05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í C-deild Alþingistíðinda. (3926)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) beindi til mín fyrirspurn, og kvað mig vel hafa mátt rekja sögu sýslumannsembættisins í Árnessýslu alt til ársins 1915, þegar Eiríkur Einarsson var settur þar sýslumaður. Þetta hefði auðvitað mátt gera, en jeg veit ekki til þess, að nokkur hafi kvartað undan þeirri embættissetningu, nema einn eða tveir menn, sem þá voru búsettir í sýslunni, og ýfðust mjög við þeim manni í ræðu og riti. En það sama höfðu þeir gert við fyrirrennara hans, jafnvirtur og velmetinn sem hann var af Árnesingum, svo að jeg legg ekki mikið upp úr árásum þeirra. Auk þess er því til að svara um þá setningu, að þegar hún fór fram, var milliþinganefndin frá 1914, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) átti sæti í, að starfi, og var mjer það kunnugt, að hún hafði á prjónunum tillögur um gerbreyting á skipun dómsvalds og umboðsvalds og á launakjörum sýslumanna. Formaður nefndarinnar var búinn að segja mjer þetta, og því þótti mjer eðlilegt að veita ekki embættið fyrir fult og alt, fyr en komið væri á daginn álit nefndarinnar, enda lagði hún það til í nál. sínu, að sýslumannsembætti yrðu ekki veitt meðan eigi væri sjeð, hvernig till. hennar reiddi af. Þá átti líka sá maður þarna í hlut, sem var nákunnugur í sýslunni og þekti svo að segja hvert mannsbarn þar. Annars veit jeg ekki, hvort hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og mjer ber nokkuð verulegt á milli, nema þá helst með þær tölur, sem jeg nefndi. Jeg sagði, að mennirnir væru 13 eða 14, sem þjónað hefðu Árnessýslu þennan umrædda tíma, en það má vel vera, að jeg hafi ekki talið þar nákvæmlega. Jeg endurtek það, að jeg hefi ekkert að því að finna, þótt núverandi sýslumaður fengi sumarleyfi 1917, en að hinu fann jeg, að sýslumannsembættinu hafi ekki verið sjeð fyrir nægilegri þjónustu á meðan. Það er algengt, þegar sýslumenn fá sjer sumarfrí, að þeir þá setji skrifara sína í staðinn fyrir sig, því að þeir eru vanir störfunum og þekkja vel orðið alla tilhögun þeirra, en hjer var ekki slíku til að dreifa, því þessi sýslumaður hafði víst engan skrifara.

Sundrunginni í sýslunni var að mestu lokið, þegar Guðmundur Eggerz tók við henni, enda blandaði jeg þeim deilum ekki mikið inn í málið. Menn þeir, sem þar áttu hlut að máli, eru flestir farnir úr sýslunni, og þeirra hagsmunir og óðul standa þar ekki lengur.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að hann teldi sjer ekki skylt að gefa ástæður fyrir því, hvers vegna hann vildi ekki setja Pál Jónsson í sýsluna. Jeg er þar á sama máli. Jeg álít, að ráðherra sje ekki skyldur til þess að gefa ástæður fyrir slíku, enda getur verið um þær ástæður að ræða, sem gæfu orðið til að ergja menn og til þess að valda ófriði, væru þær látnar uppi. En hæstv. forsætisráðh. (J. M.) beindi jafnframt að mjer þeirri spurningu — sem átti víst að vera samviskuspurning — hvort jeg fyndi nokkuð að því, að þessi maður var ekki settur í sýsluna. Og því er hægt að svara.

Í fyrsta lagi var spurningin tilefnislaus, því jeg vjek ekki að henni. Og í öðru lagi, að ef jeg hefði verið í sporum hæstv. forsætisráðherra (J. M.), mundi jeg að líkindum hafa farið alveg eins að og hann gerði, og litið svo á, að það væri varhugavert að setja í hvaða sýslu sem væri mann, sem margir sýslubúar hefðu beinlínis neitað að taka við. Þótt mjer sje alveg ókunnugt um hæfileika þessa manns til að gegna embættinu, þá get jeg sagt það, að það hefði verið varhugavert að setja hann þangað gegn skýlausri neitun sýslubúa. Kom það fram með þeim hætti, að sýslunefndin sagði öll af sjer, vegna þess, að Páll var þangað sendur, og er það fullur vottur þess, að hann hefir verið henni enginn aufúsugestur. Og þótt stjórnin hafi fulla heimild til að setja menn í embætti, án tillits til vilja sýslubúa, þá er gott að geta komist hjá því.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fór út í það, að jeg hefði veitt Dalasýslu Bjarna Johnsen, cand. juris. Jú, það var rjett, að jeg gerði það, því hann var elsti umsækjandinn. Og regla mín var að veita þeim, sem elstur var. Þó var gerð ein undantekning, að því er snerti Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Um hana sóttu þrír sýslumenn, og var hún veitt hinum yngsta þeirra, því hann hafði setið í æðstu stjórn landsins, og taldi jeg því sjálfsagt að gera þar undantekningu og láta hann ganga fyrir. (Fjármálaráðh.: Jeg þakka hv. þm. (E. A.) fyrir góðsemina). Ekki veit jeg heldur til, að neinn hafi fundið að því, að Eggert Briem var skipaður yfirdómari í minni tíð, og var hann vist af öllum talinn sjálfsagður í það embætti.

Embættisafsögn Guðmundar Eggerz árið 1916 hefir verið blandað hjer inn í umr., og er því rjett, að jeg gefi um hana þær upplýsingar, að hann var ósammála stjórninni um atriði í sveitarstjórnarlögunum, og stjórnin feldi þar úrskurð hans úr gildi. Símaði hann þá suður, að hann vildi ekki láta stjórnarráðið óvirða sig oftar, og sagði af sjer. Jeg hjelt, að hann hefði gert þetta í bráðræði, eins og líka var, svo að málið var látið liggja uns hann kom sjálfur suður. Talaði jeg þá við hann, og tók hann þá embættisafsögn sína aftur. Svo fjekk hann ferðaleyfi, sem sjálfsagt var að veita honum, því hann var lasinn um það leyti og gat illa gegnt embættisstörfum.