05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í C-deild Alþingistíðinda. (3925)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. samþ. minn og aðalfrsm. (E. A.) hefir nú gert grein fyrir þessari fyrirspurn, á mjög svo hógværan og eðlilegan hátt, og er þar engu við að bæta. Hitt skal jeg taka fram, og undirstrika með honum, að þessi óreiða þar eystra, með sýsluna og sýslumennina, hefir valdið sýslubúum margra erfiðleika og tafa í afgreiðslu mála. Þetta segi jeg ekki til að kasta steini á þá menn, sem settir hafa verið þar, lengri eða skemri tíma. En af þeim ástæðum, sem teknar hafa verið fram af hv. samþm. mínum (E. A.) og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), er sýnt, að svo hlaut að vera, er þeir voru oft settir mjög stuttan tíma, höfðu ekki ráð á bókum sýslunnar, og áttu auk þess stundum ekki að gegna nema nokkrum hluta þeirra mála, er embættinu við kemur.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta, því tilefnið til þess, að jeg stóð upp, voru ummæli hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) um Guðm. Eggerz sem fossanefndarmann. Mjög mörgum Árnesingum kom illa, að hann skyldi vera skipaður í þá nefnd, nýkominn til sýslunnar, og það er engan veginn rjett hjá hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að mætir menn í Árnessýslu hafi óskað þess, að hann væri skipaður í nefndina, eins og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir sagt hjer í hv. deild þremur eða fjórum sinnum. Hitt er rjett, að sýslunefnd Árnessýslu óskaði þess, að hún mætti benda á einn mann í nefndina. En það var alt annar maður en Guðmundur Eggerz, sem Árnesingar óskuðu eftir til þessa starfa. Þetta segi jeg ekki til ámælis Guðmundi, heldur til að leiðrjetta margítrekaða umsögn hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Það var mjög eðlilegt, að þeir óskuðu ekki eftir því, að hann færi í nefndina; í fyrsta lagi af því, að maðurinn var alveg ókunnugur, hvernig hagaði til í sýslunni, og í öðru lagi var hann nýkominn þangað, og nóg að gera fyrir hann þar sem yfirvald. Auk þess liggur það í hlutarins eðli, að sýslubúar vilji hafa yfirvald sitt hjá sjer, þannig, að það sje meira en að eins að nafninu.