fengið þessa skýringu En jeg spyr: Hví gefur stjórnin ekki þegar í stað hlutaðeigendum fullar skýringar um það, á hverju hún byggi neitun sína? Og hví kemur hún ekki hreinlega til dyranna Menn eiga heimting á því, þegar svo stendur á sem hjer, og landsstjórninni er það skylt að koma hreint til dyra og vera ekki með neinar vöflur eða vífilengjur, heldur koma með hæfilegar og ótvíræðar skýringar; og þótt slíkt hafi ekki jafnan alþjóðlega þýðingu, þá er það að jafnaði þýðingarmikið fyrir málsaðilja sjálfa að fá að vita hið sanna. Svo framarlega, sem skýrsla hlutaðeigandi manns er sönn um það, að hann hafi engin fullnægjandi svör getað fengið hjá landsstjórninni nje starfsmönnum hennar í stjórnarráðinu, heldur hver vísað frá sjer, þá er það mjög óviðfeldið og lítil afsökun fyrir hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), að hann kvaðst eigi kunnugur málavöxtum, þegar málið var borið undir hann í fjarveru forsætisráðh., því að þeir væru svo „juridiskir“. Það lá ofurbeint við, að hann reyndi að kynna sjer þá. Jeg spyr enn: Sæmir það einni landsstjórn að fara þannig undan í flæmingi, í stað þess að gefa góð og gild svör?

Eitt kemur enn fyrir í þessu máli, sem er undarlegt. Að lokum var maður sá, sem um hefir verið rætt, þrátt fyrir alt, löggiltur af stjórninni til að vera fulltrúi Guðmundar Eggerz í Árnessýslu; en sú löggilding var því nær jafnharðan kölluð aftur. Það er full ástæða til að spyrja að, hvernig á þessu stóð; því að ef ekki væri hægt að taka manninn, eftir beiðni Guðmundar Eggerz, gildan sem settan sýslumann í Árnessýslu, af ástæðum þeim, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) tilgreindi, þá sýnist það liggja í augum uppi, að stjórnarráðið hefði ekki heldur átt að geta tekið hann gildan sem fulltrúa sýslum. þar í sýslu. (Atvinnumálaráðh.: Því skal svarað). Jeg efast ekki um, að hv. atvinnumálaráðh. (S. J.) telji sjer skylt að svara til þessa, þar sem hann fjallaði um málið sem dómsmálaráðherra.

Að öðru leyti býst jeg við, að hvorki hæstv. stjórn nje aðrir gangi þess nú duldir, að full ástæða var til þess, að fyrirspurn þessi kæmi fram, og telji hana á fullum rökum bygða, bæði frá sjónarmiði Árnesinga og allra annara, sem áhuga hafa á, að þjóðmál og landsstjórn sje í sæmilegu lagi.