05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í C-deild Alþingistíðinda. (3923)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætlaði að bíða eftir hv. fyrirspyrjanda (E. A.). En þar sem hann hefir ekki enn tekið til máls, býst jeg við, að það, sem jeg segi hjer eftir, verði tvískift. Jeg verð sem sje að svara hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) nokkrum orðum.

Jeg talaði ekkert um það, hvort ástæða hafi verið til þessarar fyrirspurnar eða ekki, og sýnist ekki ástæða til að deila um það. Ekki get jeg heldur neitt að því fundið, þótt hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafi ritað undir þessa fyrirspurn, þótt þess hefði auðvitað ekki þurft. En jeg hafði ekki gáð að því í fyrstu, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var á fyrirspurninni. En einn hv. þm. benti mjer á þetta og gat þess um leið, að það væri víst meiningin, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefði framsöguna, en hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) skammaði stjórnina. (E. A.: Hver sagði það?) Óþarft að nefna þm. Jeg get ekki sagt orð hans nákvæmlega, en á þessa leið sagði hann mjer söguna.

En hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) blandaði hjer inn í umr. máli, sem er dálítið óskylt, en það er spurningin um þær reglur, sem stjórnin fylgir við embættaveitingar. Jeg fyrir mitt leyti hefi fylgt þeirri reglu, að láta embættisaldur ráða, þar sem um embættismenn er að ræða, og kandidataaldur, með dálitlu tilliti til prófseinkunnar, þar, sem um þá menn er að ræða, sem ekki hafa verið í embætti. Þeirri reglu veit jeg ekki betur en að fylgt hafi verið undanfarið, og jeg hefi fylgt henni líka. Þessi regla er þó ekki, og hefir aldrei verið, án undantekninga. Þannig hafa menn, er starfað hafa í stjórnarráðinu, einatt haft nokkurn forgangsrjett, og um veitingar læknishjeraða hafa ráðið till. landlæknis. Auðvitað hefir þessi regla ekki heldur verið látin gilda um æðstu embættin. Hvað annars snertir þann embættismann, sem hjer er um að tala, þá finst mjer hann, að þessu leyti, ófyrirsynju dreginn inn í umr. Hann hafði að vísu einhvern tíma sagt lausu embætti sínu, en sú laussögn hafði verið tekin aftur, svo að hún mátti skoðast sem burtu fallin. Að öðru leyti er til um embættisfærslu þessa manns dómur, eftir eftirlitsmann stjórnarinnar, og eftir honum að dæma, er embættisferill hans góður. Var því ekki ásæða til annars en að láta embættisaldur ráða í þessu tilfelli. Um hitt atriðið, að hann var tekinn í fossanefndina, skal jeg ekki deila. Það kemur ekki þessu máli við. Það, sem okkur varðar hjer, er það, að þegar maðurinn var tekinn frá embættinu, var annar settur í staðin.

Það hefir verið talað um, að embættinu hafi þjónað á annan tug manna. Aðallega munu hafa þjónað því þrír kandidatar, meðan embættismaðurinn var burtu, og einn hreppstjóri fyrst, örstuttan tíma, og annar síðar, lengri tíma að vísu. Þetta er sannleikur. Hitt tel jeg þingmönnum ósamboðið, að koma með þessar tölur, 13 eða 14, sem þeir geta ekki sannað. Það mætti sjálfsagt tala um, hvernig fleiri embættum er þjónað, ef farið er að mæla með þeim kvarða. Að undanteknum 3 mánuðum eða svo hefir sýslunni verið þjónað af þrem fullgildum lögfræðingum í þessi 2 ár. Má vera, að skrifari sýslumanns hafi þjónað embættinu í stuttri fjarveru sýslumanns annars. Það hefir þráfaldlega komið fyrir á sumrum, er embættismaðurinn tekur sjer sumarleyfi. Ef ekki er meiningin að finna að þessu, finst mjer rangt að nefna slíkt og annað eins.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var að tala um sundrungarmálin. Jeg veit, að háttv. þm. (G. Sv.) þekkir vel til þess og veit, að þau gerðust aðallega á undan þeim tíma, sem hjer er um að ræða, og hefir tiltölulega lítið á þeim borið síðan. Það er alveg rjett, og jeg segi það eins og jeg meina, að það var fullkomlega rjettmæt og forsvaranleg ráðstöfun, að fenginn var sá góði maður, sem embættinu þjónaði 1915–17. En hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segir, að hann hafi verið sama sem fastur maður. En það er sannleikur, að svo var ekki, og hv. þm. (G. Sv.) veit það, að hann var ekki fastur.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var að leggja áherslu á það atriði, hvort embættismaðurinn er borinn og barnfæddur í sýslunni eða ekki. Það verð jeg að telja mjög lítilsvert, því vitanlega getur það aldrei orðið neinn mælikvarði. Og jeg þekki ekki, að hægt sje að fara eftir því.

Mjer þætti fjaska gaman að vita, og vildi spyrja hv. fyrirspyrj. (E. A.), og skora á hann að svara því, hvort það sje meiningin að finna að því, að Páll Jónsson var ekki settur til að þjóna embættinu. Hann er auðvitað ekki skyldugur til að svara, því að jeg hefi ekki leyfi til að bera upp fyrirspurnir fyrir hv. þm„ en mjer þætti mjög gaman að vita þetta. Mjer fanst og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) koma mjög nærri því, að finna að því, að það var ekki gert. Að vísu höfðu þeir Guðmundur Eggerz og Páll Jónsson engan rjett á að krefjast svars af mjer. En jeg sagði þeim báðum saman afdráttarlaust, er þeir töluðu við mig, að jeg vildi ekki setja Pál í þá sýslu, og ástæðuna. Það er misminni, að jeg hafi lofað skriflegu svari. Jeg hygg ekki, að jeg sje skyldugur til að gera skriflega grein fyrir því, hvers vegna jeg vildi ekki setja þennan ákveðna mann til að þjóna embættinu. Stjórn mun yfirleitt ekki þurfa að gefa ástæður fyrir, hvers vegna hún veitir ekki embætti eða setningu. En jeg hefi sagt þessum mönnum báðum, í viðtali, að jeg gæti ekki að svo vöxnu máli álitið rjett að setja Pál Jónsson. Jeg bjóst ekki við að þurfa að segja fleira um þetta. En ef hv. þm. Árn. (S. S. og E. A.) gefa ástæðu til að ætla, að Árnesingum hafi mislíkað, að þetta var ekki gert, verð jeg auðvitað að svara því frekar.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) spurði, hvort von væri til, að sá, sem nú þjónar sýslumannsembættinu, hjeldi því áfram. Jeg get svarað því, að jeg hefi fulla ástæðu til að vona það.

Mun jeg svo ekki segja fleira, en bíða frekari tilefnis af hálfu fyrirspyrjanda.